10.12.1969
Efri deild: 24. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í D-deild Alþingistíðinda. (3116)

99. mál, vandamál atvinnurekstrar úti á landsbyggðinni vegna kostnaðar við vöruflutninga

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef kosið að hreyfa hér máli, sem ég tel vera mjög mikilvægt fyrir hagsmuni allra landsmanna, a.m.k. þeirra, sem ekki eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu, málefni, sem varðar mjög hæði með beinum og óbeinum hætti afkomu þessa fólks og raunar lífskjör. Vegna þess vanda, sem er í sambandi við vöruflutninga, eru raunveruleg lífskjör manna lakari víða um landsbyggðina, vöruverð verulega miklu hærra og launin þess vegna raunverulega miklu minni, og hins vegar er svo vandi atvinnurekstrarins, sem af sömu sökum stafar.

Viðfangsefni þessarar þáltill. eru þessi vandamál og hvernig úr þeim megi bæta, eða öllu heldur um rannsóknir á því, hvernig úr þessu megi bæta. Ég dreg það mjög í efa, að hv. alþm. hafi yfirleitt gert sér fulla grein fyrir því, að hér er um stóra hluti að ræða og það jafnvel svo stóra, að ég tel, að hér sé um eitt allra mesta hagsmunamál landsbyggðarinnar að ræða, og þó er mönnum gjarnt að hlaupa yfir þennan þátt málsins, þegar verið er að ræða um jafnvægi í byggð landsins. Hér er um svo stórt mál að ræða að mínu áliti, að það getur verið alveg afgerandi fyrir byggð í landinu. Það ástand, sem nú er ríkjandi í þessum efnum, hlýtur að þrýsta landsmönnum jafnvel enn meir en orðið er til þess að velja sér búsetu á suðvesturhorni landsins.

Ég er heldur ekki viss um, að löggjafarvaldið hafi gert sér grein fyrir því, hvernig þessi mál standa og hvað hefur verið að gerast síðustu árin, því að þróunin hefur öll verið á hinn verri veg. Til þess að skýra þetta örlítið nánar vil ég nefna nokkur dæmi þess, hvernig flutningskostnaður orkar á vöruverð úti um land og hvernig menn eru beinlínis skattlagðir aukalega af skattheimtukerfi ríkisins, vegna þess að þeir verða að borga flutningskostnað. Við skulum taka eina vörutegund, sem er ekki óalgengt að sé í notkun núna um jólaleytið, þ.e. hveiti, og við skulum segja, að flytja þurfi það til Ísafjarðar. Hér í Reykjavík er leyfð smásöluálagning á hveiti 24%, en þegar flutningskostnaðurinn hefur verið lagður á til Ísafjarðar, t.d. með skipi, sem er allra ódýrasta aðferð til þess að flytja vöruna þangað, þá er álagningin miðað við heildsöluverð í Reykjavík orðin 41.5%, þ.e. kostnaðaraukinn við vöruna, verðhækkunin, er orðinn 16.7%. 60 kg af rúgmjöli mundu hækka sem nemur 23%, kartöflumjölið í 60 kg sekkjum 15%, strásykur í 15 kg sekkjum um 31%, þ.e. álagningin miðað við smásöluverð í Reykjavík er orðin 55% í stað 24%. Ég veit ekki, hvort ég á að telja þetta upp lengur. Ég gæti það vel, en ég held, að þetta sé glöggt dæmi um það, hve ýmsar lífsnauðsynjar eru stórkostlega miklu dýrari úti á landsbyggðinni en hér á Reykjavíkursvæðinu, og er þó þetta dæmi, sem ég nefndi frá Ísafirði, alls ekki það versta, því að t.d. Austfirðingar búa við enn þá lakari hlut og aftur Akureyri lítillega betri. En skoðum þetta dæmi um hveitið í réttu ljósi svolítið betur. Ef það þyrfti nú að flytja þetta með bifreið; þá væri álagningin orðin miklu hærri en þetta, því að flutningskostnaður með bifreiðum er allmiklu hærri. Og ekki nóg með það, heldur er það svo, að smásalinn á Ísafirði má ekki leggja nema á heildsöluverðið — hann leggur ekki á flutningskostnaðinn. Ríkið leggur hins vegar á hann. Það er lagður söluskattur á flutningskostnaðinn, þannig að í þessu tilfelli er um að ræða 2.7% hærri söluskatt á Ísafirði af sama vörumagni en hér í Reykjavík, þ.e. kaupandinn mundi raunverulega borga 9.5% í söluskatt í stað 7.5. Ef við tökum nú sykurinn líka, sem blandast gjarnan hveitinu, þá getur farið svo, ef hann er fluttur með bifreið, sem er dýrasta flutningsaðferð, sem hugsanleg er, að álagningin verði u.þ.b. 80% miðað við heildsöluverð í Reykjavík á móti 24% álagningu hér í höfuðborginni. Og svo kemur söluskatturinn, sem allir, sem við þetta búa, verða að greiða. Ég man varla eftir því, að minnzt hafi verið á það hér á Alþ., að söluskatturinn verkaði þannig, að hann kæmi ekki nokkurn veginn jafnt niður á alla, og sjálfur verð ég að viðurkenna, að ég tók ekki eftir þessu fyrr en ég fór að hugsa málið, og ég efast um, að neytendur geri það almennt. Það er verið að tala um allt að 2% hækkun á söluskatti í sambandi við inngönguna í EFTA og þykir jafnvel mikið. En ég vil segja, að það er alveg eins mikið fyrir okkur, sem úti á landinu búum, að greiða þennan skatt með þessum hætti og þeim mun lakara, sem óréttlætið blasir við, að við verðum að borga þennan skatt hærri en aðrir.

