20.03.1970
Neðri deild: 63. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (3179)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Mér þykir rétt í upphafi máls míns sem frsm. meiri hl. fjhn. um till. til þál. um rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar á þskj. 46 að gera í upphafi örlitla grein fyrir aðdraganda þessa máls.

Við 1. umr. fjárl. á s.l. hausti flutti hv. 6. þm. Reykv. ræðu, og hann kom þar í ræðu sinni að því málefni, sem hefur áður verið á dagskrá í hinu háa Alþ., þ.e. Búrfellsvirkjun, og ýmsu í sambandi við það mikla mannvirki. Í þessari ræðu sinni fullyrti hv. 6. þm. Reykv. ýmsa hluti, sem urðu síðan að sjálfsögðu aðdragandinn að þeirri till., sem hann hefur flutt ásamt hv. 4. þm. Reykv. Fullyrðingar hv. þm. í nefndri ræðu voru m.a. á þá lund, að kostnaður við Búrfellsvirkjun hefði farið stórkostlega fram úr áætlun. Í öðru lagi hélt hann því fram í þessari ræðu sinni, að framleiðslukostnaður á kwst. væri, eins og hann orðaði það, 45 aurar. Hann fullyrti enn fremur, hver stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar væri þá orðinn, og í lok ræðu sinnar gat hann þess, að það væri sín skoðun, að sú samningsgerð, sem átt hefði sér stað við ISAL, þ.e. um sölu á rafmagni til ISALs, væri eitt stórfelldasta stjórnmála- og fjármálahneyksli, sem gerzt hefði hér á landi. Þessar fullyrðingar hv. þm. hafa að sjálfsögðu leitt til þess, að hann ásamt hv. 4. þm. Reykv, hefur flutt þá till., sem ég nefndi áðan, á þskj. 46. Í þeirri till. er gert ráð fyrir, að d. álykti að skipa nefnd samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka allar staðreyndir um byggingarkostnað Búrfellsvirkjunar, rekstrarkostnað nú og síðar og samninga virkjunarinnar um orkusölu. Segir svo í till., að nm. skuli vera einn frá hverjum þingflokki. Nefndin skuli hafa rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum og að loknum störfum skuli hún gefa Nd. skýrslu um niðurstöður sínar. Allur þessi aðdragandi hlaut að hafa töluverð áhrif á það, með hvaða hætti fjhn. þessarar hv. d. athugaði þetta mál. Hér er um að ræða fullyrðingar, sem, ef sannar væru, gæfu tilefni til slíkrar athugunar, og það hlaut því að verða meginstarf fjhn. í sambandi við þessa till. að gera athuganir á þeim hlutum, sem hér var fram haldið, svo og bera þær upplýsingar og þær skýrslur, sem hægt væri og n. gat fengið, saman við þær upplýsingar, sem þeir tveir hæstv. ráðh., sem tóku þátt í 1. umr. um þessa till., létu í té, bera saman þær upplýsingar og athuga, hvort hér hefði ekki verið farið með staðlausa stafi af hálfu 1. flm. og hvort þær upplýsingar, sem þegar væru komnar fram á Alþ., væru ekki með þeim hætti, að þar væri að finna skýringar og þau sannindi, sem eiga að vera fyrir hendi í þessu máli.

Af nál. meiri hl. fjhn. má sjá, með hvaða hætti n. hefur unnið að þessu máli. Á fundi n. voru kvaddir þeir dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, sem er formaður Landsvirkjunarstjórnar, og Eiríkur Briem verkfræðingur, framkvæmdastjóri Landsvirkjunar. Nm. lögðu fram þær spurningar, sem þeir óskuðu eftir, að þeir fengju upplýstar, og þeir tveir, formaður og framkvæmdastjóri Landsvirkjunar, lögðu fram skýrslu þá, sem þeir höfðu vegna þessa máls lagt fram í stjórn Landsvirkjunar. Skýrsla þeirra er fskj. 1 með nál. meiri hl., þar sem þeir rekja mál þetta og hrekja þær fullyrðingar, sem fram komu hjá hv. 6. þm. Reykv. í nefndri ræðu við 1. umr. fjárlaga. Þá er enn fremur fskj. 2, bréf það, sem verkfræðifyrirtækið Harza sendi raforkumrn. vegna þessara fullyrðinga, og síðan eru fskj. 3–15, sem hafa að geyma upplýsingar, sem nm. óskuðu eftir, og eru þau prentuð til glöggvunar fyrir hv. þdm., til þess að þeim geti verið ljóst, hvernig farið hefur verið með tölur í sambandi við þetta mál.

