10.11.1969
Neðri deild: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í D-deild Alþingistíðinda. (3168)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þegar þetta mál var til umr. síðast, urðu smávægileg mistök að því leyti til, að ég mun sem 1. flm. þessarar till. eiga rétt á að flytja þrjár ræður samkv. þingsköpum. Hæstv. forseti gaf mér þá færi á að flytja stutta aths., þannig að ég tel mig eiga öllu meiri ræðutíma inni en örstutta aths. að þessu sinni, en ég skal ekki hafa mál mitt mjög langt þrátt fyrir það.

S.l. mánudag gerði ég grein fyrir þeim útreikningum, sem ég hafði byggt á staðhæfingar mínar um kostnað við Búrfellsvirkjun og framleiðslukostnað á raforku. Ég rakti, hvaðan heimildir mínar væru fengnar, og ég gerði grein fyrir því lið fyrir lið, hvernig ég áætlaði kostnaðarliði, sem ekki liggja fyrir enn sem komið er. Ég rakti þetta allt saman í einstökum atriðum og gaf þannig öðrum tækifæri á að gagnrýna þessa útreikninga mína. Ég vil vekja athygli á því, að slík gagnrýni hefur ekki komið fram. Það hefur ekki verið tekið út úr útreikningum mínum eitt einasta atriði og bent á með rökum, að það standist ekki. Þessi staðreynd talar sínu skýra máli.

Í stað slíkrar málefnalegrar gagnrýni hafa komið almennar staðhæfingar, sem bera vott um það, að hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, hafa ekki nægileg rök í höndum til þess að gagnrýna þær tölur, sem ég hef flutt ásamt hv. 4. þm. Reykv.

S.l. þriðjudag gerði hæstv. raforkumrh. að sérstöku umtalsefni þá frásögn mína, að virkjunarkostnaður hefði við fyrri áfanga farið 26% fram úr áætlun, úr 25.8 millj. dollara í 32.6 millj. dollara. Að vísu viðurkenndi hæstv. ráðh., að ég færi rétt með tölur mínar samkv. nýjustu skýrslu Harza. En hann gaf þá skýringu, að Harza hafi áður verið búið að gera áætlun, sem nam 31.5 millj. dollara, en hafi endurskoðað hana vegna gengislækkananna og þannig fengið kostnaðaráætlunina 25.8 millj. dollara. Svo bætti hæstv. ráðh. því við, að þessi endurskoðaða áætlun hjá Harza hefði ekki reynzt raunhæf. Það er vissulega rétt, að Harza breytti áætlunum sínum um byggingarkostnað Búrfellsvirkjunar, þegar gengi krónunnar var lækkað tvívegis. Það væri undarlegur áætlunarsmiður, sem ekki tæki tillit til jafnstórfelldra umskipta og tveggja gengislækkana við áætlun um mannvirkjagerð. En Harza telur þessa endurskoðuðu áætlun sína ekki óraunhæfa. Það er ekki ég, sem hef valið töluna 25.8 millj. dollara til marks um upphaflegan byggingarkostnað, heldur Harza. Og þetta er ekki gamalt og úrelt sjónarmið hjá Harza, heldur hirtir hið bandaríska verkfræðifirma þessa tölu í nýjustu skýrslu sinni frá því í júní í sumar. Það er ekki ég, heldur Harza, sem telur þennan samanburðargrundvöll eðlilegan, og Harza gerir það samkv. þeirri skuldbindingu sinni að gefa Landsvirkjun, íslenzkum stjórnarvöldum og Alþjóðabankanum í Washington rétta grein fyrir kostnaði við virkjunina. Það er hvorki á valdi mínu né hæstv. raforkumrh. að velja úr áætlunartölur, sem okkur henta. Við verðum að fara eftir skjalfestum heimildum þess fyrirtækis, sem sér um allt bókhald Búrfellsvirkjunar, en það er bandaríska verkfræðifirmað Harza. Auðvitað hefði verið hægt að ganga út frá tölunni 31.5 millj. dollara, sem hæstv. ráðh. nefndi. En þá hefði sú tala einnig orðið að hafa áhrif á allt bókhaldið eftir það. Hitt er alger fásinna sem hæstv. ráðh. gerði sig sekan um, að breyta fyrri tölu Harza um upphaflegan byggingarkostnað, en láta áætlunina frá 30. júní í sumar halda sér. Ef miðað væri við áætlunina 31.5 millj., yrði einnig að breyta tölunni frá því í sumar, vegna þess að þá yrði að taka inn ýmsa aðra og breytta liði, þ. á m. gengistap af innlendum kostnaði. Þetta dæmi er að sjálfsögðu hægt að reikna, og hv. 4. þm. Reykv. benti á ýmis atriði í því sambandi áðan. Ég hef einnig litið á þetta dæmi með aðstoð reikningsglöggra manna, og það kemur í ljós, að það skakkar ekki ýkja miklu á þessari aðferð og hinni aðferðinni, sem Harza notar. Engu að síður er það staðreynd, að virkjunarkostnaður hefur farið mjög verulega fram úr áætlun. Hvort það mundi standa í 26% með þessari aðferð, veit ég ekki, en það skakkar ekki ýkja miklu. En slíkar reikningskúnstir sem þessar hafa aðeins fræðilegt gildi. Meginstaðreyndin er hin, sem ekki verður umflúin, að Harza telur sambærilegan kostnað hafa hækkað um fjórðung, og vilji menn vefengja þessa niðurstöðu, stoðar ekki að beina ákúrum sínum til mín, heldur verður að færa rök að því, að Harza sé ekki starfi sínu vaxið og gefi íslenzkum stjórnarvöldum og Alþjóðabankanum upp rangar og villandi tölur. Þetta veit hæstv. ráðh. jafn vel og ég, vegna þess að hann hefur, eins og hann sagði á þriðjudaginn, þá skýrslu í höndum, sem ég hef vitnað til. En séu einhverjir hv. alþm. enn þá í vafa um þessar grundvallarstaðreyndir, bið ég þá að líta á þessa skýrslu hjá mér á eftir, því að hér stendur þetta allt svart á hvítu.

