29.01.1970
Efri deild: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

126. mál, söluskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem hv. þdm. er kunnugt, var það boðað þegar fyrir áramót í sambandi við umr. um EFTA, að jafnhliða þeim tollabreytingum, sem gera þyrfti í sambandi við EFTA–aðildina, þá yrði að gera sérstakar ráðstafanir til að afla fjár til að mæta þeim tekjumissi, er hér yrði um að ræða fyrir ríkissjóð. Var þá þegar skýrt frá því, að ríkisstj. áformaði að afla þessa nauðsynlega viðbótarfjármagns með hækkun söluskatts og er frv. það, sem hér um ræðir, í samræmi við þá yfirlýsingu.

Söluskattur hér á Íslandi hefur verið óbreyttur allt síðan í ársbyrjun 1965, þ.e. hann hefur ekki verið hækkaður í 5 ár og er nú langtum lægstur á öllum Norðurlöndunum, þar eð söluskattur í þessum löndum er yfir 11% og allt upp í 20% í Noregi, eftir að virðisaukaskatturinn tók þar gildi um síðustu áramót. Hér er lagt til, að söluskatturinn hækki úr 71/2% í 11% og er reiknað með því, svo sem þegar hefur verið áætlað í fjárlögum, að með þessum hætti sé hægt að jafna þann tekjumissi, sem ríkið verður fyrir vegna lækkunar aðflutningsgjalda. Jafnframt er hér um nokkra tekjuöflun að ræða í tvennum tilgangi að segja má. Annars vegar er um að ræða tekjuöflun upp á um 100 millj. kr., sem raunverulega er í sambandi við söluskattsálagninguna og er hugsuð til þess að létta byrðar af söluskattinum hjá þeim, sem hafa erfiðasta aðstöðu, þannig að hér er ekki um að ræða tekjuöflun fyrir ríkissjóð, heldur aðeins millifærslu fjár. En þetta fé rennur til þrenns konar þarfa: til hækkunar fjölskyldubóta, til hækkunar ellilífeyris og til niðurgreiðslu á nokkrum vörutegundum, en áformað er, eins og áður hefur verið lýst yfir, að greidd verði niður verðhækkun sú, sem hækkunin mundi ella leiða af sér, á dilkakjöti og smjöri.

Jafnframt hefur verið áformað að fella niður með öllu söluskatt af neyzlufiski. Nú er ekki þar með sagt, að það beinlínis valdi lækkun á neyzlufiski, en það mun a.m.k. koma í veg fyrir verulega hækkun, sem fyrirsjáanleg er annars einmitt á þessari vörutegund vegna þeirrar hækkunar, sem orðið hefur á fiskverði og hlyti að koma fram í verði á neyzlufiski innan skamms. Hér er um að ræða vörutegund, sem er einmitt mjög mikilvæg neyzluvara fyrir þá, sem minnstu hafa úr að spila í þjóðfélaginu og var því þessi ákvörðun tekin, auk þess sem ástæðulaust er að leyna því, að það hafa verið miklir erfiðleikar á að framkvæma innheimtu söluskatts af fiski. Það eru í rauninni fyrst og fremst hinar stærri fiskverzlanir, sem greiða hann, en það er vitað, að mikið af fisksölu fer fram utan fiskverzlana, þannig að ef áætluð fiskneyzla í landinu er borin saman við það, sem inn kemur af söluskatti, þá er auðséð, að söluskattur af þessari vörutegund skilar sér mjög illa. Þannig verður hér ekki um mjög tilfinnanlegan tekjumissi að ræða fyrir ríkissjóð.