Eftir að fjhn. hafði afgr. þetta mál og nm. höfðu ekki óskað fleiri upplýsinga né heldur óskað eftir öðrum mönnum til viðræðna, barst n. í hendur bréf frá Landsvirkjunarstjórn, þar sem fram kemur bókun eins af stjórnarmeðlimum Landsvirkjunarstjórnar svo og aths. framkvæmdastjóra Landsvirkjunar. Meiri hl. birtir því framhaldsnál. á þskj. 448, til þess að koma þessum skjölum á framfæri í sambandi við þá umr., sem nú fer fram.

Meiri hl. n. taldi, eins og ég gat um áðan, eðlileg vinnubrögð undir slíkum kringumstæðum að afla sér upplýsinga og bera þær saman við það, sem þeir tveir hæstv. ráðh. höfðu haldið fram í þessu máli, og byggja á því svör sín við fullyrðingum hv. þm. Meiri hl. n. var þeirrar skoðunar strax í öndverðu.

Að þessum athugunum loknum reyndust þær upplýsingar, sem hér höfðu fram komið, réttar, og væri síður en svo ástæða til, að slík nefnd, sem till. fjallar um, væri sett á laggirnar, og þess vegna leggur meiri hl. fjhn. til að athuguðu máli, að till. verði felld.

Uppistaðan í fullyrðingum hv. 6. þm. Reykv. er sú, að heildarkostnaður Búrfellsvirkjunar hafi farið um 25% fram úr áætlun, eins og hann sagði í ræðu sinni. Formaður og framkvæmdastjóri Landsvirkjunar gera í skýrslu sinni mjög glögga grein fyrir, hvernig þessum málum er nú þegar komið og gera þar samanburð á upprunalegri áætlun miðað við það gengi, sem þá var á Bandaríkjadollar, svo og núverandi áætlun, miðað við það gengi, sem nú er á Bandaríkjadollar. Verður niðurstaðan sú, að upprunalega áætlunin hafi verið 42.8 millj. dollara, en sé í dag, miðað við það gengi, sem nú er, 43 millj. dollara. Hér er um að ræða áætlanir, upprunalega áætlun og þá áætlun, sem gerð er í dag og byggð er á þeim framkvæmdum, sem þegar hafa verið gerðar, og þá kemur í ljós, áð núverandi áætlun og hin upprunalega áætlun eru nokkurri veginn nákvæmlega þær sömu.

Minni hl. fjhn. getur ekki komizt að sömu niðurstöðu og dregur fram á bls. 2 í nál. sínu þær tölur, sem honum finnst passa, til þess að hann geti komið út með mismun og bent á, hversu núverandi áætlun sé óhagstæð, miðað við þá upprunalegu. Þar segir minni hl. í sínum útreikningi, að vextir og lántökukostnaður sé 4 millj. dollara, 4.09, eins og þar stendur, en í upprunalegu áætluninni gerir minni hl. ekki ráð fyrir nokkrum vaxta- né lántökukostnaði í sínum útreikningi. Það sér hver heilvita maður, hvers konar reikningsaðferðum hér er beitt. Það stendur skýrt í því þskj., sem lagt var fram, þegar samningurinn milli ríkisstj. Íslands og Swiss Aluminium um álbræðslu í Straumsvík var samþ., hver áætlunin er, sem þá er gert ráð fyrir. Og sú tala kemur enn fremur fram í skýrslu Landsvirkjunarstjórnar, en þar stendur á bls. 226, með leyfi forseta: „Taflan“, — þ.e. sundurliðaður, áætlaður stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar — ;,sýnir nokkra sundurliðun á áætluðum stofnkostnaði án vaxta á byggingartímanum“.

