23.03.1970
Neðri deild: 65. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í D-deild Alþingistíðinda. (3184)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Í fyrri hluta ræðu minnar, sem fluttur var s.l. föstudag, minntist ég fyrst á þá niðurstöðu fjhn. að leggja til, að till. okkar hv. þm. Þórarins Þórarinssonar um rannsóknarnefnd yrði felld. þeirri afstöðu er fólgin ákaflega lærdómsrík viðurkenning á því máli, sem um hefur verið deilt á Alþ. Ég vék einnig að því í þessum fyrri hluta ræðu minnar, að í skýrslu þeirri, sem Jóhannes Nordal, formaður Landsvirkjunarstjórnar, og Eiríkur Briem, framkvæmdastjóri hennar, hafa birt og er meginefni í nál. meiri hl. fjhn., er viðurkennt, að ég hafi farið með rétt mál að því er varðar þau atriði, sem voru hér til umr. í haust. Í fyrsta lagi er það staðreynd, sem ekki verður vefengd, að fyrri hluti virkjunarframkvæmdanna, kostnaður við fyrri hlutann, fór fram úr áætlun um 26% miðað við þá áætlun, sem endurskoðuð var með tilliti til tveggja gengislækkana. Í annan stað er það einnig staðfest, að tapið á viðskiptunum þessi fyrstu ár er ákaflega stórfellt og raunar meira en ég hélt hér fram í haust. Hins vegar kemur fram mismunur að því er varðar endanlegt raforkuverð, eftir að búið er að fullgera Búrfellsvirkjun, og halda ráðamenn Landsvirkjunar því fram, að verðið verði nokkrum aurum lægra en ég hafði haldið fram. Ástæðan fyrir þessum mismun er sú, að ráðamenn Landsvirkjunar hafa breytt forsendum þeim, sem áður voru gefnar. Í stað þess, að upphaflega var reiknað með því, að stöðin yrði greidd niður á 25 árum, þá er nú talað um að greiða hana niður á 40 árum. En með því að breyta þannig forsendum eru menn að sjálfsögðu að fjalla um þetta mál á óheiðarlegan hátt. Eigi að vera um einhvern raunverulegan samanburð að ræða, þá verða að vera sömu forsendurnar í bæði skiptin. En jafnvel þessar breyttu forsendur hrökkva ekki til. Í plaggi ráðamanna Landsvirkjunar eru margar töflur birtar, en þó vantar þar ýmsar töflur, sem fróðlegt hefði verið að sjá. Það er t.d. engin tafla þar um tapið fyrstu árin, þegar einnig stjórn Landsvirkjunar viðurkennir, að um veruleg tapviðskipti sé að ræða. Í áliti stjórnar Landsvirkjunar er engin vitneskia um það gefin, hversu mikið þetta tap er. Ég hef bætt úr þessari undarlegu vanrækslu Landsvirkjunarstjórnar með því að reikna þessi töp út. Og niðurstaðan er sem hér segir:

Á árinu í ár er kostnaðarverð á raforku 47.4 aurar á kwst., að því er stjórn Landsvirkjunar segir, en greiðslan frá álbræðslunni er aðeins 22 aurar, því að verðið 26.4 aurar er sem kunnugt er fengið með því, að ríkissjóður greiðir 4.4 aura með hverri kwst. frá Búrfellsvirkjun til álversins. Þar er um að ræða tilfærslur hér innanlands, en ekki viðskipti við álbræðsluna, greiðsla hennar er aðeins 22 aurar. Á þessu fyrsta ári, árinu í ár, er tapið af viðskiptunum 155 millj. kr. Á næsta ári, 1971, er framleiðslukostnaðarverð 41.3 aurar á kwst. og tapið á sölu á raforku til álbræðslunnar er á sama hátt 139 millj. kr. Árið 1972 er framleiðslukostnaðarverðið 31.9 aurar og tap okkar á viðskiptunum á sama hátt 91 millj. Árið 1973 er framleiðslukostnaðarverð 24.7 aurar og tap á viðskiptunum 31 millj. Árið 1974 er framleiðslukostnaðarverð 22.7 aurar og árstap á viðskiptunum 9 millj. Þessi 5 ár er sem sé um tapviðskipti að ræða, sem nema samtals 424 millj. kr. Þetta er allt saman samkvæmt tölum Landsvirkjunarstjórnar sjálfrar. Og hver á að greiða þetta tap? Um það er enga vitneskju að finna í þeirri skýrslu, sem hér liggur fyrir. Á það er ekki minnzt. Hins vegar er lögð áherzla á það, að í lok 25 ára tímabils verði heildargreiðslurnar frá álbræðslunni orðnar 6.5 milljarðar kr. Það er að vísu nokkuð of há tala, því að þessi meðgjöf úr ríkissjóði er þarna meðtalin, hin raunverulega tala er 6.2–8.3 milljarðar kr. En ef þetta tap, sem ég var að ræða um áðan, er einnig gert upp í lok þessa 25 ára tímabils með 7% vöxtum, þá er það orðið 877 millj. kr. Það eru um 14% af heildarupphæðinni. Til þess að rísa undir þessu tapi og ná þeirri afkomu, sem stjórn Landsvirkjunar talar um, þyrfti raforkuverðið þannig að vera 14% hærra en nú er talað um. Sé miðað við 21.3 aura á kwst., sem framleiðslukostnaðarverðið er, hið endanlega verð, þá þyrfti það að vera 14% hærra til að ná jöfnuði, ekki 21.3 aurar, heldur 24.3 aurar. En það er 2.3 aurum hærra en álbræðslan greiðir. Aðeins þetta eina atriði, tapið af þessum viðskiptum, hið óvefengjanlega tap af þessum viðskiptum fyrstu 5 árin, raskar gersamlega þeim nýja grundvelli, sem stjórn Landsvirkjunar hefur búið sér til.

En hver er ástæðan til þess, að ekki er reiknað með þessu tapi, sem þó liggur fyrir sem viðurkennd staðreynd? Ástæðan er sú, að Íslendingum er ætlað að greiða þetta tap. Við eigum að leggja þetta fram sem óendurkræft framlag. Og það á að taka þetta fé með skattlagningu á Íslendinga, sem skipta við Landsvirkjun. Við höfum reynslu af því nú síðustu árin, að það eru árvissar hækkanir á raforkuverði, og samt er því lýst yfir í skýrslunni, að þessar hækkanir hafi verið allt of litlar. Það hafi ekki verið talið fært að hækka raforkuna eins mikið og nauðsynlegt hefði verið, og ein ástæðan til þess, að það var ekki talið fært, voru raunar þær miklu umr., sem urðu á þinginu í haust. Engu að síður hafa verðhækkanirnar orðið mjög stórfelldar. 15. febr. s.l. hækkaði raforkuverð um 19% í heildsölu, og heildsöluverð að viðbættu verðjöfnunargjaldi er nú 67.7 aurar á kwst. Þetta er það verð, sem íslenzkir viðskiptavinir Landsvirkjunar verða að greiða. Það er þrefalt hærra verð en álbræðslan greiðir. Samt er hér aðeins um heildsöluverð að ræða. Þegar kemur að neytendum, verður verðið svo aftur margfalt hærra en þetta. Greiðsla fyrir heimilisnotkun í Reykjavík er t.d. um 2 kr. á kwst., 9 sinnum hærra en álbræðslan greiðir. Og samt eru ýmsir aðilar, sem greiða hærra verð en þetta. Þessar verðhækkanir eru framkvæmdar til þess að leggja á Íslendinga óhjákvæmilegt gjald til þess að borga upp hallann af viðskiptunum við álbræðsluna.

Í skýrslum stjórnar Landsvirkjunar eða meiri hl. hennar koma fram ýmis fleiri atriði, sem vert væri að gera að umtalsefni. Ein aðferðin til þess að gera þessi viðskipti hagkvæmari í augum almennings er sú, að nú er því haldið fram, að framleiðsluafköst véla Búrfellsvirkjunar hafi reynzt 15% meiri en málmraun segir til um. Og um það hefur verið talað í blöðum eins og einhverja guðsgjöf, að þessar vélar hafi reynzt miklu afkastameiri en menn reiknuðu með. En hér er um algera fölsun að ræða. Í útboðslýsingu Landsvirkjunarstjórnar var það gert að skilyrði, að vélasamstæðurnar væru þannig gerðar. Það var reiknað með því fyrir fram, að vélarnar gætu skilað 15% meiri afköstum. Þetta var skilyrði af hálfu Landsvirkjunarstjórnar, þegar hún bauð verkið út. Samt var ekki reiknað með þessu þá, og það er engan veginn eðlilegt að reikna með því núna heldur. Raunar er það ekki ljóst, að þessi afköst náist, því að ekki er búið að setja upp nema þrjár af vélasamstæðunum og að sjálfsögðu engin reynsla fengin af þeim, sem ekki er búið að setja upp. Og það er ekki einu sinni hafin sú miðlun við Þórisvatn, sem er forsenda þess, að hin auknu afköst nýtist að fullu.