Annað atriði, sem hæstv. ráðh. notaði til þess að vefengja þennan samanburð, var það, að gert hefði verið meira í sambandi við Búrfellsvirkjun en upphaflega hefði verið áfarmað. Mér þætti fróðlegt, að hæstv. ráðh. gerði frekari grein fyrir þessu sjónarmiði. Ég þekki ekki þær aðferðir í bókhaldi, að bornar séu saman tölur, ef inni í síðari tölunni eru verkefni, sem ekki var gert ráð fyrir í upphafi. En í samanburði Harza er ekki minnzt á eitt einasta slíkt atriði. Harza ber saman kostnaðarliði nú og upphaflega kostnaðaráætlun og tekur ekki fram, að það sé neins staðar um verkefni að ræða, sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í upphafi, enda hef ég engar spurnir af því, að þannig hafi verið að verki staðið. Ég vil í því sambandi minna á frv. um álsamninginn, sem lagt var fyrir Alþ. á sínum tíma. Þar segir svo um framkvæmdir, hvernig þeim verði hagað, á bls. 225, með leyfi hæstv. forseta:

„Mikill hluti Búrfellsvirkjunar verður í I. áfanga byggður nægilega stór fyrir 6 vélasamstæður. Stöðvarhúsi, svo og uppsetningu véla, búnaðar og tækja verður einnig fulllokið að þremur vélasamstæðum undanskildum, en þeim verður bætt við einni á hverju virkjunarstigi, eins og áður segir.“

Hér er gert ráð fyrir því, hvernig byggingarframkvæmdum verður hagað, og ég veit ekki betur en þær hafi verið nákvæmlega í samræmi við þetta.

