11.11.1969
Neðri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í D-deild Alþingistíðinda. (3173)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að lengja þessar umr. að þessu sinni, en mér finnst þó ekki, að alveg sé hægt að láta ómótmælt þeim staðhæfingum, sem hæstv. iðnmrh. kemur hér fram með núna í lok þessara umr., þegar báðir flm. þeirrar till., sem hér er til umr., hafa lokið ræðutíma sínum. Ég skal þó láta nægja að minna á, að á Alþ. vorið 1965, þegar lög um Landsvirkjun voru til meðferðar, var lagt fram á Alþ. frv. að þeim lögum á þskj. 589, og það er tiltölulega auðvelt fyrir menn að ganga úr skugga um það enn þann dag í dag, hvað í því þskj. stendur. Ég er með það hér fyrir framan mig. Þar eru mjög ítarlegar áætlanir og upplýsingar um ýmsa möguleika, sem þá voru fyrir hendi í virkjunarmálum og í sambandi við virkjun Búrfells, sem lögin fela í sér sérstaka heimild til og er tilefni þess, að lögin eru sett. Þar eru einkum bornir saman tveir kostir, annar, sem miðast við það að fullvirkja nokkuð hratt og selja orkuna til álbræðslunnar, og hinn að virkja hægar og nota orkuna á innanlandsmarkaðinum. Ég skal aðeins minna á í þessu sambandi, að heildarkostnaðurinn við virkjunina var í báðum tilfellum mjög líkur, þó aðeins lægri við hægfara leiðina. Það er svo vitað og vissuleg rétt, sem hæstv. iðnmrh. reyndi að gera að aðalatriði síns máls, að það, sem mestu máli skiptir, það, sem mest áhrif hefur á raforkuverðið sjálft, er auðvitað, hversu vel og hversu fljótt mannvirkin fullnýtast. Þó kemur fleira til. Það kemur þá ekki sízt til greina, að það, sem okkur skiptir mestu máli hér, er auðvitað, þegar verið er að tala um raforkuverð, sem virkjanirnar skaffi, hvaða raforkuverð íslenzkir notendur þurfa að borga. Greinilega hefur verið sýnt fram á það og þarf ekki að fara um það mörgum orðum, að svo ódýrt er hægt að selja orkuna til erlendra notenda, að stórvirkjun verði okkur Íslendingum sjálfum dýrari en minni virkjun. Og það er einmitt þetta, sem er mergur þess máls, sem hér er til umr., og þess vegna vildi ég ekki láta hjá líða að vekja athygli á því, að þessar síðustu staðhæfingar hæstv. iðnmrh. segja aðeins hálfan sannleikann og raunar tæplega það.

Ég skal neita mér um það að fara að halda hér lengri ræðu, þó að þær ræður, sem tveir hæstv. ráðh. fluttu, eftir að ég tók til máls fyrr við þessar umr., hefðu svo sem getað gefið tilefni til þess. En það var ekki ætlun mín að lengja meira þessar umr. að öðru leyti en því, að ég vildi ekki láta ómótmælt þessum seinustu staðhæfingum hæstv. iðnmrh.