Annað atriði, sem vert er að minna á í þessu sambandi, eru ísvandamálin í Þjórsá. Því er haldið fram í einni eða tveimur setningum í skýrslunni, að þau vandamál séu nú fullleyst og ekkert vandamál sé þar eftir. En þetta er því miður fjarri sanni. Á þessum vetri hefur margsinnis komið til örðugleika við Búrfellsvirkjun vegna ísamyndana. Þar hafa orðið alvarleg ísavandamál 10–15 sinnum á þessum vetri og oft staðið í meira en sólarhring. Það hefur orðið til bjargar, að vatnsmagnið í Þjórsá hefur verið óvenju mikið í vetur. Það hefur verið um 140 rúmmetrar á sekúndu. En af þessu vatnsmagni hefur orðið að nota 30–40 rúmmetra til þess eins að fleyta ísnum fram hjá, og þetta vatnsmagn hefur að sjálfsögðu ekki nýtzt við raforkuframleiðslu. Þessi aðferð hefur því aðeins staðizt, að orkuþörfin hefur verið mjög takmörkuð, en um leið og hún eykst, stenzt þessi aðferð ekki. Truflanir eins og þær, sem orðið hafa í vetur, mundu þá verða til þess, að orkuframleiðslan raskaðist og nota yrði gasaflsstöðina, en það er ákaflega kostnaðarsamt, eins og allir þm. vita. Raunar hafa ísvandamálin valdið því, að orðið hefur að taka upp mjög kostnaðarsamt eftirlit með ísamyndunum í Þjórsá. Þar hafa fjórir menn verið á vakt allan sólarhringinn í vetur. Byggt hefur verið fyrir þá sérstakt hús, og þeir hafa ýmsa bíla til sinna nota, og þarna hafa verið ýmis fleiri tæki, sem aflað hefur verið vegna þessa vandamáls. Ef slíkur kostnaður á að haldast til frambúðar, er hætt við, að hugmyndirnar um 10% rekstrarkostnað standist ekki. Annaðhvort verður að grípa til miðlunarmannvirkja vegna þessarar ísamyndunar eða nota verður gasaflsstöðina mun meira en menn hafa gert ráð fyrir, og hvort tveggja er þetta kostnaðarsamt.

Enn eitt atriði, sem vert væri að minnast á og fá vitneskju um hjá hæstv. ráðh., er sú deila, sem Landsvirkjun á í við verktaka. Það er alkunna, að verktakar hafa farið fram á að fá verulega miklu hærri fjárhæð en um var samið vegna verksins. Ég hygg, að kröfur þeirra nemi um 7–800 millj. kr. Mér þætti afar fróðlegt að fá um það yfirlýsingu frá hæstv. ráðh., hvort hann telji það öruggt með öllu, að ekki þurfi að fallast á þessar kröfur.