Það dettur sjálfsagt engum í hug, sem kann að lesa, að hér hafi verið gert ráð fyrir því, að lán fengjust vaxtalaus. Sú tala, sem kemur fram og lögð er til grundvallar í dag, er 1660 millj., og hún kemur enn fremur fram í því frv., sem lagt var fram fyrir Alþ. á sínum tíma. En útreikningar, sem þá eru gerðir og birtast á bls. 109, um meðalverð á rafmagni, gera einmitt ráð fyrir því, að vaxtakostnaður og lántökukostnaður verði 4.2 millj. dollara. Það sér hver heilvita maður, að í annarri áætluninni er ekki hægt að reikna vexti og lántökukostnað, en sleppa því í hinni. Bara þetta eina dæmi er nægjanlegt til að sýna, með hvaða hætti hér hefur verið reiknað allt frá upphafi, og sjálfsagt væri hægt að gera samanburðinn enn þá óhagstæðari, ef einhverjir aðrir stórir þættir í heildardæminu væru teknir út.

Samkv. þessari töflu, sem birt er á bls. 3, kemur fram, eins og ég sagði áðan, að áætlaður stofnkostnaður er 42.8 millj. dollara í upprunalegu áætluninni, en í núverandi áætluninni 43 millj. Ég held, að þessar tölur og þær skýringar, sem fylgja, séu með þeim hætti, að þær verði ekki hægt að vefengja, en ég hef nú þegar bent á, að þær útreikningsaðferðir, sem minni hl. notar í sínu nál., fái ekki staðizt. A.m.k. mundu þeir aðilar, sem slíkar reikningsaðferðir notuðu á prófi, ekki ná því prófi, sem þar væri um að ræða.

Þá er því haldið fram af 1. flm. þessarar till., að kostnaður á kwst. af framleiddri raforku sé mun hærri en gert var ráð fyrir. Á bls. 18 í nál. meiri hl. er gerð grein fyrir þeim tölum, og þar kemur glögglega fram, hvert er áætlað kostnaðarverð Búrfellsvirkjunar á orkueiningu. Þær tölur, sem hv. flm. hefur slegið fram, eru svo fjarri lagi; að það er nánast fjarstæða, að slíkur útreikningur skuli vera borinn á borð fyrir aðila; sem reikna má með, að með einhverju móti reyni að gera sér grein fyrir því, hvernig þessum hlutum er varið. Og í sambandi við útreikninginn á áætluðu kostnaðarverði á orkueiningu er því haldið fram, að mjög óhagstæðir samningar hafi verið gerðir við álverksmiðjuna og að hún borgi í dag raforkuverð langt undir sannvirði. Það var strax í öndverðu vitað, að fyrstu árin mundi raforkuverð til álversins verða óhagstæðara eða lægra en kostnaðarverð á orkueiningu. Hins vegar var vitað, að innan örfárra ára mundi kostnaðarverðið lækka og þá kæmi fram sá hagur, sem um var að ræða í upphafi málsins af að gera slíkan orkusamning við álverksmiðjuna. Meginkjarni þessa máls er; hvort við með þessum samningi fáum hagkvæmara raforkuverð fyrir landsmenn eða ekki, og á sömu bls. er einmitt slík tafla, sem sýnir, hversu margfalt hærra raforkuverðið hefði orðið að vera; ef ekki hefði verið fyrir hendi samningur um sölu raforkunnar í svo stórum stíl sem orkusölusamningurinn við álverksmiðjuna er.

