04.11.1969
Neðri deild: 10. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í D-deild Alþingistíðinda. (3164)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þá hefur þingheimur hlýtt á ræður þriggja manna um þetta mál, sem rætt var í gær og menn eru ekki á einu máli um. Hv. 2. þm. Sunnl. talaði síðast af þessum mönnum, og það er öruggt, að ýmsir hv. þm. munu spyrja: Ja, hvernig hefði þessu máli reitt af, ef sú ræða hefði ekki verið haldin, sem hv. 2. þm. Sunnl. flutti áðan? Ég býst við, að sumum hafi fundizt, að þm. hafi komið með ýmislegt nýtt í málinu, sem mætti verða til gagns og fróðleiks, þegar það verður gegnumlýst. En látum það vera. Það er sjálfsagt, að menn líti misjöfnum augum á það, og ég býst við því, að þótt ég hafi ekki haft mikið gagn af þeirri ræðu, geti aðrir litið svo á, að ræðan hafi bara verið góð.

Hv. 2. þm. Sunnl. minntist á Harza og fann réttilega að því, að það var prentað með tveimur essum í Morgunblaðinu í staðinn fyrir að nota setuna eins og vera ber. En flestir hafa skilið, við hvað var átt, svo oft hefur verkfræðifirmað Harza verið nefnt, bæði í þingsölunum og utan þeirra. En það er dálítið merkilegt, að allir þessir þrír ágætu hv. þm. leggja út af áliti Harza og því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði í gær um það. Ég hafði ekki þessa skýrslu á mínu borði í gær, eins og ég upplýsti, enda þótt ég hefði séð hana. En í dag er ég ekki með eina skýrslu frá Harza, heldur tvær. Og hv. 2. þm. Sunnl. þarf ekkert að vera undrandi á því, þótt ég hafi ekki andmælt kröftuglega því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði hér í gær um Harza, vegna þess að Harza og formanni Landsvirkjunarstjórnar og framkvæmdastjóra Landsvirkjunar ber í rauninni ekki neitt á milli. Það kemur sama lokatalan hjá þeim báðum, þegar dæmið er sett upp á sama veg. Það, sem ágreiningurinn er um, og það, sem ég minntist á í gær, var það, að Harza reiknaði ekki með öllum kostnaði. En Harza hafði gert tvær áætlanir, og ég vil upplýsa það, að það var 1966, sem Harza gerði áætlun upp á 31.5 millj. dollara, en við gengisbreytinguna og hækkun dollarans lækkar þessi áætlun hjá þeim vegna þess, að þeir gera ekki ráð fyrir því, að hækkunin í íslenzkum krónum komi fram eins og hún hlaut að gera, þegar unnið er að mestu leyti fyrir útlent fé. Og ég held, að rétt sé að upplýsa alveg greinilega, að það er ekkert misræmi á milli talna Harza um stofnkostnað Búrfellsvirkjunar miðað við 30. júní s.l. og talna Landsvirkjunar. Tala Harza er 29.8 millj. dollara eða 2 622 millj. kr. Hins vegar er talan í bókhaldi Landsvirkjunar 3125 millj. kr., enda eru þar meðtaldir vextir á byggingartíma o. fl., eins og sést á eftirfarandi töflu. En nú sagði hv. 2. þm. Sunnl. áðan, að miklu frekar bæri að fara eftir skýrslu Harza en bókhaldi Landsvirkjunar. En við skulum koma okkur saman um að nota hvort tveggja, því að það leiðir til sömu tölu í lokin. Og þá skulum við lesa þetta upp, hvernig þessu er varið, og á þann veg, að allir skilji, sem vilja heyra:

Kostnaður við framkvæmdir 2622 millj. kr. Vextir á byggingartíma 226 millj. kr. Tollar og opinber gjöld 32 millj. kr. Gengistap vegna vaxta og innlends kostnaðar, sem greiddur hefur verið með erlendum lánum 245 millj. kr. Kostnaður eftir bókhaldi Landsvirkjunar pr. 30. júní 1969 3125 millj. kr.

