29.04.1970
Efri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í D-deild Alþingistíðinda. (3138)

186. mál, hafnargerð í Þjórsárósi

Frsm. meiri hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Efni þessarar till. er, eins og hv. d. er kunnugt, að d. skori á ríkisstj. að láta fara fram rannsókn á möguleikum til hafnargerðar í Þjórsárósi með sérstöku tilliti til þess, hverja aukna möguleika það kunni að gefa til hafnargerðar, ef aukið verði vatnsmagn í ánni og vatnsmagn hennar jafnað.

Samgmn. hefur fjallað um þessa till. og sýnist meiri hl., að það sé þess vert, að þetta verði gaumgæfilega athugað, eins og segir í nál., en n. varð ekki sammála um þetta. Minni hl. n. hefur gefið út sérálit og telur, að engin þörf sé að samþykkja þessa till., vegna þess að það hafi komið fram í svari hæstv. samgmrh. Ingólfs Jónssonar, að hann hafi óskað eftir því við hafnamálastjórnina, að hún athugi hafnarstæði í Þjórsá um leið og hún heldur áfram athugunum sínum á hafnargerð í Þykkvabæ. Ég tel, að í þessu gæti mikils misskilnings. Hér er alls ekki um sama málið að ræða. Það er að vísu rétt, að Þjórsá rennur til hafs við Þykkvabæ og vera má, að höfn, sem gerð yrði í Þjórsárósi, yrði grafin inn í Þykkvabæ. En athugunin, sem hæstv. ráðh. greindi frá í svari sínu, var greinilega miðuð við það, að byggð yrði úthöfn, þ.e. að byggðir yrðu grjótgarðar fram í hafið og höfnin mótaðist af þeim görðum. Þessi till. er aftur á móti, eins og fram kemur í grg. hennar, miðuð við hitt, að höfnin verði grafin inn í landið og meginuppistaða hafnarinnar verði áin sjálf. Ég tel þess vegna, að þarna gæti misskilnings. Hér getur ekki verið um það að ræða, að framhaldsrannsókn á hafnargerð eins og hafnamálastjórnin hefur hugsað sér hana í Þykkvabænum, geti nægt sem rannsókn á því, sem hér er farið fram á, að rannsókn sé gerð á.

Annars sé ég ekki ástæðu til þess að orðlengja um það, nema sérstakt tilefni gefist, en sem sagt, meiri hl., sem við skipum, hv. 5. landsk. þm., Jón Árm. Héðinsson, hv. 1. þm. Vesturl., Ásgeir Bjarnason, og hv. 2. þm. Austf., Páll Þorsteinsson, leggur til, að till. verði samþ. og fram fari gaumgæfileg rannsókn einmitt á þeim grundvelli, sem till. gerir ráð fyrir.