25.04.1970
Efri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í D-deild Alþingistíðinda. (3120)

99. mál, vandamál atvinnurekstrar úti á landsbyggðinni vegna kostnaðar við vöruflutninga

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. allshn. og formanni hennar fyrir að hafa lagt vinnu í að athuga þetta mál og greiða fyrir því, að þáltill. fengi þinglega afgreiðslu.

Það er auðsætt af afgreiðslu n., að hún leggur til, að tveir síðari liðir þáltill. minnar, eins og ég lagði hana upphaflega fram, fái fullnægjandi og jákvæða afgreiðslu, en hins vegar er 1. liðnum sleppt. Þetta álít ég að vísu miður farið og vil ekki samsinna öllum þeim röksemdum, sem gegn því hafa komið, að sá liður yrði einnig samþ., en eftir atvikum uni ég þó þessari afgreiðslu, sérstaklega vegna þess að þessi þáttur þáltill. er í meðferð þingsins í annarri till., sem hv. þm. Karl Guðjónsson og tveir aðrir þm. flytja, þó með nokkuð öðrum hætti sé. Að vísu geri ég ekki ráð fyrir, að sú till. nái samþykki á þessu þingi, en það mál verður þá vafalaust tekið upp með einhverjum hætti aftur.

Varðandi skoðun hagstofustjóra á því, að hér sé um að ræða milljóna kostnað, vil ég segja, að ég ber meiri virðingu fyrir hagstofustjóra en flestum öðrum okkar embættismönnum.

Hann er þar áreiðanlega í fremstu röð að öllu leyti, en ég dreg þó í efa, að hann hafi þarna fullkomlega á réttu að standa, þó að ég hins vegar skilji vel, að hann vilji ógjarnan bæta slíkum verkefnum sem þessum á sína stofnun. Hann er bæði sparsamur á fé hennar og býr við að mörgu leyti ónóga starfsaðstöðu, og að því leyti skil ég hans afstöðu til þessa máls. Hins vegar bendi ég á, að við höfum mörg tæki í gangi, sem vel mætti nota til þess að framkvæma slíka athugun. Við höfum t.d. verðlagseftirlit í öllum landsfjórðungum, sem gefur nokkrum sinnum á ári út skýrslur um neyzluvöruverðlag, hver í sínu umdæmi, og sýnist mér því, að meginhlutinn af þeirri athugun, sem þarna er rædd, gæti farið fram á vegum þessara stofnana, án þess að af því hlytist kostnaður. Hitt get ég svo alveg játað, að þarna er kannske ekki eingöngu um hækkunaratriði að ræða, eins og það er orðað í minni till., heldur koma þar einnig til álita önnur atriði, sem gætu dregið úr og verið til lækkunar, en ég held, að þau séu sárafá og mundi ekki verða ofviða þeim stofnunum, sem við höfum fyrir í landinu, án mikils tilkostnaðar að rannsaka t.d., hver húsnæðiskostnaður er. Um skatta og námskostnað er það að segja, að þeir hlutir koma alls ekki inn í okkar almennu framfærsluvísitölu, og það var ekki meiningin með minni till., að það yrði tekið til sérstakrar meðferðar í þessu sambandi.

En sem sagt, hvað sem þessum ágreiningi líður, þá fagna ég því, að till. hefur þó að svo miklu leyti hlotið jákvæða afgreiðslu og uni því eftir atvikum.