Í annan stað, eins og fjárlög bera með sér, skortir fjármagn til þess að framkvæma þær miklu hækkanir, sem gerðar voru í meðförum Alþ. á fjárveitingum til verklegra framkvæmda og hv. þm. voru sammála um og enginn ágreiningur um í fjvn. Alþ. Vitanlega varð þá að sjá fyrir fé til þeirra framkvæmda, en það voru á annað hundrað millj. kr., sem þurfti að afla sérstaklega í því skyni og er gert ráð fyrir, að þessi söluskattshækkun jafni einnig þau met. Að öðru leyti, eins og áætlun fjárlaga bendir til, kemur í ljós, að það er ekki gert ráð fyrir því í þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið, fyrst og fremst af Efnahagsstofnuninni, að tekjuaukning ríkissjóðs af þessum ráðstöfunum geri meira en að vega upp útgjöldin vegna verðtollslækkananna og aðra þá útgjaldaþörf, sem ég hef gert grein fyrir.

Í 2. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því að breyta ákvæðum laganna, sem nú gilda, en þar er að finna tilteknar fastmótaðar reglur um það, hvernig haga skuli greiðslu söluskattsins, framtali, álagningu og öðrum atriðum varðandi framkvæmd söluskattsins. Það er augljóst, að það þarf að gera á þessu víðtækar breytingar og í rauninni er ekki hægt að átta sig til hlítar á því, hvaða breytingar þarf að gera, fyrr en söluskattsálagningin nýja er komin á og er þess vegna leitað eftir því í þessu lagafrv., sem er í rauninni eðlilegt og í samræmi við önnur lög um innheimtu opinberra gjalda, að það séu gefnar víðtækar heimildir til þess að ákveða með reglugerð, eftir því sem henta þykir, bæði form á framtölum og hvernig innheimtunni skuli háttað og eftirliti með henni.

Ég vil hins vegar láta það koma skýrt fram, að það er ætlunin, að söluskattur verði innheimtur miklu hraðar en áður hefur verið. Hann hefur hingað til verið innheimtur ársfjórðungslega og hefur í rauninni verið kvartað yfir því af ýmsum aðilum. Bæði hefur þetta reynzt nokkuð tilfinnanlegt fyrir söluskattsgreiðendur, þó að vísu felist í því allveruleg hlunnindi að hafa söluskattinn svo lengi í sínum höndum, en hættan hefur verið sú, að fyrirtæki hafa átt erfitt með að standa í skilum ársfjórðungslega, því þau hafa ekki hirt um að leggja til hliðar þá fjárhæð, sem þau eiga að standa skil á. Verður þetta mun tilfinnanlegra eftir því sem söluskatturinn verður hærri. Þá er því heldur ekki að leyna, að þessi ársfjórðungslega innheimta söluskattsins hefur haft mjög ill áhrif á bankakerfið, þar sem geysilegar fjárhæðir hafa streymt út úr bönkunum, annaðhvort úr innistæðureikningum eða þá að fyrirtæki hafa þurft að fá aðstoð síns viðskiptabanka til þess að greiða þær á tilteknum gjalddögum. Þetta hefur að undanförnu verið svo á einum degi, fjórum sinnum á ári. Þá hafa komið inn til ríkissjóðs á þriðja hundrað millj. kr., sem hafa að sjálfsögðu að verulegu leyti streymt út úr bankakerfinu og raskað starfsemi þess. Það er því áformað að breyta álagningu og innheimtu söluskatts, en það eru víðtækar reglur, sem þar þarf að taka til meðferðar og það tekur nokkurn tíma að átta sig á til hlítar, hvernig hagkvæmast yrði að framkvæma þetta. Jafnframt vil ég láta það koma fram, að það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera allar hugsanlegar ráðstafanir til að tryggja það, að söluskattur komi til skila.

