04.11.1969
Neðri deild: 10. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í D-deild Alþingistíðinda. (3162)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Venjulegum ræðutíma mínum er lokið, svo að ég mun ekki hafa mörg orð að þessu sinni, því að ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka þær röksemdir, sem ég flutti í gær um kostnað við Búrfellsframkvæmdir og framleiðslukostnað á raforku í því sambandi. Ég held, að þau mál hafi verið lögð það ljóslega fyrir, að um röksemdir mínar í því efni þurfi menn ekki að vera í neinum vafa. Hins vegar held ég, að það hafi einnig komið mjög glöggt fram í umr. í gær, að hæstv. raforkumrh. hafði ekki vald á því verkefni, sem hann hafði tekið að sér. Hann las fyrir okkur skýrslur, sem auðsjáanlega höfðu verið samdar fyrir hann af embættismönnum fyrir fram, og hæstv. ráðh. tókst ekki að tengja þessar skýrslur við umr. sjálfar. Ég segi þetta ekki til þess að áfellast hæstv. ráðh. Allir vita, að ráðh. geta ekki persónulega sinnt öllum þeim verkefnum, sem undir þá heyra formlega. Þeir verða að hafa sérfræðinga í þjónustu sinni og bera til þeirra traust. Engu að síður er nauðsynlegt fyrir ráðh. að kanna viss verkefni gaumgæfilega, og þar á ég við verkefni, sem eru þess eðlis, að þau marka stefnu. Ég hef litið svo til, að hæstv. ráðh. Ingólfur Jónsson hafi unnið þannig kannske öðrum ráðh. fremur í þessari ríkisstj. Ég hef veitt því athygli, að á sumum sviðum, sérstaklega í landbúnaðarmálum, sem hann er afar kunnugur, hefur hann einatt farið sínar eigin götur og tekið ákvarðanir út frá sinni eigin dómgreind. Það er t.d. afar athyglisvert, að landbúnaðurinn hefur að nokkru leyti verið undanþeginn hinni almennu viðreisnarstefnu í þjóðfélaginu s.l. 10 ár, og það hygg ég, að séu persónuleg áhrif frá þessum ráðh. En ég held, að hæstv. ráðh. ætti að fara á svipaðan hátt ofan í orkumálin. Þau eru vissulega flókin, og það er mikil vinna að kynna sér þau, en ég er viss um, að hæstv. ráðh. mundi komast þar að sjálfstæðri niðurstöðu, ef hann gæfi sér tíma til þess að vinna þetta verk, og þetta er það mikilvægt málefni, að ég held, að hæstv. ráðh. ætti ekki að treysta blindandi á skýrslur sérfræðinga í þessu efni. Hann á að kanna þetta mál sjálfur.

Þetta mál er þess eðlis, eins og ég rakti í gær, að það sker úr um framtíðarstefnu Íslendinga á afar mikilvægu sviði. Hæstv. ráðh. kom raunar inn á þau atriði í ræðu sinni í gær, einkanlega í síðari ræðu sinni, og vék að því, hver atvinnuþróunin þyrfti að vera á Íslandi á næstunni, ef vel ætti að vera. Hann benti á, að vandi Íslendinga væri sá, að þjóðinni mundi fjölga mikið á næstu árum og það væri augljóst, að frumatvinnuvegir okkar, fiskveiðar og landbúnaður, gætu ekki tekið við þeirri fjölgun. Því væri óhjákvæmileg nauðsyn fyrir Íslendinga að iðnvæðast. Ég er algerlega sammála hæstv. ráðh. um þetta viðhorf. En hitt er mikil firra, sem þessi hæstv. ráðh. og aðrir hæstv. ráðh. hafa sagt, að samningurinn við álbræðsluna sé íslenzk iðnvæðing. Hún er dæmi um hið gagnstæða. Vandinn í Þjóðarbúskap okkar er sá, að við höfum mestmegnis verið hráefnisframleiðendur, við ráðum yfir mikilli tækni og kunnáttu við fiskveiðar og erum þar afkastameiri en nokkur önnur þjóð í heimi. En meiri hluta þessa afla flytjum við út sem hráefni til fullvinnslu fyrir aðra. Það. sem nú er verið að gera í raforkumálum. er að taka upp sama hátt, að virkja vatnsföll okkar til þess að selja síðan orkuna sem hráefni handa öðrum til þess að nýta, til þess að þeir geti hirt arðinn af orkunni og flutt hana að mestu úr landi. Þetta er ekki iðnvæðingarstefna, þetta er andstæða iðnvæðingarstefnu. Þetta er áframhald á því, að við séum einvörðungu í frumframleiðslu, sem er, eins og allir vita bæði hér og annars staðar, sá þáttur framleiðslunnar, sem nú er verst borgaður í heiminum. Og þetta er ekki leiðin til þess að iðnvæða Ísland, að við tökum að okkur að framleiða raforku á sem lægstu verði, en eftirlátum erlendum aðilum að nýta orkuna. Þetta væri ekki einu sinni rétta leiðin, þótt við fengjum kostnaðarverð fyrir orkuna. En við fáum það ekki einu sinni, svo sem hér hefur verið rakið, við verðum hreinlega að borga með henni. Sama máli gegnir um vinnuafl það, sem fær störf í álbræðslunni eða öðrum hliðstæðum fyrirtækjum, sem upp kunna að rísa síðar. Þessi fyrirtæki kaupa af okkur vinnuaflið á því verði, sem er gefið upp í kauptöxtum, og ekkert meira. Þegar verkamenn okkar vinna við íslenzka framleiðslu, kemur þar fram verðmætisauki, sem greiddur er af erlendum kaupanda vörunnar, og sá verðmætisauki verður eftir í landinu, vegna þess að fyrirtækin eru íslenzk, en þarna kaupa útlendingarnir aðeins vinnuaflið á lágmarksverði. Einnig þarna erum við að halda áfram á þessari sömu braut, að vera aðeins í frumframleiðslu, og fyrst farið er að bollaleggja um framtíðarþróun í þessu sambandi, lít ég á þetta sem algert undirstöðuatriði.