Það er glöggt dæmi um það, hve hæstv. ráðh. telja málstað sinn erfiðan orðinn, að þeir eru farnir að grípa til alls konar spádóma um framtíðina, eins og áður hefur verið vikið að, m.a. þeirra, að aflvélarnar muni skila 15% meiri orku en reiknað hafði verið með. Nú skulum við vissulega vona, að svo verði. En við skulum einnig athuga það, að eigi að hagnýta þvílíka getu, þarf ýmislegt til. Það er hægt að fá 15% aukningu og tiltölulega auðvelt, þegar ein vél er í gangi. En eigi að fá 15% aukningu út úr 6 aflvélum í senn, þá verður m.a. að koma 15% meira vatnsmagni í gegnum vatnsvegina, og þá kemur upp erfitt verkfræðilegt vandamál, því að þá fer að tapast afl af þeim sökum. Allir vita einnig, að eins og nú er ástatt, er vatnið í Þjórsá ekki nægilegt að staðaldri. Ef nýta á allar vélarnar í hámarki, verður að framkvæma mjög stórfellda vatnsmiðlun. Hæstv. ráðh. lét þess getið, að hann teldi, að slík miðlun mundi kosta 500 millj. kr. aukalega. En þann tilkostnað verður þá einnig að reikna inn í framleiðslukostnaðinn, og þessi tilkostnaður nemur hvorki meira né minna en 2 aurum á kwst. Það er fráleit reikningsaðferð, sem hæstv. ráðh. beitti, að reikna aðeins með því, að þarna fáist 15% aukning, en gera ekki grein fyrir þeim tilkostnaði, sem óhjákvæmilegur er til að fá aukninguna.

Annað atriði, sem hv. 4. þm. Reykv. minntist einnig á áðan, er sú nýja aðferð, sem nú er beitt, að reikna með 40 ára fyrningartíma á þessum mannvirkjum öllum. Það er vissulega rétt, að 40 ára fyrningartími getur átt við um stíflur og önnur slík mannvirki, en ekki um vélar. Fyrningartími slíkra véla í sambandi við vatnsvirkjanir er venjulega áætlaður 25 ár. Og í þessu sambandi er vert að minnast þess, að vélarnar í gasaflsstöðinni mun þurfa að endurnýja trúlega á 10 ára fresti. Ég held, að það sé ekki eðlilegt að beita neinni annarri reikningsaðferð, þegar reiknaður er út rekstrarkostnaður, en þeirri, sem notuð er við allar aðrar virkjanir á Íslandi, að telja rekstrarkostnaðinn 10% af stofnkostnaði. Þannig hefur verið að þessu staðið til skamms tíma. Ég vil minna á það, að í frv. til I. um Landsvirkjun var þannig greint frá rekstrargjöldum á bls. 18, með leyfi hæstv. forseta:

„Með rekstrargjöldum er hér átt við stjórn, eftirlit, viðhald, gæzlu og vexti og afborganir lána. Opinberum gjöldum og gjöldum fyrir lands- og vatnsréttindi er þannig sleppt, svo og þeim hagnaði, sem Landsvirkjun er nauðsynlegur. Fyrrgreind rekstrargjöld eru áætluð 9.2% af stofnkostnaði vatnsvirkjana og þá miðað við 25 ára annuitetslán með 6% vöxtum.“

Þarna er reiknað með 9.2% af stofnkostnaði, án þess að meðreiknuð séu opinber gjöld og gjöld fyrir lands- og vatnsréttindi og sá hagnaður, sem Landsvirkjun er nauðsynlegur, eins og komizt er að orði. Ég held, að þessi staðreynd sýni einkar ljóslega, að það er sízt ofmælt að reikna með 10% af stofnkostnaði sem árlegum rekstrarkostnaði, og allt annað er gersamlega óraunhæft.