Það er gert ráð fyrir, að áfram standi í lögunum formleg heimild til að stöðva atvinnurekstur, sem er áhrifaríkasta ráðið til þess að ná söluskattinum inn og hefur leitt til þess, að skil af honum hafa verið mjög góð, sérstaklega hér í Reykjavík. Nú á síðasta ári hefur rn. gefið formleg fyrirmæli um það, að slíkri heimild yrði beitt alls staðar á landinu og hefur það leitt til þess, að söluskattur hefur innheimzt mun betur á s.l. ári en áður og meginhlutinn af eftirstöðvum af söluskatti, sem hefur því miður verið töluverður í sumum innheimtuumdæmum. Þær eftirstöðvar eru nú að verða sáralitlar eða horfnar að mestu. En að öðru leyti þarf að sjálfsögðu að tryggja það, að söluskatturinn skili sér og mun einskis látið ófreistað í því efni. Ég vil láta það koma fram, að starfsemi skattrannsóknardeildarinnar hefur verið aukin á þessu ári og ætlunin er, að auka hana enn meir og samræma betur starfsemi rannsóknardeildarinnar og skattstofanna. Annars hefur yfir eftirlit með innheimtu söluskatts ekki verið í höndum ríkisskattstjóra, heldur í höndum skattstofunnar í Reykjavík og er það nú í athugun, hvort það er heppilegt fyrirkomulag eða hvort ætti að breyta þeirri yfirstjórn. Um það get ég ekkert sagt á þessu stigi málsins.

Hv. Nd. þótti rétt að lögfesta hér sérstaka heimild til fjmrh. um að innleiða svokallað tvöfalt kassakerfi í verzlunum. Ég lýsti því yfir í d., að ég sæi enga ástæðu til að lögfesta sérstaka heimild í þessa átt, hún mundi vera fyrir hendi samkv. því orðalagi, sem er á þessari gr., ef rn. þætti það henta. Þetta hefur áður komið mjög til greina og verið á dagskrá. En satt bezt að segja hafa menn ekki haft mjög mikla trú á því, að þetta mundi auka öryggi í innheimtu, það mundi raunverulega ekki ná til þeirra aðila, sem mest hætta er á að skjóti söluskatti undan, því margir þeir aðilar hafa ekki einu sinni einn kassa, hvað þá tvo. Í annan stað er það að sjálfsögðu undir hælinn lagt, hvort menn leggja til hliðar í kassa slíkar greiðslur jafnóðum og viðskiptin fara fram. Það er oft og tíðum engin aðstaða fyrir fólk að fylgjast með því, þannig að það er auðvitað ekki hægt að taka það sem góða og gilda vöru, sem kann að vera stimplað á viðkomandi kassa, það mundi kosta rannsókn hvort eð er. Og enn eitt atriði, sem ég benti á í því sambandi, er það, að víða um landið er ekki um nein „kontant“-viðskipti að ræða. Sérstaklega á þetta sér stað í verzlunum úti um land og mundi vera miklum erfiðleikum bundið að fylgjast með því. En ég vil taka það skýrt fram, að með þessu er ég ekki að hafa á móti því, að reyndar séu allar leiðir til þess að innheimta söluskattinn sem jákvæðast og það er vitanlega vaxandi þörf á því, eins og ég sagði, vegna hækkunar hans, heldur vil ég aðeins benda á það, að þetta úrræði hefur verið íhugað og ég álit ekki, að það sé neitt töfraúrræði, sem geti leitt til þess, að við getum leyst þennan vanda. Auk þess er því ekki að leyna, að þetta mun einnig hafa í för með sér mjög mikinn tilkostnað fyrir minni fyrirtæki, sem getur orðið þeim nokkuð þungbær. En sleppum því. Þetta atriði verður að sjálfsögðu að athuga gaumgæfilega, þó það hafi áður verið íhugað og með hliðsjón af þeim breytingum, sem nú verða.