Ég hygg, að við séum allir það reikningsglöggir, að við sjáum, hvað hér er um að ræða, að skýrsla Harza er ekki röng og þær tölur, sem hafðar eru eftir bókhaldi Landsvirkjunar, eru einnig réttar. Í skýrslu Harza eru ekki taldir vextir á byggingartíma, ekki tollar, ekki gengistap vegna vaxta og innlends kostnaðar, en þegar þetta er talið með og lagt við áætlun Harza, kemur út rétt útkoma. Þurfum við nú að deila lengur um þetta? Og er nú ekki hv. 6. þm. Reykv. alveg ljóst, að allt, sem hann sagði hér í gær, allt, sem hann byggði málflutning sinn á, var á sandi byggt og er hér með hrakið að fullu og öllu, því að ræða hans er á því byggð, að skýrsla Harza hafi verið röng og það hafi verið djúpstæður ágreiningur á milli Harza og bókhalds Landsvirkjunar? (Gripið fram í.) Skýrsla Harza er rétt, þegar búið er að bæta við því, sem í hana vantar, eins og ég las áðan. Það er þess vegna allt komið með nema vatnsréttindin, og þess vegna er það, sem ég sagði í gær og færði rök fyrir, á réttu byggt, en það, sem hv. 6. þm. Reykv. hafði uppi, var á skökkum forsendum sagt. Það er rangfærsla eða misskilningur Magnúsar Kjartanssonar, hv. 6. þm. Reykv., og hún felst í því, að hann áttar sig ekki á, að Harza hefur í þessari töflu umreiknað upphaflegu kostnaðaráætlunina á núverandi gengi og þannig lækkað hana úr 31.5 millj. dollurum í 25.8 millj. dollara. Þessi lækkun er hins vegar ekki raunhæf, bæði vegna gengistaps, þar sem mikill innlendur kostnaður hefur verið greiddur með erlendum lánum, auk þess sem innlent verðlag hefur hækkað og allmiklar framkvæmdir verið fluttar úr síðari áfanga í fyrri áfanga. Og það er alveg ljóst, að það hafa orðið kauphækkanir og ýmiss konar kostnaður innanlands, en meginhluti þess fjármagns, sem notaður hefur verið, er erlendur og þess vegna breytist þetta í íslenzkum krónum, þegar það er umreiknað eftir gengisbreytinguna. Eini raunhæfi samanburðurinn, sem nú skiptir máli, er því samanburður á upphaflegri áætlun Harza og núv. áætlun hvort tveggja reiknað í dollurum. Upphafleg áætlun Harza var 31.5 millj., og það er hún, sem hér kemur til samanburðar.

Ég hef hér fyrstu framkvæmdaskýrslu Harza, eins og ég var að lýsa áðan. Hún er frá 1966 og þar er reiknað með 31.5 millj. dollara. Síðasta áætlun Harza, sem hv. 6. þm. Reykv. hefur vitnað til, áætlar hins vegar kostnað 32.6 millj. dollara. Hækkunin er því aðeins 1.1 millj. dollara og hún stafar öll af því, að nú hefur verið framkvæmt meira í þessum fyrri áfanga en hin upphaflega áætlun Harza gerði ráð fyrir, og þetta held ég, að hv. 6. þm. Reykv. ætti að vera ljóst, að þessi 1.1 millj. dollara, sem búið er að eyða umfram áætlun Harza, liggur í því, að það er búið að vinna í öðrum áfanga fyrir þessa upphæð. Við áætlun Harza um fyrsta áfanga, sem var 31.5 millj. dollara, þarf svo að bæta áætlun þeirra um annan áfanga, miðlun í Þórisvatni og vexti á byggingartíma. Að öllu þessu meðtöldu var hin upphaflega áætlun, sem stuðzt var við í álsamningnum, 42.8 millj. dollarar. Sú tala hefur oft verið nefnd hér í þessari hv. d., en núgildandi áætlun er sem hér segir:

I. áfangi 32.6 millj. dollara, II. áfangi og miðlun 4.1 millj. dollara, vextir, gengistap, tollar o. fl. 6 millj. dollara, samtals 42.7 millj. dollara eða aðeins minna en upphaflega var áætlað.

