02.12.1969
Sameinað þing: 17. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (3126)

84. mál, heyverkunaraðferðir

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig mjög eðlilegt, að svona máli sé hreyft á hv. Alþ., og það var gott, að hv. flm. rifjaði upp samþykkt þeirrar till., sem hér var gerð fyrir nokkrum árum um svipað efni. Nú mætti kannske virðast út frá þessu, að þetta mál lægi mjög í láginni, en mig langar aðeins til þess að koma því að við þessa umr., að það er sífellt í gangi starfsemi einmitt um rannsóknir á heyverkunaraðferðum. Það er vafalaust með það eins og ýmsar aðrar rannsóknir, að mörgum finnst þeim miða of hægt og þær skili of seint árangri, og um það má náttúrlega deila. En ég vil þó láta það koma fram, að við Rannsóknastofnun landbúnaðarins starfar svonefnd bútæknideild, sem hefur aðsetur að Hvanneyri, og hún hefur m.a. sérstaklega haft með höndum rannsóknir á heyverkunaraðferðum. Það er líka vitað, að nýjar aðferðir hafa komið fram, það eru að vísu allmörg ár síðan, en ég vil þar sérstaklega nefna súgþurrkunina, sem nú er orðin mikilvirkasta bjargráðið um allt land gegn óþurrkunum og mikilvirkasta hjálpin.

Það var núna fyrir örfáum dögum til umr. frv. út af svo nefndum hagræðingarsjóði, þar sem ég man, að hv. frsm., 5. þm. Norðurl. e., minntist einmitt á súgþurrkunina og taldi, að það væri enn þannig ástatt, að menn kynnu naumast að nota hana. Ég held, að þetta sé misskilningur. Hins vegar er enginn vafi á því, að með súgþurrkun, eins og flest bjargráð og fyrirbæri þarf nokkra þekkingu og skilning hvers einasta bónda, — ef maður talar um það, sem þá snertir, — til þess að hagnýta það þannig, að það komi að sem beztu gagni. En súgþurrkunin sjálf er árangur af tilraunum og rannsóknum, sem tvímælalaust er búin að gera íslenzkum landbúnaði stórkostlegt gagn, enda hefur verið stutt sérstaklega að útbreiðslu þeirrar aðferðar með ríflegum stuðningi af hálfu hins opinbera við það t.d. að koma upp súgþurrkunarkerfum. Það er enn fremur um votheysverkunina að segja, að sífellt eru í gangi rannsóknir í þeim efnum, og nægir að benda á það, að í seinni tíð er orðið mjög útbreitt að nota maurasýru til verkunarinnar, sem að vísu að minni hyggju er alls ekki nauðsynlegt í mörgum tilfellum, en með því er þó hægt að tryggja verkun og gera að sæmilegu fóðri hey, sem ella væri ekki hægt að gera að fóðri í votheyi. Mér þykir rétt að þetta komi fram út af þessari þáltill., að það eru sífellt í gangi ýmsar rannsóknir á eldri og nýrri aðferðum með heyverkun, vegna þess að öllum er ljóst, að þetta er meginundirstaða, í raun og veru meginundirstaða í íslenzkum landbúnaði, sem byggist á búfjárrækt, og búfjárræktin byggist á heyfóðrinu. Ég ætla ekki á neinn hátt að andmæla því, að þessi till. sé komin fram, og það er sjálfsagt að hún fái eðlilega athugun í n. Ég vil aðeins, að það liggi ljóst fyrir, að það eru sífellt í gangi tilraunir með ýmist endurbætur á eldri heyverkunaraðferðum eða með nýjar aðferðir.