Hér er aðeins um dæmi að ræða, sem sýnir, hvernig þetta getur orðið í sambandi við almennar neyzluvörur, en þegar kemur að ýmiss konar atvinnurekstri, eru dæmin sízt betri. Ég hef ekki fyrir framan mig nákvæmlega útfært dæmi úr raunveruleikanum um þetta efni, en vil þó aðeins nefna eitt. Atvinnurekandi úti á landi þarf að kaupa smávarning fyrir 16 þús. krónur. Hann borgar í flutningsgjald með bifreið 3712 kr., eða varan hækkar um 23%. Í sömu ferðinni þurfti hann að kaupa aðra vöru, sem kannske var hægt að flytja samkvæmt þungataxta, og þar þurfti hann að borga 6 þús. kr. fyrir þá vöru, 2250 kr. eða 37% hærra en það hefði kostað í Reykjavík, og menn ættu því að geta gert sér í hugarlund, hvaða erfiðleika það skapar í atvinnurekstrinum. En það mun næsta algengt, t.d. í húsgagnaiðnaði, að menn verði að kaupa hráefni allt að 30% dýrara en hér tíðkast. Þetta kemur auðvitað ákaflega misjafnt niður á atvinnugreinunum, eftir því hvernig þeim er varið, en a.m.k. er hér um mjög stórt mál að ræða fyrir landsbyggðina.

Nú komum við auðvitað að þeirri spurningu, hvort nokkuð er hægt að gera í þessum málum. Ég tel, að sitthvað sé hægt að gera, þó að ég sé ekki með nein lausnarorð á takteinum. Ég tel, að það mætti bæta samgöngurnar í landinu miklu meira og skipuleggja þær miklu betur, bæði á sjó, landi og í lofti, og gera þær ódýrari en þær eru nú. En í sambandi við þetta kemur auðvitað fram samvizkuspurning, sem sé, hver stefna okkar eigi að vera í þessum málum. Á þjóðfélagið í heild að bera ábyrgð á því að jafna aðstöðu manna hvar sem þeir búa í landinu, eða á að refsa mönnum fyrir það, hvar þeir hafa valið sér búsetu? Ég held, að ekki verði komizt hjá því, að þetta sé hin viðurkennda stefna varðandi samgöngurnar, ef það er á annað borð viðurkennt, að það sé mál allrar þjóðarinnar, en ekki bara einkamál þeirra, sem þurfa að komast um landið og flytja vörur sínar frá þessari einu eða a.m.k. aðalinnflutningshöfn landsins, Reykjavík. Auðvitað væri það mjög veruleg lausn þessara mála og mundi breyta þeim stórlega, ef innflutningshafnir kæmu annars staðar á landinu á heppilegum stöðum, a.m.k. ein í hverjum landsfjórðungi. Á Akureyri er verið að gera verulegt átak í þessum málum, og þess er auðvitað að vænta, að í kjölfar þess átaks geti innflutningsverzlun dafnað þar og þurfi ekki að skipa vörum í eins miklum mæli upp hér í Reykjavík eða láta þær fara hér í gegn eins og nú. En aðstaða ýmissa íbúa annars staðar verður litlu betri fyrir það, og ég held, að það þurfi alveg sérstakrar athugunar við, á hvaða stöðum í landinu á að koma upp einhverjum þeim höfnum og efla innflutningsverzlun. Mér dettur t.d. í þessu sambandi í hug höfn eins og Reyðarfjörður fyrir Austfirði og Ísafjörður fyrir Vestfirði.