Það mætti æra óstöðugan að fara að minnast á öll þau atriði, sem fram hafa komið, t.a.m. í dagblöðum. Þó held ég, að ég komist ekki hjá því að minnast á eina staðhæfingu, sem birtist í forustugrein í Vísi fyrir nokkrum dögum, en þar var því haldið fram, að ég reiknaði með 10% vöxtum af lánum til Búrfellsvirkjunar. Þetta er náttúrlega alger fásinna. Þetta hef ég aldrei sagt. Það, sem ég sagði, var það, að ég reiknaði vaxtakostnað á byggingartímanum 10%. Byggingartíminn er sem kunnugt er ein 3 ár, og vextir af lánum eru um 7%, eins og menn vita. Fyrsta árið koma 7% vextir á svo sem þriðjung af upphæðinni og svo hærri annað árið og svo fullt síðasta árið. Þetta jafnar sig áreiðanlega upp með ekki lægri upphæð en 10%. Það var þessi tala, sem ég notaði einvörðungu í sambandi við vexti á byggingartímanum, en í dagblöðum ríkisstj. er farið að nota þessa tölu til almenns útúrsnúnings og hártogana, og raunar hefur það mótað skrif stjórnarblaðanna þriggja um þessi efni í vaxandi mæli að undanförnu. Þau eru hætt að ræða um málsatriði og tekin að birta almenna sleggjudóma, staðhæfingar og fullyrðingar, sem ekki eiga neina stoð í veruleikanum.

En í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram, er eitt atriði, sem mestu máli skiptir og lærdómsríkast er. Hæstv. raforkumrh. hefur dag frá degi flutt sig nær þeim tölum, sem ég gerði grein fyrir í upphafi. Í ræðu þeirri, sem hæstv. ráðh. flutti s.l. þriðjudag, gerði hann grein fyrir mati sínu á heildarkostnaði við Búrfellsvirkjun á þessa leið:

„I. áfangi 32.6 millj. dollarar, II. áfangi og miðlun 4.1 millj. dollarar, vextir, gengistap, tollar o. fl. 6 millj. dollarar.“

Ég bið hv. alþm. að veita þessum tölum hæstv, ráðh. sérstaka athygli. Hæstv. ráðh. viðurkennir, að við kostnaðinn, eins og hann er gefinn upp hjá Harza, verði að bæta vöxtum á byggingartímanum, gengistapi, tollum o.fl., og hann metur þá upphæð á 6 millj. dollara. Þá er kostnaðurinn við fyrri áfanga kominn upp í 32.6 plús 6 millj. dollara, þ.e. 38.6 millj. dollara. Hæstv. ráðh. viðurkennir einnig, að gasaflsstöðin sé ekki með í þessum útreikningum, en kostnaður við hana er um 3 millj. dollara. Þá er heildarkostnaður við fyrri áfanga orðinn 41.6 millj. dollara. Ég vek athygli á því, að þetta eru tölur hæstv. ráðh., en ekki tölur minar. Og þessi dollaraupphæð jafngildir 3660 millj. kr. En hvaða tölu notaði ég í ræðu þeirri, sem ég flutti við 1. umr. fjárlaga? Hún var 3770 millj. kr. Það munar aðeins 110 millj. kr. á þeirri tölu, sem hæstv. raforkumrh. viðurkenndi s.l. þriðjudag, og þeirri tölu, sem ég notaði, þegar ég gerði þetta mál fyrst að umtalsefni. Og hvora töluna, sem menn vilja nota, er niðurstaðan sú, að miðað við þær 840 millj. kwst., sem nú eru framleiddar við Búrfell, er kostnaður á kwst. um 45 aurar, tvöfalt meiri en álbræðslan greiðir. Nú er það að vísu ekki deilumál; að viðskiptin við álbræðsluna voru mjög óhagkvæm í upphafi. Það viðurkennir hæstv. ráðh. En mér þætti afar fróðlegt, að hann greindi frá því í tölum, hver framleiðslukostnaðurinn er að hans eigin mati og hvert árlegt tap er á þessum viðskiptum núna. Ég veit, að þetta ástand stendur aðeins í takmarkaðan árafjölda, en engu að síður verður að reikna með þessu tapi. Það er hægt að deila því á lengra árabil, en með þessu tapi verður maður að reikna.

