08.04.1970
Sameinað þing: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í D-deild Alþingistíðinda. (3101)

111. mál, endurskoðun laga um framkvæmd eignarnáms

Flm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þessi þáltill. um endurskoðun laga um framkvæmd eignarnáms, sem við stöndum að þm. úr fjórum þingflokkum, er flutt að tilhlutan stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Það er reyndar ekki óeðlilegt, að samtök sveitarfélaganna láti þetta mál til sín taka, þar sem eignarnám mun hvað tíðast fara fram einmitt í þágu sveitarfélaganna. Um eignarnám segir í 67. gr. stjórnarskrárinnar, að enginn verði skyldaður til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji, enda sé lagaheimild til slíks eignarnáms og fullt verð komi fyrir.

Eignarnámsheimildir er víða að finna í íslenzkum lögum. Það er ýmist í sérstökum lögum um einstök eignarnám eða ákvæði almenns eðlis, eins og t.d. í skipulagslögum og hafnalögum, sem vikið er að í grg. með þáltill.

Um framkvæmd eignarnáms gilda lög nr. 61 frá 1917. Þau lög eru nú orðin meira en hálfrar aldar gömul og þegar af þeirri ástæðu sýnist ærin ástæða til endurskoðunar þeirra, þegar höfð er í huga sú gerbreyting, sem síðan er orðin á aðstæðum í þjóðfélaginu: En það, sem gerir slíka endurskoðun aðkallandi öðru fremur, eru þau býsna ófullkomnu ákvæði, sem lögin hafa að geyma um sjálft eignarnámsmatið og matsgerðir.

Eina verðviðmiðun eignarnámslaganna frá 1917 er í 10. gr. þeirra, þar sem segir, að matsverð eignar skuli miðað við það gangverð, sem hún mundi hafa í kaupum og sölum. Þess er ekki krafizt, að rökstuðningur sé í matsgerð fyrir ákvörðun matsverðs, enda mun í flestum matsgerðum rökstuðningur lítill eða enginn vera og tíðast látið nægja það „klassíska“ orðalag: Með hliðsjón af öllum atvikum þykir matsverð hæfilega ákveðið svo og svo margar kr. Hins vegar fjalla matsgerðirnar stundum — og það jafnvel í löngu máli, t.d. í fskj., — um atriði, sem ekki verður séð, satt að segja, að komi hlutverki matsmanna við, svo sem um eignarumráð og sögu matsandlagsins langt aftur í aldir. Það er t.d. ekki langt síðan, að í fskj. með einni matsgerð, sem töluvert hefur orðið umrædd, var farið allt aftur á 12. öld og m.a. tíundaður músagangur á þeirri eign, sem um var að ræða í þessu tilfelli.

Þess eru líka dæmi í matsgerðum, að þar sé byggt á ímynduðum eða óvissum verðhækkunum einhvern tíma í fjarlægri framtíð, sem alger óvissa ríkir um, þó að eignarnámslögin segi ótvírætt, að miða skuli við gangverð.

Þá virðist oft ekkert tillit tekið til þess við ákvörðun matsverðs, þegar t.d. sveitarfélög verða að leggja í stórkostleg útgjöld til að gera nýtanleg og arðbær landsvæði, sem án þess væru óarðbær og verðlaus eða verðlítil fyrir eigendur. Tekjur sveitarfélags af slíkum eignum hrökkva þá sjaldnast fyrir nema hluta af vöxtum af því fé, sem varið hefur verið til nauðsynlegrar framkvæmdar, hvað þá heldur að það hrökkvi fyrir vöxtum af sjálfu matsverðinu.

Þessi ófullkomnu ákvæði eignarnámslaganna hafa, sem kannske ofur eðlilegt er, oft leitt til handahófskenndrar ákvörðunar matsverðsins, sem sýnir sig m.a. í miklu misræmi í einingarverði landa og einnig í stórfelldum breytingum, sem matsverðið getur tekið frá undirmati til yfirmats. Og í því sambandi má vitna til tiltölulega nýlegs yfirmats, þar sem matsverð var lækkað úr tæpum 10 millj. niður í rúmar 5 millj. kr. eða um allt að því helming.