Ég sagði áðan, að þessi vandamál hefðu farið vaxandi, og þau hafa sérstaklega farið vaxandi eftir að verðlagsákvæði á flutningsgjöldum voru gefin frjáls. Áður var Eimskipafélaginu gert það að skyldu að taka ekki meira fyrir flutninga vöru til landsins, þó að hún færi ekki í gegnum Reykjavík. Það var sama flutningsgjaldið til hverrar uppskipunarhafnar og til Reykjavíkur. Um leið og verðlagsákvæði voru gefin frjáls, var tekinn upp annar háttur á þessu og Eimskipafélagið lagði á þessar svo kölluðu framhaldsfraktir, sem áður voru ýmist lágar eða engar. Þetta hefur gerbreytt málinu, og nú er svo komið, að það er minnst á mununum oft og tíðum, hvað það kostar að flytja vörurnar frá meginlandinu og til Reykjavíkur og að koma þeim þaðan aftur til staða úti á landi. Það munar alveg sáralitlu í ýmsum tilvikum og gæti ég nefnt tölur um það, en tel þó ekki ástæðu til. En því slæ ég föstu, að það sé nærri lagi að ætla, að þessi aðstöðumunur geti oft munað því, að flutningskostnaður, sem íbúar landsbyggðarinnar vestur, norður og austur á landi verða að greiða, sé u.þ.b. tvöfaldur við það, sem íbúar höfuðborgarsvæðisins búa við.

Ég álít, að það sé mikil nauðsyn, að þessi mál öll séu skoðuð niður í kjölinn og allar staðreyndir varðandi þetta séu dregnar fram í dagsljósið. Ég er viss um, að í sumum tilfellum stafar hinn hái flutningskostnaður af því, að um hrein okurgjöld er að ræða, og á ég þá sérstaklega við meðhöndlun á vörum, sem fluttar eru með skipum, þó að ég fari ekki frekar út í það. En bætt skipulag á flutningunum, meiri nýting á flutningatækjunum, t.d. strandferðaskipunum, sem oft og tíðum sigla hálftóm, í stað 20 tonna bíla, sem plægja vegina og eyðileggja þá fyrir kannske tugi eða hundruð millj. Þessu þarf að breyta og koma eitthvað meira samræmi hér á milli.

Þá er í öðru lagi athugandi, hvaða áhrif fjölgun innflutningshafna hefði og efling innflutningsverzlunar á öðrum stöðum en í Reykjavík, og svo í þriðja lagi, hver aðstoð væri þá nauðsynleg að loknum þeim aðgerðum, sem tiltækar þættu, hver aðstoð væri þá nauðsynleg af opinberri hálfu til þess að jafna þann mismun, sem þá væri eftir. Ég álít þess vegna, að rannsókn á þessum málum í svipuðum tilgangi og í þál. greinir sé brýn nauðsyn og raunverulega ekki hægt að hugsa sér, að þetta mál sé leyst með farsælum hætti öðruvísi en athugun fari fram.

Eins og ég sagði áðan, er oft talað mikið og fagurlega um jafnvægi í byggð landsins, en hlutirnir eins og þeir eru eru kannske ekki alltaf skoðaðir eins rækilega og vera bæri, og tel ég mig hafa bent á einn þátt þess í þessari stuttu ræðu.

Ég hef ekki um þetta fleiri orð. Ég læt aðeins í ljós þá von mína, að hv. þdm. fallist á, að hér sé mál, sem sé þess virði, að það sé skoðað með sérfræðilegum hætti og veiti till. gengi í hv. d. Ég hef valið þann kost að flytja þessa þál. í d., vegna þess að reynslan hefur sannað mér, að það er nær tilgangslaust að flytja svona till. í Sþ. Till., sem við höfum stundum lagt fram í okt., eru ekki teknar til umr. fyrr en nokkrir dagar eru eftir af þingi, og þá er eftir öll athugun á þeim. En ég tel ekki allan mun á, hvort þál. þessi er samþ. í hv. þd. eða í Sþ. Hún er áskorun á ríkisstj. um að láta vinna þarna verk, og ég er viss um, að það verður ekki tekið tillit til þess, að ályktunin kemur frá þessari hv. þd., en ekki Sþ.

Ég legg til, herra forseti, að þessari till. sé vísað til hv. allshn.