Ef Búrfellsvirkjun hefði verið byggð eingöngu fyrir innanlandsmarkað, hefði kostnaðarverð á selda kwst. fyrsta rekstrarárið numið 224 aurum. Það hefði lækkað smám saman ofan í 77.8 aura á 5. rekstrarári. Með sölu til ISALs er kostnaðarverð á selda kwst. hins vegar 47.4 aurar fyrsta árið, en 22.7 aurar 5. árið, og með sölu til ISALs fæst full nýting á 6.–7. ári, og þá er kostnaðarverðið komið niður í 20.1 eyri á kwst. Söluverð kwst. til álversins er í dag 26.4 aurar, en ekki 22 aurar, eins og kemur fram í nál. minni hl., og stendur það verð til ársins 1976, lækkar þá ofan í 22 aura. Enn er reynt að blekkja í málinu, og ég segi, að þar sem vitað er í dag, hvert orkusöluverðið er til ISALs, er hér vísvitandi farið með rangar tölur.

Ég held, að engum blandist hugur um, að sá samningur, sem gerður var við ISAL, er mjög hagstæður fyrir okkur, því að við getum framleitt orkuna á miklu lægra verði fyrir það, að við höfum svo stóran samning um orkusölu. Hefði, eins og ég gat um áðan, ekki verið fyrir hendi slíkur orkusölusamningur, væri stórkostlega mikill munur á kostnaðarverðinu á orkueiningunni frá Búrfellsvirkjun, og ætti það eitt að nægja til þess, að menn gerðu sér grein fyrir því, að hér er um að ræða hagstæða samninga, og því hefur að sjálfsögðu ætíð verið haldið fram, að viðsemjendur okkar væru ekki að gefa okkur neitt, þeir teldu sig hagnast að sjálfsögðu fyrir sína parta, um leið og við teljum, að samningur við þá sé mjög mikill hagur fyrir okkur hins vegar.

Þá er því haldið fram, að kostnaðarverð Búrfellsvirkjunar í dag sé orðið 3 708 millj. kr. Bókfærður stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar, –hér er um að ræða tölur miðað við 30. sept., –var hins vegar 3 331 millj. kr., og kemur þetta fram á bls. 4 í nál. meiri hl., þ.e. neðsta talan, 3 331.1 millj. kr. Hins vegar lætur minni hl. í veðri vaka, að stofnkostnaðurinn sé kominn í 3 428 millj., en hér er enn fremur um að ræða talnaleik, þar sem tekin er inn í tala, sem er vegna skatta, gengistaps, vaxta og kostnaðar, sem er áætluð tala vegna verksins í heild og því ekki áfallinn kostnaður nema fyrir þann hluta verksins, sem nú þegar hefur verið framkvæmdur.

Þá er eitt atriði, sem kemur fram í nál. minni hl., þar sem gert er ráð fyrir framleiðslu kwst. við Búrfellsvirkjun og það gefið í skyn, að í dag séu aðrar tölur teknar til viðmiðunar en var, þegar frv. um lagagildi samningsins var lagt fyrir Alþ. Á bls. 225 er hægt að sjá, hvaða tölu þar er gengið út frá, og þeir, sem geta lesið, lesa 1720 millj. kwst. sem framleiðslumöguleika Búrfellsvirkjunar. Og þegar reiknaður er út kostnaður á orkueiningu verður að sjálfsögðu að taka inn það, sem til er kostað, svo og þá fullnýtingu, sem gert hefur verið ráð fyrir frá upphafi, en ekki tölu, sem á fyrri stigum málsins var slegið fram, þ.e. 1635 millj. kwst., en þegar við framlagningu málsins á Alþ. er gert ráð fyrir framleiðslu á 1720 millj. kwst.

