07.04.1970
Sameinað þing: 66. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í D-deild Alþingistíðinda. (3136)

186. mál, hafnargerð í Þjórsárósi

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Sunnl. sagðist ætla að gera smávegis aths. við þau fáu orð, sem ég viðhafði um þetta málefni rétt áðan, en ég verð að segja það, að ég á dálítið erfitt með að átta mig á því, hvað hann hafði við mitt mál að athuga eða hvað hann vildi leiðrétta. Það, sem ég þykist sjá nú, sem ég ekki vissi áður, er það, að hv. 6. þm. Sunnl. virðist hafa ákveðið það sjálfur, áður en rannsókn fer fram, hvað út úr rannsókninni á að koma, því að hann segir, að þarna eigi að starfa á allt annan hátt en venja hefur verið um hafnargerðir áður. Mér skildist, að till. væri um það að rannsaka, með hverjum hætti ætti að gera höfn í Þjórsárósi, en ekki um það, hvort ein ákveðin leið væri fær og önnur ekki. Þá sagði hv. þm., að þetta mál hefði borið hér á góma fyrr í vetur í umr. um allt annað málefni, að þeim tilmælum hefði verið beint til einhverrar stofnunar, að hún liti á mál þetta í leiðinni. Ég veit ekki betur en um þetta hafi verið hreinar yfirlýsingar af hendi ráðh., að hann hefði lagt fyrir vita- og hafnamálastjóra að láta þessar rannsóknir fara fram. Ég sé því ekki betur en að sú aths., sem hv. þm. ætlaði að gera við mitt mál, hafi verið algerlega út í hött.