Þá er það þóknun fyrir störf matsmanna. Samkv. eignarnámslögum eiga matsmenn sjálfir að ákveða þóknun sér til handa, en stjórnarráðið sker úr, ef ágreiningur verður. Í lögunum er ekki að finna neinar leiðbeiningar um það, við hvað þóknunin skuli miðuð, og reyndin hefur líka orðið sú, að matsþóknanir hafa oft þótt lítt við nögl skornar. Það virðist full þörf á að setja reglur um ákvörðun matsþóknunar.

Þegar nauðsyn knýr sveitarfélög til, segjum t.d. að ná eignarhaldi á lendum, sem getur verið nauðsynlegt af margvíslegum ástæðum, t.d. til að framkvæma skipulag vegna hafnargerðar o.s.frv., þá er að vísu, sem auðvitað er líka æskilegast, yfirleitt reynt að fara samningaleiðina, og ég hugsa, að margir hafi þá sögu að segja, sem nálægt þeim málum koma, að reynt sé að teygja sig eins langt og unnt er, og mætti kannske í sumum tilfellum segja lengra jafnvel en eðlilegt er í að ganga til móts við verðkröfur landeigenda, til þess að þurfa ekki að fara hina leiðina, að krefjast eignarnáms, vegna þeirrar reynslu, sem af því hefur orðið, bæði varðandi matsverðið og einnig þá óeðlilega háu þóknun, sem oft er gert að greiða í þessu sambandi. Til þess líka að draga úr því mikla misræmi, sem ég áður vék að og sem nú tíðkast oft í matsgerðum, bæði hvað form og niðurstöður snertir, þá væri æskilegt, að matsmenn ættu aðgang að öllum eignarnámsmatsgerðum á einum og sama stað, t.d. eins og í grg. mun vera bent á, í dómsmrn. eða Hagstofunni. Það mundi að sjálfsögðu auðvelda matsmönnum störf þeirra, og það dregur þá úr líkum fyrir því, að aðilum kunni að verða mismunað, eins og nú er algengt.

Þegar haft er í huga, hve miklir hagsmunir eru oft í húfi fyrir aðila eignarnáms, jafnvel svo að skiptir tugum millj., eins og dæmi eru mörg til, þá er það sannast að segja alveg óviðunandi, að þessum málum sé ekki skipað með svo ítarlegri löggjöf sem tök eru talin á og fært þykir. Það er alveg ljóst, að samning slíkrar löggjafar er vandasamt verk, en vafalaust mætti hafa þar til hliðsjónar löggjöf um þessi efni hjá nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum, sem sett hafa um þau ítarleg lög.

Það eru auðvitað mörg atriði, sem koma til greina í sambandi við setningu nýrrar löggjafar um framkvæmd eignarnáms, og ég mætti e.t.v. nefna hér nokkur atriði, sem sýnist auðsætt eða eðlilegt, mjög eðlilegt, að m.a. yrðu höfð í huga. Vil ég þá nefna fyrst skipun matsmannanna, annað réttarfar í matsmálum og í þriðja lagi frágang matsgerðanna, og má segja, að það sé kannske aðalatriði þessa máls, að í frágangi matsgerða eða ákvæðum um hann yrði matsmönnum m.a. skylt að taka beina afstöðu til ákveðinna atriða, eins og t.d. gangverðs, afnotaverðs, kostnaðar, ytri aðstæðna, skipulags o.s.frv. og að rökstyðja niðurstöður sínar að öðru leyti. Það þyrftu að sjálfsögðu einnig að vera ákvæði um hugsanleg réttindi annarra í hlutaðeigandi eign, ákvæði um greiðsluskilmála, þóknun til matsmanna, hvernig hún skuli ákveðin, og um skilaskyldu matsgerða til ákveðinnar stofnunar, t.d. eins og ég áðan nefndi, annaðhvort til dómsmrn. eða Hagstofunnar og að matsmenn skuli eiga aðgang að þessu safni matsgerða, sem yrðu þá í vörzlu þeirrar stofnunar, sem ákveðið yrði.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um till., en vísa að öðru leyti til þeirrar grg., sem henni fylgir. Ég legg svo til, herra forseti, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn. Ég vona, að þetta mál liggi það ljóst fyrir, nauðsyn á endurskoðun þessarar löggjafar, að í þeim efnum geti vart verið um ágreining að ræða og vænti þess því, þó að áliðið sé orðið þinghaldsins, að hv. allshn. sjái sér fært að skila nál. um málið, áður en þingi lýkur.