14.01.1970
Sameinað þing: 30. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í D-deild Alþingistíðinda. (3085)

86. mál, samvinna yfirstjórna fræðslumála og sjónvarps

Flm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Ég leyfði mér í upphafi þings að leggja fram till. til þál. um samvinnu yfirstjórnar fræðslumála og sjónvarps. Þar sem nokkuð er langt síðan þessi till. var lögð fram, ætla ég að leyfa mér að rifja upp efni hennar. Það er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta sem fyrst fara fram athuganir á því, með hverju móti unnt væri að koma á samvinnu yfirstjórnar fræðslumála og sjónvarpsins með sérstöku tilliti til þess að jafna námsaðstöðu nemenda og starfsaðstöðu kennara í hinum ýmsu landshlutum.“

Frá því að þessi þáltill. var lögð fram, hafa farið fram hér á hv. Alþ. miklar umr. um námsaðstöðu nemenda, og jafnframt um starfsaðstöðu kennara í hinum ýmsu landshlutum, og það er ánægjulegt til þess að vita, að þessar umr. hafa orðið til þess, að í fjárlögum fyrir árið 1970 er að finna heimild til að greiða kostnað til að jafna aðstöðu nemenda í strjálbýli til framhaldsnáms, allt að 10 millj. kr. Þetta er í framfaraátt, þó að þessi upphæð hefði þurft að vera hærri, því að eins og fram kom í þessum umr., er hér um miklar fjárfúlgur að ræða hjá barnmörgum heimilum, og það er bláköld staðreynd, að vegna vaxandi kostnaðar við að senda börn í framhaldsskóla fjarri heimilum, hafa unglingar í dag orðið að sitja heima. Og það er hart á því herrans ári 1970.

Sjónvarpið hefur nú, eins og við vitum, starfað um þriggja ára skeið, og ég held, að það sé mál flestra, að það hafi tekizt vel til með þessi byrjunarár.

Um áramótin síðustu urðu þau þáttaskil í sögu sjónvarpsins, að það nær nú til 90% af landsmönnum. Er það mikið fagnaðarefni, og þá vaknar sú spurning, hvort ekki sé tímabært, að sjónvarpið hefji starfsemi á nýjum sviðum, þar sem það gæti orðið enn frekari lyftistöng menningu og menntun í landinu.

Í framhaldi af umr. um menntamál hér á Alþ. og sjónvarpsmál var samþykkt ný upphæð á fjárlögum, þar sem heimilað var að greiða 250 þús. kr. í kostnað við tilraunakennslu í sjónvarpi. Þetta miðar líka í framfaraátt Hér er þó sömu sögu að segja og um 10 millj., sem ég minntist á áðan, upphæðin er of lág.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessa þáltill. Hún skýrir sig að miklu leyti sjálf og sú grg., sem henni fylgir, og leyfi ég mér því, herra forseti, að leggja til, að umr. verði frestað og till. fari til allshn.