Sem sagt, hæstv. ráðh, var kominn upp í 41.6 millj. dollara sjálfur. Og þar með var hann kominn ákaflega nálægt þeim tölum, sem ég notaði hér í upphafi. Um hvað snýst þá deila okkar? Og hvað svo um áframhaldið? Hæstv. ráðh. segir, að síðari áfangi Búrfellsvirkjunar, vélar og miðlun, muni kosta 4.1 millj. dollara. Á þeirri tölu vil ég fá skýringu hjá hæstv. ráðh., og ég tel, að allir hv. þm, eigi heimtingu á að fá slíka skýringu. Ástæðan er sú, að í vor var lagt fyrir Alþ. frv. til l. um breyt. á l. um Landsvirkjun, og það frv. var samþ. sem lög 28. apríl s.l., fyrir 1/2 ári. Í grg. fyrir þessu frv. var komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Í des. 1965 var stofnkostnaður seinni áfanga Búrfellsvirkjunar áætlaður 305.5 millj. kr. á þáv. gengi að vöxtum á byggingartíma frátöldum, eða um 520 millj. kr. á núverandi gengi. Að vöxtum og verðhækkunum meðtöldum áætlast þessi kostnaður nú 661 millj. kr. eða 7.5 millj. dollara.“

Og síðar er þetta enn endurtekið í grg.: „Með frv. þessu er lagt til, að umrædd heimild verði hækkuð um 661 millj. kr. eða 7.5 millj. dollara vegna lána, sem nauðsynlegt er að taka samkvæmt framangreindu vegna seinni áfanga Búrfellsvirkjunar.“

Mér er ekki kunnugt um, að þessi áætlun hafi verið lækkuð um 3.4 millj. dollara á þessu hálfa ári, sem síðan er liðið eða hvernig unnt ætti að vera að framkvæma slíka lækkun. Ef við höldum okkur hins vegar við þá tölu, sem lögð var fyrir Alþ. í vor og Alþ. staðfesti með því að samþykkja frv. sem lög, þá bætast 7.5 millj. dollara við þær 41.6 millj. dollara, sem hæstv. ráðh. var kominn upp í með fyrri áfanga Búrfellsvirkjunar. Þá verður heildarkostnaður af virkjuninni 49.1 millj. dollara, eða 4 320 millj. kr. En hvaða tölur notaði ég í ræðu minni við 1. umr. fjárlaga? Ég notaði töluna 4 370 millj. kr. Munurinn á þessum tveimur tölum er 50 millj. kr. og haggar ekki vitund þeirri niðurstöðu, að kostnaður við að framleiða 1680 millj. kwst. á ári verður um 26 aurar á kwst., 4 aurum hærra verð en álbræðslan greiðir. Þegar magnið, sem hún fær, kemst upp í 1120 millj. kwst., verður heildarmeðgjöfin á ári um 45 millj. kr.

Þegar ég hef kannað þetta mál betur, hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að áætlanir mínar, sem ég gerði grein fyrir við 1. umr. fjárlaga, hafa verið of lágar. Ég hygg, að reynslan eigi eftir að leiða í ljós, að þessi kostnaður verði nokkru meiri en ég gerði ráð fyrir þá. Engu að síður tel ég, að það sé ákaflega athyglisverð staðreynd, að þær tölur, sem hæstv. ráðh. er kominn upp í smátt og smátt í þessum umr, á þingi, nálgist mjög þær tölur, sem ég nefndi í upphafi. Þetta eru sem sé staðreyndirnar, ýmist játaðar af hæstv. ráðh. eða lagðar fyrir Alþ. fyrir hálfu ári. Og nú spyr ég: Hver fer hér með blekkingar og falsanir, eins og komizt hefur verið að orði?

Sú staðreynd er óhrekjanleg, að samningarnir við álbræðsluna eru svo óhagkvæmir, að Íslendingar verða að greiða með orkunni. Og ég býst við, að mörgum verði forvitni á að vita, hvað fyrsta útflutningsuppbótin á að vera há. Mér er kunnugt um, að til stendur, að Landsvirkjun ákveði mjög verulega hækkun á raforkuverði alveg á næstunni, og mér er kunnugt um, að Alþjóðabankinn hefur þrýst á um, að slíka hækkun verði að ákveða, vegna þess að rekstrarafkoma Búrfellsvirkjunar sé háskaleg. Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvað hann áætlar, að verðið til Íslendinga muni verða látið hækka um næstu áramót. Hæstv. ráðh. hlýtur að geta dregið upp álmenna mynd af því.

