02.12.1969
Sameinað þing: 17. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í D-deild Alþingistíðinda. (3125)

84. mál, heyverkunaraðferðir

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég verð að byrja á því að gera þá játningu, að samkvæmt upplýsingum, sem ég hef fengið síðan þessi till. okkar hv. 4. þm. Austf. var lögð fram, má segja, að till. sé óþörf sem slík, þ.e. einföld fsp. hefði komið að sömu notum. Mér hefur sem sé verið bent á það, að fyrir 11 árum flutti hv. 2. þm. Sunnl. ásamt 6 öðrum framsóknarmönnum till. um þetta sama mál og um þetta sama efni, og þessi till. var samþ. 20. febr. 1959 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþ, ályktar að fela ríkisstj. að láta vinna að því í samráði við Búnaðarfélag Íslands, tilraunaráð búfjárræktar, verkfæranefnd ríkisins og rannsóknaráð ríkisins, að tilraunir með votheysgerð og votheysfóðrun verði auknar svo og leiðbeiningarstarfsemi á þessu sviði; enn fremur að stuðla, eftir því sem við verður komið, að útbreiðslu annarra heyverkunaraðferða, er að gagni mega koma í óþurrkum.“

Eðlilegast hefði sem sé verið að spyrja einfaldlega viðkomandi hæstv. ráðh., landbrh., hvað liði framkvæmd þessa máls, sem samþ. var á hinu háa Alþ. fyrir 11 árum. Málið er, að megininntakið er hið sama og felst í þessari till. okkar hv. 4. þm. Austf., þó segja megi kannske, að hv. 2. þm. Sunnl. og félögum hans sé meira í hug sérstaklega votheysverkun heldur en okkur flm. þessarar till.

Það skal enn fremur játað, að till. þeirra félaganna var miklu betur í stakkinn búin, hvað grg. snertir, heldur en þessi till. okkar hv. 4. þm. Austf. Henni fylgdi ítarleg grg. byggð á mikilli þekkingu og mikilli reynslu, enda voru flestir flm. till. bændur sjálfir, svo að í hversdagsstörfum sínum höfðu þeir að sjálfsögðu verið knúðir til meiri umþenkinga um þetta mál heldur en við flm. þessarar till.

Þetta vildi ég sem sé taka fram til þess að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning. Þeir flm. till, frá því fyrir 11 árum mega alls ekki halda, að við flm. þessarar till. höfum ætlað að ræna þá verðskulduðum heiðri fyrir áhuga þeirra og forgöngu á þessum vettvangi. Eins og ég sagði, þá olli því aðeins ókunnugleiki hjá mér og sennilega gleymska hjá hv. 4. þm. Austf., sem átti sæti hér, þegar till. þeirra framsóknarmanna var samþ. fyrir 11 árum, að við flytjum málið í þessu formi í stað þess að byggja á hinni samþykktu till. þeirra félaga.

En hvað um það, vandinn er enn hinn sami, munurinn er aðeins sá, að í sumar blésu votir vindar úr öfugri átt við það, sem þeir gerðu fyrir 11 árum, þegar óþurrkar léku bændur á norðan- og austanverðu landinu grátt, svona álíka grátt og þeir hafa leikið bændur á Suðurog Vesturlandinu núna. Vandinn er enn hinn sami, og þörfin á lausn hans er sízt minni núna heldur en þá, og það eitt út af fyrir sig ætti að nægja til að réttlæta, að flutt sé till. eins og þessi.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um málið, enda margir hér á þingi til þess miklu hæfari heldur en ég, svo að ég geri nú enn eina játningu.

Ég leyfi mér að leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.