20.03.1970
Neðri deild: 63. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í D-deild Alþingistíðinda. (3181)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Langar og þrætugjarnar umræður stjórnarandstæðinga um þetta þingmál liggja að mínum dómi algerlega utan efnis þess. Till., sem fyrir liggur, fer fram á þrennt: Í fyrsta lagi, að nefnd þm. rannsaki staðreyndir um byggingarkostnað Búrfellsvirkjunar, eins og þar segir. Í öðru lagi, að sama nefnd þm. rannsaki rekstrarkostnað nú og síðar. Í þriðja lagi, að þessi nefnd þm. rannsaki samninga virkjunarinnar um orkusölu.

Nú spyr ég flm. þessarar tillögu: Í fyrsta lagi: Hvað er á huldu um staðreyndir varðandi byggingarkostnað Búrfellsvirkjunar, sem þingmannanefndinni er ætlað að rannsaka? Í öðru lagi: Er það rétt eða rangt, sem meiri hl. fjhn. upplýsir í nál. sínu, að nm. og þ. á m. annar flm. þessarar þáltill. um rannsókn Búrfellsvirkjunar hafi lýst því yfir sérstaklega aðspurðir, að frekari upplýsinga væri ekki óskað frá Landsvirkjun né heldur hafi verið óskað eftir öðrum aðilum til viðræðna við n.? Í þriðja lagi: Hvað er á huldu um rekstrarkostnað, sem þingmannanefndinni er ætlað að rannsaka? Í fjórða lagi: Hvað er á huldu um samninga um orkusölu, sem lagðir voru fram á Alþ. fyrir 4 árum, sem þingmannanefndin að þessum tíma liðnum þyrfti að rannsaka?

Þessar spurningar eru fáar, en einfaldar. Hv. þm. munu væntanlega heyra greið svör hv. flm. þessa máls. Sérhver þm. getur líka svarað þeim fyrir sig hjálparlaust. Þá metur hver þm. fyrir sig, hvort þessi till. um rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar sé með öllu óþörf og tilgangslaus, nema tilgangur hennar hafi verið allur annar en efni hennar segir til um. En sé svo, þá á slík till. hvergi heima nema á þeim stað, þar sem hliðstæðar till. hafna, þ.e. í pappírskörfunni.

Hv. fjhn. á þakkir skilið fyrir að hafa viðað að sér mjög greinargóðum upplýsingum um byggingarkostnað Búrfellsvirkjunar, sem eru mjög aðgengilegar fyrir þm. og fela jafnframt í sér svör við því, hver sé munur á eldri áætlunum og raunverulegum byggingarkostnaði í áföngum og í heild, en eftirstöðvar þarf enn að áætla og í hverju frávik felist, þegar því er að skipta. Meginstaðreyndin er þessi, eins og greinir í nál. meiri hl. og tekin er upp úr skýrslum Landsvirkjunar og er ekki vefengd af minni hl. fjhn., að heildarkostnaður Búrfellsvirkjunar, sem áætlaður var árið 1966 42.8 millj. dollara, er nú talinn verða 43 millj. dollara, en í áætluninni, sem eftir er, er aðeins tæpur 1/10 þess heildarkostnaðar, sem samanburður er gerður á.

Minni hl. fjhn. fer undan í flæmingi og reynir að blekkja um það, sem máli skiptir. Í nál. minni hl. segir, að afstaða stuðningsmanna ríkisstj. í fjhn. hafi verið sú, að þar sem upplýsingar um málið lægju fyrir frá stjórn Landsvirkjunar, væri ekki þörf á frekari rannsókn en þeirri, sem fjhn. gæti sjálf haft með höndum. Síðan segir, að augljóst sé, að fjhn. d. hafi enga aðstöðu til að rannsaka málið í heild, hún hafi aðeins getað rætt við forstjóra Landsvirkjunar og formann á stuttum fundum og kynnt sér tilteknar upplýsingar þeirra. Nú vil ég spyrja: Hvaða upplýsingum óskaði þessi minni hl. fjhn. eftir, sem hann ekki fékk, og hví gat hann aðeins kynnt sér tilteknar upplýsingar, eða er hér aðeins verið vísvitandi að blekkja, reyna að láta menn renna grun í, að upplýsingum hafi verið haldið fyrir þessum minni hl. n.?