Í sambandi við umr. í haust spurði ég margsinnis um það, hver yrði kostnaður við seinni áfanga virkjunarinnar. Ég benti á mjög einkennilegt misræmi, sem komið hefði fram á hinu háa Alþ. Þegar lagt var fram frv. um lántökuheimild í apríl s.l. vegna seinni áfanga virkjunarinnar, þá var farið fram á að fá að taka lán að upphæð 7.5 millj. dollara. Og í grg. í frv. var greint frá því, að þau verk, sem eftir væru, mundu kosta 7.5 millj. dollara. Nú er því haldið fram, að þessi verk muni aðeins kosta 4.1 millj. dollara, og á því hafa ekki fengizt neinar skýringar, hvernig á þessum mikla mismun standi. Að vísu er talað um, að verk hafi verið flutt á milli áfanga, frá seinni áfanga til hins fyrri. En það var ekki um neitt slíkt að ræða, eftir að frv. um lántökuheimild vegna seinni áfanga var flutt á Alþ. Þessar tilfærslur höfðu gerzt áður. Og þess vegna er mér spurn, hvort sú vitneskja, sem Alþ. var gefin, þegar þetta frv. var lagt fyrir, hafi verið röng. Vissu menn, að seinni áfangi yrði ódýrari en haldið var fram? Og var þarna verið að reyna að jafna met, sem myndazt höfðu vegna fyrri áfanga? Var verið að reyna að fela það fyrir Alþ., að fyrri áfangi hefði reynzt dýrari en menn reiknuðu með, og var verið að reyna að fá þessa upphæð með frv. vegna seinni áfanga?

Í plaggi meiri hl. Landsvirkjunarstjórnar er það mjög athyglisvert, að eftir að fjallað hefur verið allmikið um kostnað við byggingu og rekstrarkostnað, þá er tekið að ræða mjög um almenn áhrif af samningunum við álhræðsluna, og þar koma fram sjónarmið, sem ég tel rétt að vekja athygli á. á bls. 9 í skýrslunni er komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Það, sem nú hefur verið rakið um hagkvæmni stórra orkusölusamninga, eru engin ný sannindi, og eru ótal dæmi um það í heiminum, að hagkvæmt hefur þótt að selja raforku tiltölulega ódýrt til stóriðju, oft jafnvel undir kostnaðarverði, til þess að geta ráðizt í stórar og hagkvæmar virkjunarframkvæmdir. Eitt dæmi um þetta er samningur Sogsvirkjunar um sölu afgangsorku til Áburðarverksmiðjunnar á aðeins 1/6 af verði til innlendra rafveitna.“

Þarna talar stjórn Landsvirkjunar um það, að hagkvæmt geti verið að selja raforku undir kostnaðarverði, og ég hygg, að það sé engin tilviljun, að þannig er til orða tekið. Þeir vita fullvel, hvað verið er að gera. Hitt er einnig fróðlegt, að athuga samanburðardæmið, sem þeir taka, viðskiptin við Áburðarverksmiðjuna. Það er alveg rétt, að Áburðarverksmiðjan hefur fengið raforku undir kostnaðarverði, en þar er þó um algeran eðlismismun að ræða, vegna þess að Áburðarverksmiðjan er innlent fyrirtæki. Með því að selja Áburðarverksmiðjunni raforku undir kostnaðarverði er aðeins verið að gera rekstur hennar auðveldari og tryggja það, að hún geti skilað framleiðslu sinni, áburði til bænda, á lægra verði, og lægra áburðarverð á svo að geta skilað sér aftur til almennings í lækkuðu vöruverði. Þarna er aðeins um að ræða tilfærslu á fjármunum innanlands. Ef okkur þykir það henta að færa til fjármagn frá raforkustöðvum okkar til einhverra fyrirtækja innanlands, þá getur það að sjálfsögðu verið hagkvæmt í ýmsum tilvikum, en um slíkt er ekki að ræða í viðskiptunum við álbræðsluna. Sá ábati, sem hún hefur af því að fá raforku á þessu lága verði, flyzt úr landi. Hann verður ekki eftir hér innanlands, hið erlenda fyrirtæki er að hagnýta auðlindir okkar í sína þágu og flytja ágóðann burt með sér.

Annað dæmi um þessa sérstöðu álbræðslunnar birtist á bls. 10 í skýrslunni. En þar er að finna svo hljóðandi röksemdafærslu, með leyfi hæstv. forseta:

