29.01.1970
Efri deild: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

126. mál, söluskattur

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austf. gat um það í þeirri ræðu, sem hann flutti hér áðan, að sá maður hefði líklega þótt furðufugl, sem hefði staðið hér upp á þingi 1960 og spáð þeim hækkunum, sem orðið hafa á fjárl. þennan áratug. Það hefði verið talið mjög ótrúlegt og hrein fásinna, ef einhver hefði spáð rétt um það fyrir fram. Ef einhver hefði nú viljað gera þetta árið 1960, að spá fyrir um það, hvað fjárl. mundu hækka næsta áratuginn, þá hefði það auðvitað verið geysilega erfitt verk og ekki á færi neins nema manns með einhverja dulargáfu. En fyrir venjulegan mann hefði þá verið eðlilegast að líta á hækkun fjárl. næsta áratuginn á undan. Og hækkun fjárl. á árabilinu 1950–1960 var þannig, að fjárl. eiginlega nákvæmlega fimmfölduðust á þeim tíma. Aftur á móti hafa fjárl. frá 1960—1970 5½ – faldazt, þannig að ekki virðist nú svo geysilega mikill munur á þessum áratug og þeim, sem næstur var á undan. En mér heyrðist hv. þm. segja, að þetta hefði átt faldazt, en ég skil ekki, hvernig hann reiknar það út.

En það var þó svo, að ég sat á þingi þennan vetur, þ.e. 1960, í Ed. og þá töluðu hér ýmsir spámenn, samt sem áður. Ég man eftir því, að einn af flokksbræðrum þessa hv. þm. stóð hér í þessum ræðustóli og spáði Móðuharðindum af mannavöldum. Og ég get vel skilið það, hvers vegna þessi hv. þm. sér ekki ástæðu til að rifja þann spádóm upp.