Hjá n. hefur þetta mál verið frá því í nóvembermánuði, eða um 4 mánuði. Vitaskuld gat minni hl., ef hann vildi, látið fara fram sjálfstæða skoðun á málinu á þessum tíma. Hann gat fengið í lið með sér löggilta endurskoðunarskrifstofu og aðra sérfræðinga. Hann átti sína eigin pólitísku fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar og gat leitað ásjár þeirra. Það skal heldur enginn halda, að hinir pólitísku málflytjendur minni hl. og þessa máls í heild hafi ekki leitað til sinna pólitísku sauðahúsa, þar sem jafnframt er fyrir hendi sérþekking mála, og allt hafi því verið tínt til, sem hugsazt gat til ófrægðar þeim, sem að framkvæmd Búrfellsvirkjunar og álsamningunum hafa staðið. Það gagnar ekki að afsaka sig með því, að afraksturinn hafi ekki orðið meiri en raun ber vitni, af því að ekki hafi verið fyrir hendi aðstaða til þess að leiða allan sannleikann í ljós, eins og minni hl. fjhn. lætur sér sæma að dylgja um í áliti sínu.

Það er fjöldamargt í nál. minni hl. í sambandi við útreikninga, sem þarfnaðist þess, að gerðar væru við það aths., og því miður er margs konar samanburður þar byggður annaðhvort á misskilningi eða af einhverri vangá. Ég skal ekki elta ólar við það, en ég vil aðeins nefna t.d., að á bls. 2 er gerður samanburður á upprunalegri áætlun og núv. áætlun, og svo kemur hin upprunalega áætlun 31.5 millj. dollara og niðurstaðan 31.5 millj. dollara. Núv. áætlun er 32.5 millj. dollara, en niðurstaðan er ekki 32.5 millj. dollara, nei, niðurstaðan er viðbætur í þremur liðum, þ.e. aðflutningsgjöld og skattar 0.5 millj. dollara, gengistap á lánum fyrir innlendum kostnaði 1.75 millj. dollara og vextir og lántökukostnaður 4.09 millj. dollara. Þarna er bara strik í upphaflegu áætluninni, eins og ekkert hafi verið áætlað fyrir vöxtum og lántökukostnaði í upphaflegu áætluninni, og þessu hefur Landsvirkjunarstjórnin gert grein fyrir og það liggur fyrir í plöggum málsins. T.d. var sá liður 4.2 millj. í eldri áætlunum. En með þessu móti, að taka þarna frá upphæð, sem nemur 5.3 millj., er fenginn samanburður, sem á að sanna það, að hækkunin á kostnaðinum nú og einhverri upprunalegri áætlun sé um 25%. Mig furðar á því, að heil þn. skuli láta fara frá sér slíkt eins og þetta.

Mig furðar líka á því á bls. 4 í nál. minni hl., að hann skuli vera að tala um það þar, að í upphaflegri áætlun hafi verið talið, og það er látið í það skína á mörgum stöðum, að þegar álsamningarnir voru gerðir, hafi seljanleg orka verið talin 1635 millj. kwst., en nú sé talað um 1720 millj. kwst. og þannig fáist miklu betri útkoma. Nú er það upplýst í gögnum málsins frá Landsvirkjun, sem minni hl. hefur haft með höndum, að þessi upphaflega áætlun um 1635 millj. var gerð í sambandi við Landsvirkjunarfrv., þegar það var lagt fyrir, og fylgdi því árið 1965, var síðan endurskoðuð og leiðrétt í 1720 millj. kwst. í plöggum, sem fylgdu málinu, þegar álsamningarnir voru gerðir. Hví er þá verið að setja í nál. hluti eins og þetta, þar sem menn hljóta að vita betur, ef þeir lesa þau gögn, sem þeir óska eftir að fá, hafa fengið og hafa með höndum? Þegar svona er að unnið, læt ég mig litlu máli skipta karp stjórnarandstæðinga um það, hvort álfélaginu sé selt rafmagnið undir eða yfir því, sem kallað er kostnaðarverð, allt eftir því, við hvað er miðað, hvaða mismunandi reikningsaðferðum er beitt. Allar reikningskúnstir stjórnarandstæðinga byggja á því, að við verðum að telja Búrfellsvirkjun ónýta eftir 25 ár eða hún á að afskrifast á 25 árum, og orkuverðið eigi því að miðast við, að stofnkostnaður greiðist á þessu tímabili. Orkuverðið til álversins hrekkur ekki til þessa. En það eitt mundi hrökkva til að greiða allan stofnkostnaðinn á 40 árum sem og rekstrarkostnað og 7% vexti reiknaða af fjármagni. Nú er það óumdeilt, að endingartíma slíkra mannvirkja má örugglega reikna helmingi lengri en 40 ár eða allt að 80 árum, og sumir segja, að vatnsaflsvirkjanir geti enzt miklu lengur.