„Hin ástæðan til þess, að nauðsynlegt er að halda tiltölulega háu rafmagnsverði til almenningsveitna næstu árin eru áætlanir Landsvirkjunar um mjög öra uppbyggingu raforkukerfisins, er geti lagt grundvöll að frekari stóriðjuframkvæmdum. Í rauninni hefði verið eðlilegast, að Landsvirkjun hefði fengið mun meiri eigin fjárframlög frá eignaraðilum, ríkinu og Reykjavíkurborg, bæði til Búrfellsvirkjunar og áframhaldandi virkjunarframkvæmda. Hefði þá verið tiltölulega auðvelt að stilla hækkun verðlags innanlands mjög í hóf. Hins vegar hefur það orðið ofan á, eins og svo oft áður, að aukning eigin fjár hefur orðið að eiga sér stað að mestu leyti með hækkuðu verði. Jafnframt þurfa menn að gera sér grein fyrir því, að með þessum verðhækkunum eru þeir að leggja fé til örari uppbyggingar raforkukerfisins og til bættrar fjárhagsstöðu Landsvirkjunar, en af hvoru tveggja munu þeir hafa stórfelldan hag, þegar til lengdar lætur.“

Þarna er vakin athygli á því alkunna fyrirbæri, að þjóð getur oft lagt á sig ýmsar fjárhagslegar byrðar til þess að búa í haginn fyrir framtíðina, að bæði einstaklingar og íslenzk fyrirtæki geta þurft að greiða hærra raforkuverð en sem svarar framleiðslukostnaði til þess að búa í haginn fyrir frekari raforkuframkvæmdir til þess að tryggja hagþróun í landi sínu og til þess að búa í haginn fyrir framtíðina. En álbræðslan stendur fyrir utan þjóðfélagið að þessu leyti. Henni er ekki ætlað að standa undir þessari almennu þróun hins íslenzka þjóðfélags. Hún hefur sérstöðu, hún á ekki að leggja fram það sama og íslenzkir atvinnurekendur verða að gera og íslenzkur almenningur. Þetta er sérstaða þessa fyrirtækis, og þetta verður sérstaða annarra erlendra fyrirtækja, ef haldið verður áfram á þessari braut. Þetta verða aðskotadýr í þjóðfélagi okkar, og við ætlumst ekki til sömu verkefna af þeim og við ætlumst til af okkur sjálfum.

Eins og ég hef rakið, vita ráðamenn fullvel, að röksemdir þær, sem ég og aðrir höfum flutt á þingi um tapið af raforkuviðskiptunum við álbræðsluna, eru óvefengjanlega réttar. Þess vegna leggja þeir megináherzlu á almennar rökemdir. Að okkur sé hagur í því að hafa fengið álbræðsluna inn í landið, enda þótt ekki sé neinn reikningslegur ábati af raforkusölunni út af fyrir sig. Álbræðslan sé almenn lyftistöng fyrir þjóðfélagið, tryggi atvinnu og margháttaðar þjóðfélagslegar tekjur. Raforkuverð til Íslendinga yrði að vera margfalt hærra, ef álbræðslan keypti ekki neitt o.s.frv. Á þetta er lögð áherzla í niðurlagi skýrslunnar frá meiri hl. Landsvirkjunarstjórnar. Þetta var aðalefnið í ræðum hv. frsm. meiri hl. fjhn. og í ræðu hæstv. raforkumrh. á föstudaginn var, og þetta er orðin uppistaðan í almennum áróðri Morgunblaðsins. Í þessum flótta á nýjar vígstöðvar er einnig fólgin viðurkenning á því, að röksemdir mínar um raforkuviðskiptin eru réttar.