Ég held því, að það sé alveg útilokað, að haldið verði áfram að deila um þetta atriði, þegar það er alveg upplýst og forsendan, sem deilan var upphaflega byggð á, er algerlega hrunin. En allir þeir þrír hv. alþm., sem töluðu áðan, vitnuðu í Harza-skýrsluna og sögðu, að hér væri ekki í rauninni um annað að deila en það, að Landsvirkjunarstjórn og ráðgefandi fyrirtæki Landsvirkjunar bæri ekki saman.

Ég vænti þess, að það, sem ég hef sagt um þetta atriði, liggi ljóst fyrir og menn geri sér grein fyrir, í hverju mismunurinn liggur, og segja má, að það sé heiðarlegt og eðlilegt, að menn geti byggt málflutning sinn á misskilningi, en það er ekki eðlilegt, ef menn vilja halda fast við skakkan málflutning og misskilninginn, eftir að hann hefur verið leiðréttur.

Hér hefur verið talað um það, bæði af hv. 4. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Sunnl., að orkuverðið væri fengið með því að reikna afskriftatíma orkuversins 40 ár og þetta væri óeðlilegt. Og hv. 2. þm. Sunnl. sagði, að það hefði alltaf verið reiknað með afskrift á 25 árum. Nú vitum við, að vatnsorkuver eru ekki afskrifuð á 25 árum og þykir ekki eðlilegt. Það þykir eðlilegt, að þau endist a.m.k. í 50 ár, og elzta vatnsorkuver við Sog er síðan 1937. Það er orðið 32 ára gamalt. Og ég hef fyrir stuttu talað við verkfræðing um það, hvað hann haldi að þessi stöð endist lengi. Það sagðist hann ekki vilja fullyrða, en það væri nokkurn veginn öruggt a.m.k. 30 ár í viðbót, 40 ár í viðbót. Og þessu hlýtur hv. 2. þm. Sunnl. að hafa gert sér einhverja grein fyrir, þar sem hann er verkfræðingur.

En þá eru það lánskjörin og lánstíminn, sem talað var um áðan. Ef það væri þannig, sagði hv. 4. þm. Reykv., að afskriftatíminn væri eðlilegur og lánskjörin væru eitthvað svipuð því, sem talað hefur verið um, þá mætti ætla sem svo, að orkuverðiði, sem ég hef talað um, væri ekki fjarri lagi, og þetta var skynsamlega ályktað hjá hv. þm. Það var mjög skynsamlega ályktað. En lánskjörin, sem um er að ræða, eða lánin, sem tekin hafa verið, eru að stærstum hluta á 6% vöxtum, stærsti hlutinn á 6% vöxtum. Skuldabréfalán er til 25 ára, skuldabréfalán til 15 ára á 7% vöxtum, þýzkt lán til 15 ára á 71/2 % vöxtum og bankalán í New York á 71/2 %, það eru 528 þús. dollarar. En lánin öll, sem tekin hafa verið, eru 3 297 dollarar. Mikill meiri hluti þeirra er á 6% vöxtum, en þau eru ekki til 40 ára. Það eru þau ekki. En eru ekki líkur til þess, ef ekki verður búið að greiða virkjunina fyrr en að 40 árum liðnum, ekki á 25 árum eða 20 árum, að hægt sé að framlengja þessi lán með svipuðum kjörum og fengizt hafa? Ég geri alveg ráð fyrir því.

