02.12.1969
Sameinað þing: 17. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í D-deild Alþingistíðinda. (3075)

69. mál, endurskoðun heilbrigðislöggjafar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að flm. þessarar till. gengur ekki nema gott til með tillöguflutningnum og er sjálfur þeirrar skoðunar, að með þeirri nefndarskipun, sem þeir leggja til, mætti einhverju áorka í sambandi við læknisþjónustuna í dreifbýli landsins og læknisþjónustuna í heild, þó að till. sé miðuð við endurskoðun á læknaskipunarlögum, því að nú er að vísu hægt að taka inn í læknaskipunarlögin víðari svið en þar eru núna, en ýmislegt, sem snertir heilbrigðisþjónustuna í dreifbýlinu, er náttúrlega utan læknaskipunarlaga. Hins vegar vil ég segja, að menn mega ekki gleyma því, sem hv. frsm. fyrir till. vék að, að læknaskipunarlög eru nýlega endurskoðuð, og það var með þeim hætti, sem ég vil leyfa mér að minna á, að landlæknir lagði til fyrri hluta árs 1964, að gerðar yrðu þá þegar ráðstafanir í samráði við læknasamtökin í landinu og nokkra aðra aðila, til að rækileg endurskoðun færi fram á læknisþjónustu dreifbýlisins. Síðan skipaði heilbrmrh. með bréfi 22. maí 1964 6 manna nefnd, sem falið var það verkefni að framkvæma endurskoðun á læknaskipunarlögum nr. 16 19. apríl 1955 og læknisþjónustu dreifbýlisins almennt, í því skyni að finna lausn á hinu aðkallandi vandamáli, sem stafar af skorti á héraðslæknum, einkum í hinum fámennari og afskekktari héruðum landsins. Þessi nefnd var þannig skipuð, að einmitt landlæknir, eins og hér er lagt til, var formaður hennar. Í henni voru einnig Benedikt Tómasson skólayfirlæknir, Óskar Þórðarson yfirlæknir, þáv. formaður Læknafélags Íslands, Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstj. í félmrn., sem hefur sveitarstjórnarmálin með höndum, Jón Thors fulltrúi í dóms- og kirkjumálarn., deildarstjóri heilbrigðismála þar, og svo fulltrúi frá Háskóla Íslands, einmitt læknadeildinni, eins og einnig er vikið að í þessari till. Hér var því um mjög svipaða nefndarskipun sérfræðinga að ræða og þeirra manna, sem fjalla um þessi mál eða eru mest við þau riðnir, bæði frá læknastétt, sveitarstjórnum og kennslunni, Háskólanum, þeim, sem hafa með læknakennsluna að gera. Þessi nefnd skilaði mjög ítarlegri álitsgerð og brtt. um læknaskipunarlögin og mörgum hliðartill., sem ekki voru í frv., en snertu læknisþjónustuna í dreifbýlinu. Frv. var svo lagt fyrir þingið af hálfu ríkisstj. og afgreitt sem lög á þinginu 19641965, á síðari hluta þingsins.

Nú er það alveg rétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði, að ekki hafa þessi nýju læknaskipunarlög leyst úr þeim vanda, svo að viðunandi sé. Það er mér fullkunnugt um og það er kannske ekki öðrum kunnugra nema þeim, sem á brennur sjálfum, eðlilega, en það má segja í raun og veru, að verið hafi áframhaldandi stanzlaus endurskoðun á þessu vandamáli, frá því að þessi lög voru sett, þó að ekki hafi verið unnið að því í sérstakri nefnd eftir að lögin voru sett. Það hefur verið sífellt unnið að þessu í dómsmrn., sem fer með heilbrigðismálin, og í sívaxandi mæli höfð samvinna við læknasamtökin og aðra aðila, sem heilbrigðisþjónustan í dreifbýlinu snertir. Læknasamtökin hafa haldið tvær, ef ekki þrjár ráðstefnur um heilbrigðismál, þar sem þessi vandamál hafa verið tekin til meðferðar og sérstaklega sá þáttur læknisþjónustunnar, sem er í þessum lögum og snertir læknamiðstöðvar í dreifbýlinu. Og á síðasta þingi voru einmitt samþykktar víðtækar breytingar á læknaskipunarlögunum, er sett voru ákvæði um læknamiðstöðvarnar. Það tók nokkurn tíma í þinginu, en um það varð ágætis samkomulag áður en lauk, og allir voru einhuga um að reyna að skapa þann ramma í löggjöfinni, sem gerði mögulegt að koma upp læknamiðstöðvum, sem gætu að einhverju leyti, þar sem þeim yrði við komið, leyst úr þessu vandamáli. Ég vil ekki láta misskilja mitt mál þannig, að ég sé út af fyrir sig á móti till. eins og þessari, en ég vek athygli á því, að ég held, að eins og sakir standa nú, sé í raun og veru ekki mikið verkefni fyrir hana, þar sem að þessum málum hefur verið svo mikið unnið, en ég mun að sjálfsögðu standa með því, að þessi till. fái sína þinglegu meðferð og verði afgreidd sem fyrst til nefndar, og nefndin getur svo, eins og venjulegar þn. gera, kynnt sér, hvort þetta sé vænlegt eða ástæða til eða þörf á að efna til slíkrar nefndarskipunar, í viðræðum við heilbrigðisyfirvöldin, landlækni og aðra aðila, sem þarna um fjalla.