En það er rétt að fara einnig nokkrum orðum um þessar almennu röksemdir. Samanburðurinn um raforkuverðið er mjög glöggt dæmi um það, hvernig reynt er að hafa uppi óheiðarlegan samanburð. Annars vegar er rætt um þau viðskipti, sem nú eiga sér stað, hins vegar er gert ráð fyrir því, að engin ný iðnþróun hefði fylgt í kjölfar Búrfellsvirkjunar, ef ekki hefði verið samið við álbræðsluna. Samkvæmt þessu áttu Íslendingar þá um tvo kosti að velja: Annaðhvort að selja álbræðslunni raforku eða framleiða raforku án þess að hafa neinn kaupanda. Og auðvitað er það auðvelt reikningsdæmi, að óhagkvæmast af öllu sé að framleiða raforku til einskis gagns án þess að hafa kaupanda að henni. En auðvitað stóð það ekki til, þegar Búrfellsvirkjun var ákveðin, að framleiða raforku út í bláinn án þess að breyta henni í verðmæti. Tilgangurinn með því að ráðast í Búrfellsvirkjun var sá, að hún yrði lyftistöng fyrir almenna iðnþróun á Íslandi, að stofnuð yrðu jafnhliða fyrirtæki, sem breyttu orkunni í verðmæti. Þetta var öllum ljóst, ágreiningurinn var ekki um þetta. Hann var um hitt, hvernig ætti að fara að því að breyta orkunni í verðmæti. Hvort það ætti að vera verkefni Íslendinga eða hvort við ættum að gefast upp við þetta verkefni og eftirláta útlendingum það. Till. okkar Alþb.-manna um almenna iðnþróun á Íslandi, fyrst og fremst í sambandi við fiskiðnað, fundu engan hljómgrunn hjá stjórnarvöldum. Viðreisnarstjórnin var sannfærð um það, að Íslendingum væri um megn að nýta orku sína sjálfir. Engar áætlanir fengust gerðar um íslenzka iðnvæðingu, ekkert fjármagn fékkst til rannsókna á því sviði, heldur var lagt einhliða kapp á að eftirláta útlendingum orkuna. Minnimáttarkenndin var svo alger, að ekki var einu sinni athugað, hvort við gætum orðið aðilar að álbræðslunni og eignazt hana smátt og smátt á tilteknu árabili. Svissneski álhringurinn, sem við höfum samið við, er aðili að fyrirtækjum víða um lönd. En hann setur engan veginn þau skilyrði, að hann sé einn eigandi að slíkum fyrirtækjum. Síðustu árin hefur þessi hringur gerzt aðili að verksmiðjum, þar sem hann hefur átt minni hl. hlutafjárins, og nú nýlega tók hann að sér að endurreisa mikla álbræðslu í Austurríki, en hún er raunar þjóðnýtt og álhringurinn er enginn aðili að rekstri hennar. Við Íslendingar höfum vafalaust átt þess kost að verða aðilar að álbræðslunni og stefna að því að eignast hana smátt og smátt á tilteknu árabili. En ekki er vitað, að íslenzk stjórnarvöld hafi neitt athugað þá hlið málsins, a.m.k. voru þeir kostir aldrei lagðir fyrir Alþ. Íslendinga. Afstaða stjórnarvaldanna var sú ein, að Íslendingar væru ekki menn til að nýta orku sína, það verkefni yrði að eftirláta útlendingum. Ágóði álbræðslunnar af hinni ódýru raforku hér á landi, ódýrustu raforku, sem hringurinn hefur komizt yfir um langt skeið, nemur vafalaust hundruðum millj. kr. á ári, og sá ágóðahlutur er fyrst og fremst fluttur úr landi. Við hreppum aðeins mola af nægtaborðinu. Á þessu sviði er stefna okkar býsna frábrugðin því, sem tíðkast í ýmsum nágrannalöndum okkar. T.d. hafa Svíar lagt á það mikið kapp að fá til samvinnu við sig erlent fjármagn, en það er almenn regla hjá þeim, að þar skuli vera um að ræða blönduð fyrirtæki, þar sem Svíar eigi sjálfir 51% í slíkum fyrirtækjum a.m.k. Ég held, að það hefði verið ákaflega nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að setja einhverjar hliðstæðar reglur um samstarf okkar við erlenda aðila. En það er á þessu sviði einmitt, sem andstæðurnar milli stjórnarflokkanna og Alþb. mætast. Eigum við að kappkosta að nýta auðlindir okkar sjálfir, eða eigum við að eftirláta útlendingum það verkefni? Hitt eru upplognar gerviandstæður, að um það tvennt hafi verið að velja, að framleiða raforku handa erlendu auðfélagi eða framleiða raforku án þess að koma henni í verð. Og útreikningar á þessum andstæðum eru algerlega út í hött og afar gagnsæjar blekkingar.

