29.04.1970
Sameinað þing: 49. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (3144)

221. mál, bygging þjóðarbókhlöðu

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Árið 1957 samþykkti Alþ. till. um, að sameina skyldi Landsbókasafn og Háskólabókasafn. Síðan hafa farið fram viðræður um það milli menntmrn., Landsbókasafns og Háskólabókasafns, með hverjum hætti söfnin yrðu með skynsamlegustu móti sameinuð. Ákvæði hefur verið tekið í nýsamþykkt lög um Landsbókasafn varðandi þetta efni. En í þeim húsakynnum, sem söfnin hafa nú yfir að ráða, er augljóst, að sameining safnanna er ekki framkvæmanleg. Hins vegar hefur í framhaldi af þeim viðræðum, sem fram hafa farið milli rn. og forstöðumanna safnanna, átt sér stað nokkur undirbúningur að byggingu þjóðarbókhlöðu og frumáætlanir hafa verið gerðar. Var á sínum tíma leitað til Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna um það, hvort á vegum þeirrar stofnunar væri völ á sérfræðingum, sem gætu veitt aðstoð, tæknilega og fræðilega aðstoð við undirbúning málsins, en bygging þjóðarbókhlöðu er mjög vandasamt og viðamikið fyrirtæki. Var þetta gert í framhaldi af því, að Alþ. veitti fyrir nokkrum árum nokkrar byrjunarfjárveitingar til byggingar þjóðarbókhlöðu. Eru þær frumáætlanir til, og er gert ráð fyrir því, að þeir tveir sérfræðingar, Breti og Norðmaður, sem hingað komu á s.l. ári til viðræðu um málið, komi aftur í vor.

Árið 1966 kaus Alþ. nefnd til þess að gera till. um, með hverjum hætti ellefu hundruð ára afmælis Íslandsbyggðar 1974 skyldi minnzt. Ein af till. þeirrar nefndar er sú, að þessa merka afmælis í sögu Íslendinga skuli minnzt með þeim hætti að reisa þjóðarbókhlöðu. Sú till. fékk mjög góðar undirtektir, bæði innan þings og utan, og hika ég ekki við að fullyrða, að henni hefur stöðugt vaxið fylgi síðan hún kom fram. Raunar hafði hugmyndin um byggingu þjóðarbókhlöðu í sambandi við ellefu hundruð ára afmæli Íslandsbyggðar komið fram áður, en hún var sett formlega fram af hálfu afmælisnefndarinnar, og ég hef ekki orðið annars var en að hvarvetna, þar sem hennar hefur verið getið á annað borð, hafi hún hlotið góðar undirtektir.

Í framhaldi af því, sem ég hef nú lýst, hefur ríkisstj. flutt till. þá til þál. um byggingu þjóðarbókhlöðu, sem hér er flutt. Ég vona, að þessi till. nái samhljóða samþykki á hinu háa Alþ. Ef svo verður, mun ríkisstj. beita sér fyrir fjárframlögum í því skyni að hrinda efni till. í framkvæmd. Ekki er við því að búast, að byggingunni geti orðið lokið 1974, enda verður hér um mjög vandaða og dýra byggingu að ræða, sem undirbúa þarf mjög vel. Engu að síður á bygging þjóðarbókhlöðunnar að vera tengd þessum merkisatburði í sögu Íslendinga.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.