Í umr. s.l. þriðjudag tók hæstv. iðnmrh. einnig til máls, og eins og menn muna, var hæstv. ráðh. í nokkru uppnámi í upphafi ræðu sinnar. Mér þóttu þessi viðbrögð hæstv. ráðh. bæði skiljanleg og einkar mannleg. Það er alkunna, að enda þótt við höfum hér einkum átt orðastað við hæstv. raforkumrh., þá er það hæstv. iðnmrh., sem er hinn raunverulegi sakborningur í þessu máli. Þetta verkefni skiptist á milli þessara tveggja hæstv. ráðh., hæstv. raforkumrh. sér um byggingu orkuversins, en það var hæstv. iðnmrh., sem annaðist samninginn við álbræðsluna. Og ég skil það ákaflega vel, að hæstv. ráðh. sé í uppnámi, þegar þær staðreyndir eru nú að skýrast æ betur, að samningar þeir, sem hann hefur gert og samningar þeir, sem hann hefur reynt að gylla mikið í opinberum umr., reynast baggi fyrir þjóðfélagið, þeir munu ekki lyfta efnahag Íslendinga, heldur draga hann niður. Mér þykir vænt um, að það er viðkvæmur blettur hið innra með hæstv. ráðh., mér þykir vænt um, að hann kveinkar sér, og ég vona bæði fyrir hans hönd og fyrir hönd landsmanna, að sú viðkvæmni haldi áfram hjá hæstv. ráðh.

Því miður varð þess þó ekki vart í ræðu hans, að hann væri farinn að læra af reynslunni. Hann hélt áfram að tala um, að orkusölusamningurinn við álbræðsluna væri ákaflega hagkvæmur og viðbótarsamningur sá, sem hann hefur nú þegar undirritað að Alþ. fornspurðu, væri mikil hagsbót. Mig langar að minna á það í þessu sambandi, að einmitt þessi sami hæstv. ráðh. hefur áður gert grein fyrir þveröfugu sjónarmiði á Alþ. Einmitt þessi hæstv. ráðh. hefur sagt okkur það, að fyrsti orkusölusamningurinn til álbræðslunnar væri óhagkvæmur og við mættum ekki gera jafnóhagkvæman samning aftur. Í skýrslu, sem þessi hæstv. ráðh. lagði fyrir Alþ. nokkru áður en samningarnir við álbræðsluna voru gerðir, var vikið að þessu atriði margsinnis, og ég vil leyfa mér að minna á nokkur dæmi, með leyfi hæstv. forseta. Á bls. 24 í þessari skýrslu var komizt svo að orði:

„Í fyrsta lagi hugsar Swiss Aluminium sér að byggja hér á landi minnstu stærð aluminiumverksmiðju, sem til greina er talin koma, þ.e.a.s. 30 þús. tonna ársframleiðslu. Hefur það greinilega komið fram af hálfu fyrirtækisins, að það treystir sér ekki til þess að taka meiri áhættu hér á landi, þar sem engin erlend fyrirtæki hafa reynslu af sambærilegri starfsemi hér. Svo lítil verksmiðja er hins vegar ekki eins arðbær og stærri verksmiðja og þarf því á hagstæðari kjörum að halda.“

Og neðar á sömu síðu segir svo:

„Að lokum er rétt að benda á, að líklegt er, að Swiss Aluminium mundi vilja teygja sig lengra, ef það fengi um leið fyrirheit um möguleika til stækkunar verksmiðjunnar með sæmilega hagstæðum kjörum. Það hefur hins vegar verið skoðun nefndarinnar, sem Alþjóðabankinn hefur einnig lagt áherzlu á, að Íslendingar ættu ekki að binda sig í þessu efni nema sem allra minnst. Vegna þess, að fyrsti áfanginn í stórvirkjunarmálum er sérstaklega erfiður hjalli fyrir Íslendinga, mundu þeir samningar, sem nú virðast mögulegir, geta orðið Íslendingum mjög hagstæðir. Á hinn bóginn er engin ástæða til þess að jafngóð kjör yrðu í boði, ef til stækkunar kæmi, enda yrðu þá viðhorfin í virkjunarmálum allt önnur en nú. Ef allt gengur vel í þessum efnum, svo að Íslendingar teldu sér hag í frekari stækkun aluminiumverksmiðjunnar í framtíðinni, ættu Íslendingar að geta fengið svo að segja sömu kjör og Norðmenn þá byðu.“