Sama máli gegnir um aðra röksemd. Í skýrslu ráðamanna Landsvirkjunar er talað um, að 3000 mannár hafi verið unnin í þágu álbræðslunnar, og raforkumrh. lagði áherzlu á hliðstæð atriði í ræðu sinni s.l. föstudag. Þarna er reynt að koma inn hjá fólki þeim samanburði, að um það tvennt hafi verið að ræða, að eftirláta útlendingum þetta vinnuafl eða Íslendingar gengju atvinnulausir þúsundum saman. Í þessu viðhorfi birtist sama uppgjöfin og sama trúleysið og ég var að fjalla um áðan: Sú fráleita afstaða, að við Íslendingar séum þess ekki megnugir að hagnýta vinnuafl okkar sjálfir til þjóðnýtra framkvæmda; ef menn eigi að fá vinnu, verði að kalla erlend fyrirtæki til. Einmitt í þessu er fólgin aðalmeinsemdin í stefnu núverandi ríkisstj. Trúleysið á getu Íslendinga til þess að efla atvinnuvegi sína og halda til jafns við aðra. Það er enginn happafengur að selja útlendingum vinnuafl, heldur hið gagnstæða. Þegar við Íslendingar framleiðum vörur og seljum þær til útlanda, fáum við ekki aðeins greiðslu fyrir hráefni, orku og vinnuafl, heldur einnig verðmætisauka, ágóða, sem flyzt inn í landið og verður þjóðfélagi okkar lyftistöng, þegar til lengdar lætur. En þegar menn vinna hjá erlendum atvinnurekanda, fáum við aðeins greiðslu fyrir vinnuaflið sem hráorku, en verðmætisaukinn lendir hjá hinum erlenda atvinnurekanda og flyzt úr landi. Það væri vissulega fróðlegt rannsóknarefni að kanna, hver þjóðhagslegur munur er á því, að verkamaður vinni að íslenzkri framleiðslu í fyrirtæki, sem er í eigu Íslendinga, eða framleiðslu í þágu erlends atvinnurekanda, sem hefur aðsetur hér á landi.

Hæstv. raforkumrh. tíundaði nákvæmlega, hverjar gjaldeyristekjur við höfum haft af því að byggja álbræðsluna í Straumi, og hverjar gjaldeyristekjur fengjust fyrir vinnuafl þeirra manna, sem starfa að framleiðslunni. Fróðlegt væri, ef hæstv. ráðh. vildi láta okkur í té aðrar tölur. Hvað hagnaðist álbræðslan mikið á þeim tveimur gengislækkunum, sem framkvæmdar voru, eftir að samningurinn var gerður við svissneska álhringinn? Þegar samningurinn var gerður, fékk hinn erlendi auðhringur aðeins 43 ísl. kr. fyrir hvern dollara til þess að greiða íslenzkt vinnuafl. Eftir gengislækkanirnar gat hann keypt vinnu tveggja manna fyrir sama dollaraverðmæti og vinnu eins manns áður. Hvað var byggingarkostnaður álbræðslunnar miklu lægri en áætlað var vegna þessara gengislækkana? Og sama máli gegnir um reksturinn. Áætlanir um reksturinn voru að sjálfsögðu miðaðar við gengið 43 kr. fyrir 1 dollara. Nú fæst tvöfalt meira fyrir dollarann og að sama skapi lægri gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Hversu mikið hefur hinn árlegi rekstrarkostnaður álbræðslunnar lækkað af völdum þessara tveggja gengislækkana? Svissneski auðhringurinn nýtur þess nú ekki aðeins að fá hér ódýrari raforku en hann á kost á í nokkru öðru landi, heldur eru kaupgreiðslur í álbræðslunni taldar vera um 40% lægri en hliðstæðar greiðslur í grannlöndum okkar í Vestur-Evrópu. Menn geta miklazt af gjaldeyristekjunum fyrir þessa vinnu. En þær eru raunar við það miðaðaðar, að við séum á láglaunasvæði og að þróun þjóðfélags okkar verði í samræmi við það.

Hæstv. raforkumrh. taldi það miklu máli skipta, að samið hefði verið um raforkuverðið í erlendum gjaldeyri og í því væri fólgin verðmætistrygging, og vissulega er það skiljanleg öryggisráðstöfun í gengislækkanaþjóðfélagi eins og okkar. En hvar var verðmætistryggingin í sambandi við byggingu álbræðslunnar? Og hvar er verðmætistryggingin í sambandi við rekstur hennar? Ætli bygging álbræðslunnar muni ekki einmitt stuðla enn frekar að sjálfvirku gengislækkanakerfi á Íslandi? Ef verkamenn í álbræðslunni koma vinnuafli sínu upp í hliðstætt verð og tíðkast nú í Vestur-Evrópu, er hætt við, að hinn erlendi auðhringur krefjist þess, að metin verði jöfnuð með nýrri gengislækkun á svipuðum forsendum og raktar voru í skýrslu þeirri frá Guðmundi Magnússyni prófessor, sem hér lá fyrir þingi í sambandi við EFTA-málið, að hægt væri að beita genginu til þess að jafna metin að því er kaupgjald snerti.

