22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (3088)

86. mál, samvinna yfirstjórna fræðslumála og sjónvarps

Frsm.(Jónas Árnason):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þessa till. frá hv. 5. þm. Norðurl. v. um samvinnu yfirstjórnar fræðslumála og sjónvarps og einnig þáltill. frá mér um skólasjónvarp. Ég vildi aðeins láta þess getið í þessu sambandi, að ástæðan til þess, að hér eru tvær till. á ferðinni um raunverulega sama mál, er sú, að þann dag, sem till. frá hv. 5. þm. Norðurl, v. var útbýtt, að morgni þess sama dags lagði ég fram þessa till. mína, sem ég flutti einnig í fyrra, og úr því sem komið var, var ekki hægt að stöðva hana. En n. hefur sem sagt athugað till. báðar og orðið sammála um það að afgreiða þær í einu lagi, orðið sammála um að afgreiða þær þannig, að n. mælir með samþykkt fyrrnefndu till., þó með nokkurri breytingu, eins og segir á þskj. 528. Breytingin er á þá leið, að í brtt. er tekið tillit til upplýsinga, sem fram koma í bréfi frá útvarpsráði, sem fékk báðar till. til athugunar, en þar kemur fram, að þegar er hafinn undirbúningur að skólasjónvarpi, og þess vegna er orðalagi breytt í samræmi við það í brtt, n., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að efld verði sú samvinna yfirstjórnar fræðslumála og sjónvarps, sem þegar er hafin, og að þar verði lögð rík áherzla á að jafna námsaðstöðu nemenda og starfsaðstöðu kennara í hinum ýmsu landshlutum.“

Þessi samvinna yfirstjórnar fræðslumála og sjónvarps, sem þarna er rætt um að sé þegar hafin, er á þá leið, eftir því sem segir í bréfi frá útvarpsráði, að gerð verður tilraun nú á þessu ári með skólasjónvarp í eðlisfræði, enda hafa verið veittar til þessarar tilraunar 250 þús. kr. á fjárl. Nú er þetta enginn obbi, slík fjárveiting til jafnvíðtækrar starfsemi og skólasjónvarp hlýtur að vera, skóla- og fræðslusjónvarp, en byrjun er þetta þó engu að síður, og her að fagna því. Ég vildi aðeins beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh. í þessu sambandi, í hverju þessi tilraun er fólgin og hvenær þess megi vænta, að hún hefjist í sjónvarpinu. Ég vona, að þessi sakleysislega fsp. mín verði ekki til þess að hleypa af stað skriðu upp í ræðustólinn. Nóg er nú að gert á þessum síðustu dögum þingsins með langar umr.

Ég vildi svo aðeins sem flm. annarrar þessarar till. þakka afgreiðslu hennar og vænti þess, að menntmrh. veiti svör við fsp. minni. Ég sá nú, að hann gekk úr salnum. Eflaust hefur hann ætlað að afla einhverra upplýsinga um þetta.