Hæstv. ráðh. talaði í gær um það, að við Íslendingar þyrftum ekki að óttast þessi mál, við gætum litið til Norðmanna, þar væri fordæmi, Norðmenn teldu sér ákaflega hagkvæmt að flytja inn erlent fjármagn og hafa erlend fyrirtæki starfandi í landi sínu. Staðreyndin er hins vegar sú, að fordæmi að fjárfestingu eins og þeirri, sem talað er um á Íslandi, er hvergi að finna nema í nýlendum og hálfnýlendum. Erlend fjárfesting í Noregi er innan við 10% af heildarfjárfestingu Norðmanna í iðnaði þeirra. Fjárfesting af því tagi væri eitthvað svipuð því, ef útlendingar ættu hér eitthvað 2–3 togara og eitt hraðfrystihús. Í því þyrfti ekki að vera fólgin nein stórfelld hætta, en ekki neinn sérstakur ávinningur heldur. En fjárfesting eins og sú, sem nú er komin á Íslandi, og það, sem á að bætast við, ef menn eiga að trúa áróðri Morgunhlaðsins, 6 eða 7 slík fyrirtæki á næstunni, leiðir til þess, að megnið af iðnaðarframleiðslu Íslendinga er komið á erlendar hendur. Ég þekki ekkert sjálfstætt þjóðfélag í víðri veröld, sem hefur farið inn á slíka braut. Fordæmin eru aðeins, eins og ég sagði áðan, í nýlendum og hálfnýlendum, og ég þarf ekki að fjölyrða um reynsluna þaðan.

Ég spurði hæstv. ráðh. í gær, hver væri afstaða hans til till. um rannsóknarnefnd, hvort hæstv. ráðh. vildi ekki á það fallast, að slík nefnd yrði skipuð. Það kom því miður í ljós, að hæstv. ráðh. vildi ekki á þetta fallast. Hann lét sér nægja að vera með almennar yfirlýsingar um það, að hann skyldi að sjálfsögðu sjá til þess, að alþm. gætu fengið alla þá vitneskju, sem þeir vildu fá. Hans hugmynd virðist vera sú, að alþm. fái í hendur matreiddar skýrslur frá þeim sérfræðingum, sem hæstv. ráðh. hefur verið að vitna til. En það er ekki þetta, sem ég hef verið að fara fram á. Við verðum að minnast þess ævinlega, að Alþ. er æðsti aðili í málefnum þjóðarinnar, og Alþ. er æðri aðili en hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh. Ef upp koma stórmál, þar sem vafi leikur á, að hæstv. ríkisstj. hafi haldið rétt á málum, er það skylda Alþ. að hafa frumkvæði að því að rannsaka slík mál. Þannig er unnið að þessum málum í flestum nágrannalöndum, þar sem ég þekki til, og á sumum þjóðþingum, t.d. í Bandaríkjunum, eru einmitt slíkar rannsóknir ákaflega veigamikill þáttur. Þingnefndir eru settar og þingnefndir kalla fyrir sig ráðh. og sérfræðinga, yfirheyra þá til þess að komast gersamlega að niðurstóðu um málavexti. Hér á Íslandi er ákaflega mikil hræðsla við vinnubrögð sem þessi, og það tel ég mjög illa farið. Gert er ráð fyrir slíkum rannsóknarnefndum í sjálfri stjórnarskránni, þannig að þessi starfstilhögun hefur verið talin mjög mikilvæg, og ég held, að Alþ. eigi að hafa það mikla sómatilfinningu, að það eigi að beita þessari aðferð, þegar þörf er á. Þeir menn, sem hafa hreina samvizku, þeir menn, sem hafa gert sitt bezta, þurfa ekki að óttast niðurstöður slíkrar rannsóknar. Og ég held, að einmitt þessi rannsókn sé þeim mun brýnni núna, sem það er vitað, að fljótlega verður lagt fyrir Alþ. frv. um viðbótarsamning við álbræðsluna í Straumsvík. Það er þegar búið að undirrita samkomulag við álbræðsluna, hæstv. iðnmrh. gerði það ásamt ýmsum embættismönnum fyrir skömmu með þeim fyrirvara, að Alþ. samþ. gerðina síðan. Í þessum samningi er gert ráð fyrir því, að álbræðslan fái viðbótarorkumagn fyrir sama verð og það, sem við erum að ræða um hér, fyrir verð, sem er að því er allir viðurkenna langt undir kostnaðarverði, eins og framleiðslunni er nú háttað. Áður en Alþ. fellst á að gera slíkan samning aftur, tel ég það skyldu alþm. að ganga úr skugga um, hvað er rétt í sambandi við þessar tölur um kostnað við orkuvinnslu. Þetta verða alþm. að vita, áður en þeir fallast á þann samning, sem hæstv. iðnmrh. undirritaði með fyrirvara fyrir skömmu. Það er ekki sæmandi fyrir alþm. að fjalla um það mál, ef þeir hafa ekki rannsakað það til hlítar áður.