Raforkusölusamningurinn við svissneska álfélagið er einn þáttur í margþættri samningsgerð, og því verða menn að gera sér grein fyrir, þegar um þetta mál er rætt. Hann er forsenda þess, að stóriðja gat loksins haldið innreið sína á Íslandi. Hún skapar þáttaskil í íslenzkri atvinnusögu.

Það eru nokkrar meginstaðreyndir, sem eru mergur alls þess málæðis, sem stjórnarandstæðingar hafa stritazt við að halda uppi hér í þingsölunum um nauðsyn rannsóknarnefndar þm. vegna Búrfellsvirkjunar. Nokkrar þessara staðreynda ætla ég að leyfa mér að leiða fram. Að þeim athuguðum geta menn spurt sjálfa sig og auðveldlega svarað þeim ásökunum, sem hafa verið rauði þráðurinn í málskrafi stjórnarandstæðinga, að Búrfellsvirkjun og álsamningarnir séu eitthvert stórfelldasta stjórnmála- og fjármálahneyksli, sem gerzt hafi hér á landi, eins og þeir, sem gefið hafa tóninn, kommúnistarnir, hafa orðað það.

1. Við byggingu Búrfellsvirkjunar, álbræðslunnar við Straumsvík og hafnargerðar í Straumsvík hafa um tveggja til þriggja ára skeið unnið meira en þúsund manns árlega og vinnulaun ein til Íslendinga numið um 1000 millj. kr.

2. 35 starfsmenn Íslenzka álfélagsins, ISAL, fengu þjálfun erlendis á 9 stöðum í 6 löndum. Dvalartími var frá nokkrum vikum og upp í tvö ár, en meðaltal dvalartíma um eitt ár. Ekki er kunnugt um, að væntanlegir starfsmenn nýrrar álverksmiðju hljóti svo víðtæka og alhliða þjálfun. Kostnaður ISALs af þjálfun starfsmanna mun hafa numið 15 millj. kr.

3. Samið er um rafmagnsverð til álbræðslunnar í erlendum gjaldeyri. Framleiðslugjaldið eða skattar álbræðslunnar greiðast einnig í dollurum. Eftir 6 ár munu heildargjaldeyristekjur af álbræðslunni verða orðnar jafnar öllum stofnkostnaði Búrfellsvirkjunar.

4. Tekjur af raforkusölunni til álbræðslunnar munu á næstu 25 árum nema 6500 millj. kr. eða 74 millj. dollara.

5. Skatttekjur af álbræðslunni munu á næstu 25 árum nema um 4400 millj. kr. Það er í nál. meiri hl. prentvilla, stendur þar 4000, ég vil leiðrétta það, skatttekjur af álbræðslunni munu á næstu 25 árum nema um 4400 millj. kr. eða um 50 millj. dollara.

6. Samtals munu gjaldeyristekjur af sölu rafmagns til álbræðslunnar og skattgjaldi í 25 ár nema nærri 11000 millj. kr., eða hátt í þrisvar sinnum meira en allur stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar.

7. Gjaldeyristekjur af sölu rafmagns og skattgjald álbræðslunnar munu fyrstu 15 árin nægja til þess að endurgreiða öll lán vegna virkjunarinnar með 7% vöxtum.

8. Heildargjaldeyristekjur á ári, eftir að fullum afköstum álbræðslu er náð, sem eru um 75 þús. tonna árleg framleiðsla hrááls, hafa verið áætlaðar um 760 millj. kr. miðað við árið 1974, þar af framleiðslugjald 107 millj. kr., vinnulaun 203 millj. kr., raforka 302 millj. kr., aðrar greiðslur, svo sem farmgjöld, vextir, afborganir lána vegna Straumsvíkurhafnar, efnavörur, þjónusta o.fl. 155 millj. kr. Þessar hreinu gjaldeyristekjur munu leiða af sér margfeldisáhrif í þjóðarbúskapnum, sem stórauka þjóðartekjurnar, sennilega um fjórfalda þessa upphæð eða nálægt 3000 millj. kr. á ári.