Ég tók það fram í Nd., sem ég tel rétt að endurtaka hér, að til meðferðar fjhn. kom erindi frá flugfélögum og skipafélögum, þar sem á það var bent, að söluskattsálagning á farseðla skapaði innlendum aðilum stórfelld vandræði í samkeppni við erlendar ferðaskrifstofur og erlenda söluaðila og jafnvel erlend skipa– og flugfélög, vegna þess að söluskattur af slíkum farseðlum mundi óvíða eða hvergi vera tekinn í nálægum löndum og gæti það leitt til þess, að farþegar færu heldur með erlendum flugfélögum og jafnvel skipafélögum og ekki síður til hins, að hætta væri á því, að menn færu að leika þann leik að kaupa farseðla erlendis og losna þannig við að greiða þann söluskatt, sem er álagður hér. Ég lýsti því þar yfir og vil endurtaka það í þessari hv. d., að þetta vandamál mun tekið til mjög rækilegrar meðferðar og athugunar í rn., sérstaklega hvað varðar söluskatt af erlendum farseðlum. Það er auðvitað allt annað með söluskatt af ferðalögum innanlands. Ég þori ekki að gefa neina yfirlýsingu um það, hvort hægt er að fella hann niður, því þar yrði um að ræða mjög mikið tekjutjón, ef allt þetta á að koma til. En mér sýnist nokkurn veginn augljóst, að það verði að finna úrræði til þess að lagfæra þetta varðandi flugfélögin og skipafélögin, fyrst og fremst þó flugfélögin, í sambandi við sölu farseðla milli landa.

Þá lýsti ég því þar einnig yfir, sem ég raunar hef einnig gert í þessari hv. d., að ákveðið væri að fella niður söluskatt af neyzlufiski. Það var talið rétt og nauðsynlegt að þessar yfirlýsingar kæmu fram í d., áður en málið yrði afgr., af því að hv. n. vildi gjarnan, að það lægi hér fyrir, hvernig hugsunin væri að framkvæma þessi atriði. En það var ekki talin ástæða til þess að setja um þetta ákvæði í frv., vegna þess að fjmrh. hefur almenna heimild til þess að fella niður söluskatt af öllum þeim vörum eða þjónustu, sem söluskattur er á lagður, eftir því sem henta þykir. Það eru hins vegar ýmis ákvæði í söluskattslögunum um þjónustu, sem ekki er beinlínis leyft að leggja söluskatt á, það er annað mál. En þetta er sem sagt hægt að gera án nokkurra beinna lagafyrirmæla.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja um þetta mál, það hafa komið um það raddir og vafalaust koma þær raddir einnig fram í þessari hv. d., að æskilegt væri að undanþiggja margar aðrar vörutegundir söluskatti. Vitanlega væri æskilegt að undanþiggja söluskatti ýmis gjöld og margvíslegar nauðsynjar, en hér er um það vandamál að ræða, sem ekki verður fram hjá gengið, að með einhverjum hætti verður að afla þess fjár, sem ríkissjóður þarf á að halda til þeirra framkvæmda, sem hið háa Alþ. hefur þegar með fjárlögum ákveðið, að ríkið skuli standa undir. Það hefur ekki verið fundin önnur leið eðlilegri en sú, sem hér er um að ræða, og eins og ég í upphafi máls míns sagði, þá hef ég oftar en einu sinni lýst yfir því í fjárlagaræðum undanfarin ár, að það væri óumflýjanleg nauðsyn að taka til endurskoðunar hið mjög svo háa aðflutningsgjaldakerfi, sem er hér á landi. Aðflutningsgjöld hafa að vísu verið lækkuð verulega á undanförnum árum, en langt frá því nægilega, því þau eru hér hærri en þekkist í nálægum löndum og skapar það að sjálfsögðu margvíslega erfiðleika og hættur í milliríkjaviðskiptum, hvað þá þegar það kemur til, sem nú hefur gerzt, að við erum vegna beinna samninga við erlenda aðila skuldbundnir til þess að lækka þessi gjöld og smám saman fella þau niður gegn þeim fríðindum, sem við höfum talið að væru okkur meira virði.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um þetta á þessu stigi, nema frekari tilefni gefist til, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.