Þetta var í skýrslu frá hæstv. iðnmrh., og að þessu atriði er vikið aftur og aftur. Á bls. 28 segir svo, með leyfi hæstv. forseta, um afstöðu Alþjóðabankans til þessa vandamáls:

„Alþjóðabankinn hefur lagt áherzlu á, að þau kjör, sem nú hefur verið rætt um að bjóða aluminiumbræðslunni, væru réttlætanleg vegna þeirrar þýðingar, sem aluminiumbræðslan hefur fyrir fjárhagslega afkomu fyrsta áfanga Búrfellsvirkjunar. Verði aluminiumbræðslan stækkuð í framtíðinni, telur bankinn hins vegar ekki rök fyrir því að bjóða jafnhagkvæm kjör. Hann leggur því áherzlu á, að samningar við Swiss Aluminium nú innihaldi ekki óeðlilega hagstæð skilyrði fyrir stækkun bræðslunnar í framtíðinni.“

Þannig voru fyrirvarar þeir, sem hæstv. ráðh. var með í upphafi, á meðan hann og aðrir hafa vafalaust gert sér vonir um, að áætlanir um Búrfellsvirkjun mundu standast. Þeir lögðu áherzlu á, að við mættum ekki semja nema aðeins um þann takmarkaða skammt, sem þá var gengið frá. En ef hið erlenda auðfyrirtæki vildi fá meira magn, yrði að hækka verðið og þar var fordæmi Norðmanna sérstaklega tekið til viðmiðunar. En Norðmenn fá sem kunnugt er meira en 25% hærra verð fyrir raforku sína en við. Engu að síður hafa þau tíðindi nú gerzt, að hæstv. ráðh. er búinn að semja að Alþ. fornspurðu við aluminbræðsluna um viðbótarsölu á raforku á sama verði, óbreyttu verði, og það þótt hæstv. ráðh. viti, að framkvæmdir við Búrfellsvirkjun hafa tekizt svo til, að við framleiðum raforkuna á hærra verði en álbræðslan greiðir. Þessi vinnubrögð eru að sjálfsögðu algerlega fráleit, hrein fjarstæða. Og ég verð að segja, að þessi reynsla varð ekki til þess, að mér þættu það nein gleðitíðindi, sem ég las í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum, að hæstv. iðnmrh. ætlaði að taka við raforkumálunum af hæstv. núv. raforkumrh. Ég hef þá trú, að hæstv. ráðh. Ingólfur Jónsson hefði staðið ögn betur að samningum við erlenda aðila en hæstv. iðnmrh., sem virðist vera orðinn býsna taminn við það að láta undan hinum erlendu sjónarmiðum.

Nú er lokið þeim ræðum, sem ég mun halda við 1. umr. þessa máls. Ég vil benda á það í lokin, að með till. um rannsókn erum við einnig að leggja til, að rannsakaðar séu þær tölur, sem við höfum lagt fram. Ef slík rannsókn verður framkvæmd, sem við leggjum til, mundi að sjálfsögðu verða farið ofan í allar þær tölur, sem ég hef gert grein fyrir. Ég tel það alveg sjálfsagt. Ég hef reynt, eftir því sem ég er maður til, að gera mér grein fyrir því, hvort þær tölur, sem ég hef farið með, eru réttar eða ekki. Og ég held, að þær séu réttar. Komi hins vegar í ljós, að mér hafi missýnzt um einhver atriði, mun ég að sjálfsögðu taka því mjög vel að hafa það heldur, sem sannara reynist. Þannig tel ég, að menn eigi að standa að öllum málum, og þannig held ég, að hæstv. ríkisstj. væri sæmst að standa að þessu máli.