Till. okkar hv. þm. Þórarins Þórarinssonar um rannsóknarnefnd var bundin við raforkusöluna eina. En fyrst stjórnarvöldin hafa tekið upp almennar, þjóðhagslegar röksemdir, væri vissulega ástæða til að hafa þessa rannsókn víðtækari, og sízt mundi ég hafa á móti því. Ærin ástæða væri til að kanna, hver áhrif það hefur á þjóðfélagið allt, að atvinnureksturinn færist í vaxandi mæli í hendur útlendinga, eins og nú er stefnt að. Við höfum að vísu reynslu af því sjálfir, Íslendingar, hvað það er að búa í þjóðfélagi, sem lýtur efnahagslegri yfirstjórn útlendinga. En sjálfsagt er að kanna það mál að nýju miðað við breyttar aðstæður. þá væri einnig ærin ástæða til þess að kanna, hvernig háttað hefur verið hliðstæðum samningum í grannlöndum okkar. Hæstv. raforkumrh. hefur flutt á þingi ýmsar staðhæfingar um samninga álhringsins við Norðmenn, og hafa allar þær frásagnir verið afar einhliða, röksemdir valdar úr eins og hæstv. ráðh. hentaði. Ég mundi fagna því mjög að láta rannsóknina einnig ná til þessa atriðis, og þá jafnframt til samninga, sem gerðir hafa verið í öðrum löndum VesturEvrópu. Mér þótti það til að mynda afar fróðlegt að sjá það í EFTA-skýrslunni, að málmiðjufyrirtæki í Vestur-Þýzkalandi og víðar í Vestur-Evrópu yrðu nú að greiða 80–90 aura fyrir kwst. af raforku, u.þ.b. ferfalt hærra en greitt er hér á Íslandi. Í Bretlandi er heildsöluverð á raforku yfir 1 kr. á kwst., og þar hafa verið settar sérstakar reglur um það, að raforkusölu til stóriðjuframkvæmda megi ekki blanda saman við aðra almenna raforkusölu, heldur verði viðskiptin við stóriðjuna að standa undir sér sjálf. Okkur alþm. verða að vera tiltækar óyggjandi staðreyndir um þessi atriði öll, og ég mundi vissulega fagna því, ef till. okkar yrði breytt á þann veg. En til þess er trúlega lítil von, fyrst valdamenn þora ekki að láta rannsaka þau atriði, sem næst okkur eru.

Má ég enn minna á það að lokum, hversu fáránlegar eru röksemdir ráðamanna gegn þessari rannsóknartillögu. Í framsöguræðu sinni s.l. föstudag sagði frsm. meiri hl. fjhn., hv. þm. Matthías Mathiesen, að í ræðu minni við 1. umr. fjárlaga hefðu komið fram fullyrðingar, sem, ef sannar væru, gæfu tilefni til slíkrar athugunar. Hvers vegna aðeins, ef sannar væru? Hvers vegna mátti ekki sýna fram á það með hlutlausri rannsókn, að ég hefði farið með ósannar staðhæfingar? Hefði það ekki einmitt átt að vera sérstakt keppikefli að láta sanna það á óvefengjanlegan hátt, að ráðh. og sérfræðingar þeirra færu með rétt mál, en ég hefði gert mig sekan um misskilning eða eitthvað þaðan af verra?

Af hverju stafar þessi umhyggja fyrir mér? Hvers vegna mátti ekki rannsaka málið, án þess að ganga fyrst úr skugga um það, hvort ég færi með rétt mál? Ég biðst algerlega undan þessari umhyggju. Ég er reiðubúinn til að leggja málflutning minn undir dóm rannsóknarnefndar og taka ábyrgðinni af ummælum mínum. En rannsóknin verður þá að vera fólgin í öðru og meira en því, að sakborningarnir séu látnir sýkna sjálfa sig.