29.01.1970
Efri deild: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

126. mál, söluskattur

Kristján Thorlacius:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. neitt að ráði. Það voru aðeins örfá atriði, sem fram komu í ræðu hæstv. fjmrh., sem mig langaði að minnast á.

Hæstv. ráðh. leiðrétti það, sem hann kallaði missögn, í frásögn dagblaðsins Vísis um afstöðu ríkisstj. til launamála hinna hæst launuðu embættismanna hjá ríkinu. En í sama orðinu kom það fram hjá hæstv. ráðh., að hann teldi allar líkur á því, að ríkisstj. mundi sjá sér fært að taka undir launakröfur þeirra, sem hæst eru settir í launakerfi ríkisins. Hins vegar gat ég ekki betur skilið ráðh. en hann drægi það mjög í efa, að unnt yrði að verða við öðrum launakröfum af hálfu opinberra starfsmanna heldur en þeirra, sem í hæstu launaflokkunum væru og háskólamanna.

Ég er sammála því, að leiðrétta þarf laun háskólamanna. En það er sannarlega ekki síður þörf á að hækka verulega laun þeirra annarra, sem lægst eru launaðir og þeirra, sem hafa miðlungslaun hjá ríkinu. Ég vil í þessu sambandi leggja áherzlu á það, að um margra ára skeið hefur það verið og er enn stefna BSRB að tryggja laun almennt, þannig að telja megi, að allir opinberir starfsmenn hafi lífvænleg laun, en jafnframt verði hæfilegt launabil innan launakerfis ríkisins. Það er vissulega rétt, að þetta launabil er nú orðið of lítið hér á landi, miðað við það, sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. En ég vil leggja áherzlu á það, að ég tel það siðferðisskyldu, að fyrst sé hugsað um það, að menn geti lifað af launum sínum, allur almenningur í launastétt. Það er frumskyldan. En það er einnig þjóðfélagsleg nauðsyn, að það sé hæfilegt bil milli launaflokka, þannig að eftirsóknarvert sé að afla sér menntunar og taka á sig ábyrgð, sem því fylgir, að vera í ýmsum ábyrgðarstöðum og sérfræðingsstöðum hjá ríki og sveitarfélögum.

Hæstv. fjmrh. minntist á, að það hefði verið og væri stefna ríkisstj. að hverfa frá beinum sköttum til óbeinna og gat þess í leiðinni, sem áður hafði komið fram í aths. við frv. til tollskrárlaga, sem nú liggur fyrir Alþingi, að stefnan væri sú, að hverfa frá aðflutningsgjöldum yfir til söluskatts. Það gegnir ekki alveg sama máli að mínum dómi, hvort horfið er frá beinum sköttum yfir til aðflutningsgjalda eða hvort horfið er til söluskatts eingöngu. Það er hægt að innheimta mismunandi gjöld, eins og gert er, með aðflutningsgjöldum af ýmsum vörutegundum, því þannig geta hinir verr settu kjaralega slegið því á frest eða látið það vera að kaupa ýmsar hinar tollhærri vörur, a.m.k. í bili, ef þeir hafa ekki efni á því. En því verður ekki slegið á frest, að kaupa brýnustu lífsnauðsynjar. Þess vegna tel ég það ekki koma til mála að færa innheimtu ríkissjóðs algerlega yfir á söluskattinn. Mér sýnist, að í þessu sambandi skipti engu máli, hvort aðrar þjóðir í nágrenninu hafa þetta á þennan veg. Ég sé ekki, að við þurfum að haga okkar tollakerfi og tekjuinnheimtukerfi nákvæmlega á sama hátt og aðrar þjóðir gera, því að aðstæður eru hér mjög með öðrum hætti en hjá ýmsum öðrum þjóðum. Og ég verð að segja það, að í sambandi við þær tollalækkanir, sem nú eru framkvæmdar, óttast ég mjög að þessar lækkanir komi ekki til skila til neytendanna og það finnst mér mjög alvarlegt mál. Auðvitað á það eftir að sýna sig. En mér fyrir mitt leyti finnst það miður og ekki rétt, að stjórnar meiri hl. skyldi í Nd. fella þær till., sem áttu einmitt að reyna að tryggja það, að þessar tollalækkanir kæmu til skila til neytendanna og finnst mér það satt að segja nokkuð grunsamlegt.

Um það, hvort ríkisstj. hefur verið með í ráðum við samninga við flugmenn, skal ég ekki fullyrða. En hitt hef ég þó fyrir satt, að þau mál hafi verið afgreidd á sameiginlegum fundum samgrh. og samningsaðila. Ég skal ekki fullyrða þetta, en þetta er almannarómur. Og ef svo er, þá finnst mér ólíklegt, að þar hafi ekki komið til einhvers konar tilfæringar, sem ríkisstj. hefur a.m.k. vitað af.

Það er orðið mjög áberandi í seinni tíð í sambandi við launa– og kjaramál í þessu landi, að þeir samningar, sem gerðir eru og hliðarsamningar, eru ekki birtir opinberlega og ákaflega illt í þá að ná og fá upplýsingar um þá. Tel ég þetta mjög slæma stefnu, því ég lít svo á, að almenningur í landinu eigi skilyrðislausa kröfu á að fá upplýsingar um þau launakjör, sem gilda í landinu, þannig að mönnum sé ekki mismunað í þessu efni, bæði af stjórnarvöldum og öðrum aðilum.

Það voru aðeins þessi atriði, sem ég vildi minnast á. Ég skal ekki lengja þessar umr. að ráði, eins og ég sagði, en læt máli mínu lokið.