Það er rétt, að það eru 10–12 læknislaus héruð eða héruð, þar sem læknisþjónustunni er gegnt úr öðrum læknishéruðum aðliggjandi. Við blasir þessi stóri vandi, að í helmingnum af þessum héruðum eru sennilega innan við 500 manns og í sumum innan við 100. Og það er eiginlega ekkert þeirra með 1000 íbúa, — jaðra við að vera það, þau fjölmennustu. Nú er talið í nágrannalöndum okkar, að það sé hæfilegt verksvið fyrir lækni að gegna 2 500–10 000 íbúa héraði. Það eru að vísu nokkuð mismunandi skoðanir á þessu, en síðustu tölur, sem landlæknir benti mér á, voru þessar, 2 500 –10 000 manns. Við eigum þarna við ákaflega mikla erfiðleika að glíma. Sennilega geta læknamiðstöðvarnar bætt úr sums staðar. Sums staðar er ekki hægt að koma þeim við. En varðandi atriði, sem ekki eru beinlínis í læknaskipunarlögunum, vil ég sérstaklega nefna kennsluna. Heilbrigðisstjórnin hefur átt um það ítrekaðar viðræður og látið frá sér fara ábendingar til Háskólans um að endurskoða kennslufyrirkomulagið í Háskólanum, einmitt með hliðsjón af því, að kennslufyrirkomulagið miðaðist a.m.k. í einhverjum greinum sínum meira við að útskrifa, ef svo má segja, verðandi héraðslækna. Og nú eru í burðarliðnum nýjar reglur, sem stefna að þessu og vonandi geta orðið til góðs, og miða m.a. að því að gera heimilislækningar og slíkar lækningar, sem víða eru stundaðar af héraðslæknum, að sérgrein, því að mikið kapp er lagt á, að þeir séu sérfræðingar á einhverju sviði. Þetta er eitt af því, sem haft hefur verið til athugunar. Einnig hefur verið athugaður möguleiki til þess að hæta úr læknisþjónustunni í sambandi við flugið, og þar komum við aftur að þeim miklu erfiðleikum að búa í landi, þar sem er langur vetur og veðrasamur, þannig að það verður kannske til einskis gagns, þó að öll fullkomnustu tæki á því sviði væru fyrir hendi, þegar mest á ríður.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vildi aðeins minna á þessi vandkvæði, sem hér er um að ræða, og ég vil meina, að það sé rétt, að í raun og veru hafi verið stanzlaus endurskoðun á þessu vandamáli þessi fáu ár, sem liðin eru, síðan nýju lögin um læknaskipun landsins voru sett, og loks vil ég svo minna á, að á s.l. þingi voru sett lög um Stjórnarráð Íslands, sem gera ráð fyrir því, að sérstakt rn. fari með heilbrigðismál, þ.e. að heilbrigðis- og tryggingamál tilheyri sérstöku rn. Yfirstjórn heilbrigðismálanna hefur verið í endurskoðun í rn. mínu, og það er búið að vinna töluvert mikið að því verki. Það var hins vegar lagt til hliðar í vor sem leið, eftir að sýnt var, að myndað yrði nýtt rn. heilbrigðismála, og taldi ég ekki ástæðu til að halda því lengur áfram, meðan maður ekki vissi, hver mundi með þau mál fara að þeirri breytingu lokinni. En hvað sem því líður ætti það auðvitað að styrkja aðstöðuna í þessum málum, að sjálfstætt rn., sérstakt rn. heilbrigðismála og tryggingamála — og ákaflega mikill hluti tryggingamálanna er beinlínis bundinn við heilbrigðismálin — taki til starfa.

Ég mun að sjálfsögðu fylgja því, að þessi till. fari til nefndar, er framkvæmi sem ítarlegasta skoðun á því, hvort rétt sé að skipa umrædda nefnd eða gera einhverjar aðrar ráðstafanir, eða leggja til einhverja breytingu á orðalagi till., ef henni sýndist, að það gæti verið til bóta.