Hv. 2. þm. Sunnl. vitnaði í það, sem ég hafði sagt í gær, að álbræðslan borgaði útlendu lánin á 25 árum. Það er rétt. (Gripið fram í.) Ég sagði 25 árum í gær. Álbræðslan borgar það á 25 árum. Og það er alveg rétt, að þær tekjur, sem orkuverið fær frá álverksmiðjunni, nægja til þess að borga erlendu lánin upp. Ég biðst nú afsökunar. Það er rétt, sem hv. 2. þm. Sunnl. sagði áðan, það er á 15 árum. Mér urðu á mismæli. En þetta eru raunhæfir útreikningar, og ég efast ekkert um, að hv. 2. þm. Sunnl. getur sannprófað það, hvort þetta er rétt reiknað. Spurningin er nú um það, hvort það, sem hér hefur verið sagt um orkuverðið, er nægilegt til þess að sannfæra þá, sem hafa verið að andmæla því, um að þeir hafi ekki farið með rétt mál. Þegar forsendan, sem þeir hafa byggt málflutning sinn á, er algerlega hrunin, þá ætti svo að vera. Það má þó vel vera, að reynt verði að klóra í bakkann og halda hinu gagnstæða fram, halda því t.d. fram enn þá, að orkuverðið sé undir kostnaðarverði, þrátt fyrir þær tölur, sem fyrir liggja, og rök, sem færð hafa verið fram í þessu máli. Ég geri þó síður ráð fyrir því. Það er vitað mál, að þessir hv. þm., sem hér hafa tekið til máls, voru upphaflega á móti álsamningnum, og þeir voru þar af leiðandi á mótí því að virkja stórt í Þjórsá, vegna þess að stórvirkjun í Þjórsá var ekki möguleg, nema orkufrekur kaupandi fengist. Og það er dálítið eftirtektarvert, að þegar hv. 2. þm. Sunnl. ræðir um orkumál og stóriðju, er eins og honum ósjálfrótt renni í skap. Það er vitað mál, að hv. 2. þm. Sunnl, virtist hafa áhuga fyrir því að koma álverksmiðjunni upp og stórvirkjun í Þjórsá. En við atkvgr. í Alþ. var hann á móti þessu, og það voru aðeins tveir framsóknarmenn, sem sátu hjá, en enginn hv. framsóknarmaður léði málinu stuðning. Ég er alveg sannfærður um það, að hv. 2. þm. Sunnl. óskar eftir því í dag, að hann hefði verið fylgismaður þessa máls. Og ég er sannfærður um það, að þessi hv. þm. getur bætt fyrir fyrri afstöðu sína með því að vera jákvæðari næst, þegar talað verður um stórvirkjun og stóriðju. Það er eftirtektarvert af málflutningi hv. 6. þm. Reykv., þegar hann talar um orkuverðið, að hann miðar alltaf við það, að þessi mikla orkustóð, sem þarna hefur verið reist, sé keyrð, eins og það er kallað, með litlum afköstum, eða helmingi, og þá fær hann með þeim forsendum þetta háa orkuverð, sem hann ræðir um. En hann miðar ekki við það, að þessi virkjun verði fullnýtt innan tiltölulega stutts tíma, og með því fæst þetta lága orkuverð, sem ég hef verið að tala um. Það hlaut að vera þannig, og það var alltaf reiknað með því frá byrjun, að fyrst í stað, á meðan stöðin væri ekki nema að litlu leyti notuð, þá væri hvert kw., sem framleitt er þar, á tiltölulega háu verði. Það hefur alltaf verið með því reiknað. Það er búið að leggja í tiltölulega mikinn kostnað, næstum því allan kostnaðinn af fullnaðarvirkjun, en aðeins lítill hluti orkunnar er notaður fyrstu mánuðina, fyrsta árið, og þetta er ekki raunhæfari málflutningur en að byggja á hluta af þeirri áætlun, sem Harza hefur gert, eins og þessi hv. þm. gerði í gær.

Herra forseti. Það var rætt um það áðan, hver afstaða mín væri til þessarar till., og það var einnig gert í gær. Mín afstaða til þessa máls hlýtur að vera þannig, að það verði allar upplýsingar gefnar í þessu máli, þannig að sannleikurinn komi fyllilega í ljós. Og hafi hv. þm. ekki nú þegar fengið það, sem þeir telja nauðsynlegt, hljóta þeir að eiga kost á því. Og það er vitanlega aðalatriðið, að allar eðlilegar og sjálfsagðar upplýsingar verði gefnar í þessu máli, en ekki með hvaða hætti að því er farið.