9. Íslendingar fá raforku frá Búrfellsvirkjun margfalt ódýrari en ella vegna raforkusölu til álbræðslunnar. Ef Búrfellsvirkjun hefði verið byggð eingöngu fyrir innanlandsmarkað, hefði kostnaðarverð á selda kwst. fyrsta rekstrarárið numið 224 aurum. Þetta hefði lækkað smám saman ofan í 77.8 aura á 5. rekstrarári, en með sölu rafmagns til ISALs er kostnaðarverð á selda kwst. hins vegar 47.4 aurar fyrsta árið, 41.3 aurar næsta árið og kemst niður í 21.1 eyri við fullnýtingu á 9. ári. Þó held ég, án þess að ég hafi nokkra aðstöðu til þess að leggja á það dóm, að Landsvirkjun hafi verið mjög sanngjörn í þessari áætlunargerð um það, hver kostnaður hefði orðið við Búrfellsvirkjun án álbræðslu. Hún gerir þá ráð fyrir og tekur inn í dæmið, að hún verði byggð allt öðruvísi upp, byrjað með eina samstæðu, 35 mw., og haldið þannig áfram, og gerir jafnvel ráð fyrir því, að stíflugerð hafi farið fram í áföngum, og dreifir þess vegna kostnaðinum, sem hún telur þó, að verkfræðilega sé hæpið, að hefði verið hægt. Þegar þetta liggur fyrir, vekur það stórkostlega furðu mína, að það skuli svo sjást í plöggum málsins hér, sem lögð eru fram hjá minni bl., og einnig í síðasta plagginu, sem afhent var frá einum stjórnarmanni Búrfellsvirkjunar, að Íslendingar þurfi að greiða margfalt hærra raforkuverð vegna sölu rafmagnsins til álbræðslunnar. Þetta er stórfurðulegt, að þm. skuli láta slíkt eftir sig liggja í þskj.

10. Ef borið er saman raforkuverð og skattgreiðslur hliðstæðrar bræðslu í Noregi, — ég hef vikið að því áður við annað tækifæri, þ.e. Sural, það er álbræðslan í Husnes, hún er nokkuð sambærileg við það, sem ætlað var, að hér væri, — þá liggja fyrir upplýsingar um það, sem ég hef beztar getað fengið fram til þessa og er reiðubúinn til að leiðrétta þær og láta rannsaka þær betur, eins og ég hef sagt, að hvort tveggja út af fyrir sig og samanlagt er hærra á Íslandi en í Noregi, rafmagnsverðið og skattarnir. Rafmagnsverðið var hærra í Noregi, þegar við vorum að afgreiða álsamninginn, eins og ég hef bent á líka, en lækkaði miðað við dollara við gengislækkunina, sem varð í Noregi fyrir nokkrum árum, þar sem samningar voru í norskum kr., en hér var samið um rafmagnsverðið í dollurum. Og það er innan við þau 3 mill, sem nú er greitt fyrir orkuna hér og verður greitt fram til 1975. Rafmagnsverðið í Noregi, hjá Sural, er 25.92 aurar á kwst., en hjá ISAL 26.4 aurar á kwst. Skattar ISALs eru meira en tvöfalt hærri en í Noregi, miðað við raunverulegar og sambærilegar skattgreiðslur þar 1968, sem liggja fyrir, þegar verksmiðjan hefur verið rekin 1967 og 1968 í Noregi. Ég hef ekki reikningana fyrir 1969, en það er meira en tvöfalt hærra en orðið hefði hér með þeim samningum, sem gerðir hafa verið, ef íslenzka álbræðslan hefði þá framleitt sama magn og álbræðslan í Noregi gerði 1968, sem mig minnir, að hafi verið 57 þús. tonn hrááls.

11. Raforkusölusamningurinn við ISAL er tímabundinn. Að því kemur, að við getum sjálfir tekið þetta rafmagn til okkar eigin nota, ef það hentar okkur betur á þeirri tíð. Hann er í erlendum gjaldeyri, dollurum, og hann er með skuldbindingu um greiðslu umsamdrar raforku, enda þótt hún yrði ekki notuð, t.d. ef dregið yrði úr afköstum eða framleiðslu áls hætt vegna breytinga á heimsmarkaði eða gerbreyttrar tækniþróunar, en hvort tveggja gæti orðið, að dregið yrði úr afköstunum hér vegna breyttra markaðsaðstæðna, og það gæti líka hugsazt, þó að það sé ekki líklegt, að álframleiðslu yrði hreinlega hætt í þessari verksmiðju vegna breyttrar tækniþróunar. En slíkt hefur orðið á öðrum sviðum, sbr. áburðarframleiðsluna í Noregi, sem menn þekkja til. En fyrir greiðslunni á umsömdu rafmagnsverði eru fullgildar tryggingar, enda þótt rafmagnið verði aldrei notað.

