11.11.1969
Neðri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í D-deild Alþingistíðinda. (3176)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég er alveg sannfærður um það, að hv. síðasti ræðumaður, sem er verkfræðingur, á eftir að sjá eftir þessum fullyrðingum sínum í lok sinnar ræðu, að það liggi ljóst fyrir og sé sannað, að fyrir Íslendinga sé orkan dýrari með álbræðslunni en án hennar. Hann segir, að raforkumrh. hafi ekki sýnt fram á eða sannað, að raforkan væri seld álbræðslunni við hagkvæmu verði. Hæstv. raforkumrh. sýndi fram á, að það væri yfir 50% lægra verð, sem Íslendingar þyrftu að greiða miðað við þær áætlanir, sem gerðar voru. Samið var við álbræðsluna og þessar áætlanir hafa staðizt, að það væri yfir 50% lægra verðið, sem Íslendingar þyrftu að borga heldur en án álversins. Og þetta var sýnt fram á í umr. á sínum tíma 1966. Þetta er margsýnt fram á í Landsvirkjunarfrv. 1965 og aldrei vefengt þá. En það mun vera svo, þegar þær áætlanir eru lagðar til grundvallar, sem staðfestar voru af hæstv. raforkumrh. í gær og gefur að líta í Morgunblaðinu í dag úr ræðu hans eða skýrslu Harza réttara sagt, þá mundi viðbótaraflið án álsamningsins vera 54% dýrara fyrir Íslendinga í heildsölu á árunum 1969–1972, 66% dýrara á árunum 1973–1976 og 7% dýrara á árunum 1977–1985. Það er svo rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, að hér skakkar auðvitað nokkru frá þessum útreikningum, sem eru frá árinu 1966, þar eð tilfærslur hafa orðið á virkjunarframkvæmdunum, sem leiðir til þess, að afgangsorka er meiri í bili en ella hefði orðið. Þess vegna reiknar t.d. hv. 6. þm. Reykv. út, að orkan sé svo og svo miklu dýrari í ár, án þess að reikna hana fram í tímann. En m.a. til þess að bæta úr þessu hefur verið gert ráð fyrir að leggja fyrir Alþ. viðbótarsamning um stækkun álversins, sem ekki var gert ráð fyrir í fyrri áætluninni, þannig að afköstin aukist um 10–11 þús. tonn strax í júlí 1970 og í staðinn fyrir að verða fullbyggð með 60 þús. tonna afköstum 1975, eins og gert var ráð fyrir í samningum, þá náist sú fullbygging 1972. Þetta mál kemur síðar til athugunar, og skal ég ekki hafa um það fleiri orð.