Þetta eru í stórum dráttum gagnrök við þær fullyrðingar, sem hv. 6. þm. Reykv., 1. flm. þessarar till., viðhafði við fjárlagaumr. í haust, og ég held, að það verði ekki um að villast, að þær tölur, sem ég hef nú nefnt, sýna og sanna, að þar hefur verið rangt með farið, hv. þm. hefur e.t.v. misskilið hlutina, og hann verður þá og hefur vonandi verið leiddur í allan sannleika um þær tölur, sem hér er um að ræða. Hins vegar orðaði hann það svo í lok sinnar ræðu, að hér væri um að ræða eitt mesta fjármálahneyksli, sem átt hefði sér stað í landinu. Ég furðaði mig á því, þegar þessi hv. þm. viðhafði þessi orð. Það vill svo til, að við höfum báðir verið aldir upp í því byggðarlagi, þar sem þetta iðjuver, þ.e. álverksmiðjan, hefur nú verið reist, og ég geri mér fullkomlega grein fyrir því, hvaða áhrif þetta hefur haft á hag þess fólks, sem þar á heima. Ég geri mér mjög vel grein fyrir því, að eftir að álverksmiðjan var reist í Hafnarfirði, munu sveiflur, sem við getum ætíð átt von á í efnahagslífi okkar, vegna þess hversu einhæft atvinnulíf okkar er, þá munu þær sveiflur hafa minni áhrif í Hafnarfirði en þær hafa oft haft, þ.e. þegar sjávarafli bregzt og þegar verðfall verður á sjávarafurðum. Hv. 6. þm. Reykv. telur sig sjálfsagt vera á Alþ. sem fulltrúa verkalýðsins, og ég held þess vegna, að það sé ekkert óeðlilegt, að ég geti þess, sem fyrir nokkrum vikum var rætt einmitt á fundi verkalýðsfélagsins í Hafnarfirði, Hlífar, þegar félagsmenn beinlínis óska eftir því við bæjaryfirvöld og við stjórnvöld ríkisins, að áfram verði haldið á þeirri braut, sem núv. ríkisstj. hefur verið á í sambandi við uppbyggingu stóriðju í landinu, og þeir óska sérstaklega eftir því, að hægt verði að fá slíka stóriðju áfram staðsetta í sínu byggðarlagi. Það hugsar auðvitað hver um sjálfan sig, og þeir eru þegar búnir að komast í kynni við stefnu ríkisstj. í þessum málum, og þetta er að mínum dómi mjög góður vottur þess, að einmitt þessir aðilar, verkalýðsforingjarnir á staðnum, skilja nú, hvernig hér hefur verið hugsað, og óska eftir því beinlínis, að núv. ríkisstj. haldi áfram á þessari braut. Með þessari samþykkt held ég, að þessir aðilar, sem ekki hvað sízt eiga undir því að hafa blómlegt og fjölskrúðugt atvinnulíf, hafi afsannað þau stóru orð, sem hv. 6. þm. Reykv. viðhafði, þegar hann taldi þetta eitt mesta fjármálahneyksli, sem orðið hefði á Íslandi. Ég hef orðað hv. 6. þm. Reykv. kannske meir við þetta mál en hv. 4. þm. Reykv., sem er annar flm. málsins, og það stafar einfaldlega af því, að hv. 6. þm. Reykv. gerði þetta að sérstöku umtalsefni í sinni fjárlagaræðu. Að vísu tóku þeir báðir hér til máls við 1. umr. þessarar till., en á meðan ég heyri ekki hv. 4. þm. Reykv. segja það, trúi ég því ekki, að það sé hans skoðun, að hér sé um að ræða eitt mesta fjármálahneyksli, sem átt hafi sér stað á Íslandi.

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til að fara fleiri orðum um álit meiri hl. fjhn., en eins og fram kemur á þskj. 365, telur meiri hl. fjhn., að þær upplýsingar, sem fram komu við 1. umr. þessa máls í ræðum hæstv. fyrrv. raforkumrh. og hæstv. núv. raforkumrh., hafi allar verið með þeim hætti, að fullyrðingar hv. 6. þm. Reykv. hafi með þeim verið hraktar. Allt, sem fram hefur komið í þessu máli af hálfu fjhn., er að dómi meiri hl. því til stuðnings, og við teljum ekki ástæðu til þess að skipa nefnd til þess að gera þá rannsókn, sem flm. fara fram á. Við teljum, að fjhn. hafi nú þegar fengið öll gögn á borðið, og hver, sem lesið geti, geti skilið, að hér er allt með felldu og allar fullyrðingar hv. þm. úr lausu lofti gripnar, og meiri hl. n. leggur til, að till. verði felld.