Það eru staðreyndir eins og þær, sem ég hef vikið að hér, og margar fleiri áþekkar, sem of langt mál yrði upp að telja, sem menn verða að hafa í huga, þegar menn eru að meta, hvort samningarnir við ISAL, samningarnir, sem voru grundvöllur fyrir Búrfellsvirkjun, eru hagstæðir eða ekki. Menn geta endalaust deilt um það, hvað eigi að leggja til grundvallar í sambandi við fyrningarafskriftir og annað, eins og ég hef áður vikið að. Ég hygg, að sú reynsla, sem við höfum þegar fengið af byggingu álbræðslunnar og rekstri þann stutta tíma, sem við höfum haft af rekstri hennar að segja, og sú þekking, sem við þegar höfum um áhrif hennar á rekstur Landsvirkjunar, hafi sýnt mönnum í vaxandi mæli fram á, hve hagstæðir samningar hér voru gerðir, sem hafa þegar haft stórkostlega bætandi áhrif á þjóðarhag okkar og eru líklegir til að hafa það í vaxandi mæli í framtíðinni. Mér var það ánægjuefni, þegar frv. um stækkun álbræðslunnar var afgreitt hér í d., að Framsfl. studdi það mál. Ég dreg ekki fjöður yfir það, að það var gerð grein fyrir því, að þar með léti sá þingflokkur liggja á milli hluta, hvort verðið á rafmagninu til ISALs væri undir framleiðsluverði, en engu að síður var að mínum dómi mikilvæg sú viðurkenning, sem í því fólst að fylgja því máli, eins og gert var með skýrum og efnislegum rökum.

Ég get kannske tæpast búizt við, að í þessu máli snúi sá þingflokkur alveg við blaði, þar sem einn af hans áhrifameiri mönnum er meðflm. þeirrar till. hér, rannsóknarnefndartillögunnar, sem meiri hl. n. leggur til að verði felld og við í ríkisstj. og stuðningsmenn ríkisstj. viljum fella. En þó er ég að gera mér nokkrar vonir um, að það kunni að vera nokkrir úr þeim hópi, sem eru ekki þess sinnis að fylgja máli eins og þessu, vegna þess að það er staðreynd, sem eftir stendur, enda þótt ég hafi í huga niðurlagsorð hv. síðasta ræðumanns, að hér hafa verið lagðar á borðið upplýsingar, sem eru þess eðlis, að ekkert, sem menn hafa óskað eftir, vantar í þessu máli. Umr. hafa í rauninni ekki snúizt, eins og ég sagði í upphafi, um efni till., heldur um það, hvort hv. 6. þm. Reykv. hafi farið með rétt mál og réttar staðhæfingar í umr. Allur meginparturinn af umr. fjallar um það mál. Hitt hafa menn síður sinnt um að ræða, hvort þörf sé á frekari rannsókn en hér hefur verið lögð á borðið.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég lýk máli mínu með því að endurtaka það, sem ég sagði, að meginatriðið er að gera sér grein fyrir málinu í heild og meta það, hvort menn vilja hafa verið án þess, sem gerzt hefur vegna álsamninganna og vegna orkusölusamningsins á undanförnum árum, og hvort menn vilja vera án þess nú og í framtíðinni, sem leiða mun af þessum samningi, þessari stóriðju, sem haldið hefur innreið sína, og þeirri stórvirkjun, sem henni fylgir, í Þjórsá. Þeir, sem vilja og óska þess að vera án alls þessa og hafa ekki kært sig um að hafa það og vilja ekki hafa það, fylgja auðvitað að máli þeim mönnum, sem sí og æ hafa lýst sig andvíga þessu máli. En ég hef látið mér koma í hug, að það séu fleiri og fleiri, sem muni slást í hópinn með þeim, sem á sínum tíma mátu þetta mál sem eitt af meiri háttar framfaramálum okkar Íslendinga, og fylgi við málstaðinn muni því, eins og fram til þessa, fara vaxandi í framtíðinni.