23.03.1970
Neðri deild: 65. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í D-deild Alþingistíðinda. (3187)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Þórarinn Þórarinson:

Herra forseti. Þetta mál er orðið svo mikið rætt í d., bæði við 1. umr. og þessa framhaldsumr. málsins, að ég mun ekki lengja þessar umr. mikið, úr því sem komið er. Mér finnst, að í mörgu af því, sem hæstv. ráðh. hefur sagt, kenni misskilnings á efni till. Efni till. fjallar aðeins um einn þátt hins svokallaða álmáls, þ.e. hvort það verð, sem fáist fyrir orkusöluna til álbræðslunnar, nægi til þess að standa undir rekstrarkostnaði Búrfellsvirkjunar, eins og nú er komið. Þetta er meginefni till. Hæstv. ráðh. talar hins vegar mikið um það, að ef litið er á álmálið í heild og allan þann hagnað, sem af því geti hlotizt, og þá sérstaklega framleiðslugjöldin ásamt með aukinni atvinnu og gjaldeyrisöflun, þá kunni að verða hagnaður af þessu fyrir landið í heild. Ég skal ekkert fara út í þá sálma að ræða um það hér, því að það atriði málsins er alls ekki til umr. Það, sem er til umr., er að fá fullkomlega upplýst, hver sé raunverulegur byggingarkostnaður og rekstrarkostnaður Búrfellsvirkjunar og hvort það verð, sem samið er um, nægi til þess að standa undir rekstrarkostnaðinum eins og nú er komið. Þetta er allt annað atriði en það, hvort það sé þjóðhagslegur hagnaður í heild af byggingu álbræðslunnar, en eins og hæstv. ráðh. hefur réttilega bent á, þá koma þar inn í mörg atriði önnur en orkusalan. En það, sem skiptir meginmáli fyrir Búrfellsvirkjun, er það, hvort verðið, sem hún fær, er nægilega hátt til þess að rísa undir rekstrarkostnaði verksmiðjunnar á komandi árum.

Það liggur alveg ljóst fyrir, hvað rafmagnsverðið snertir, að samið hefur verið um mun lægra verð hér en í Noregi á sama tíma. Eins má vel vera, um það skal ég ekki dæma að þessu sinni, að það fáist tiltölulega meira fyrir framleiðslugjaldið hér en Norðmenn fá fyrir skattana af slíkum fyrirtækjum, um það skal ég ekki dæma að þessu sinni, vegna þess að þær upplýsingar eru ekki fullnægjandi enn þá. En þær varða ekki það atriði, sem hér er verið að tala um, hvort raforkuverðið sé nægilega hátt, því að sá ágóði, sem kemur inn fyrir framleiðslugjaldið, rennur ekki til Landsvirkjunar, heldur fer hann í ríkissjóð, og það getur verið halli á Landsvirkjun eftir sem áður, þrátt fyrir þetta framleiðslugjald. En ef við lítum til þess, — og ég veit, að hæstv. ráðh. hefur mikinn skilning á því, — þá skiptir það ákaflega miklu máli, að það fáist nægilega hátt verð fyrir rafmagnið til þess ekki aðeins að Landsvirkjun geti staðið undir sér, heldur skilað nokkrum arði, því að á því veltur m.a., hve hratt við getum unnið að því að byggja upp orkukerfið í landinu. Og þess vegna var í öllum hinum upphaflegu áætlunum um virkjunina stefnt að því, að hún gerði meira en standa undir sér. Miðað var við það, að Landsvirkjun í heild gæti skilað verulegum arði, og þann arð mætti svo nota til þess að hraða uppbyggingu orkukerfisins í landinu. Ef niðurstaðan verður hins vegar sú, að það verður tap af þessum rekstri í staðinn fyrir þann gróða, sem reiknað var með, þá verður þetta til þess að draga mjög úr hraða þeirrar uppbyggingar, sem við höfum stefnt að í þessum efnum. Það, sem m.a. að mínum dómi kæmi til athugunar, ef það reyndist rétt við þessa athugun, að raforkuverðið væri ekki nægilega hátt, sem Landsvirkjun fær frá álbræðslunni, væri að bæta henni það upp með því að fá verulegan hluta af framleiðslugjaldinu, eins og reyndar er gert fyrstu árin. En spurningin er þá, hvort sú skipan ætti ekki að halda lengur áfram ef svo horfði, að menn byggjust við öðru hverju, að rekstrarhalli yrði hjá Landsvirkjun, ellegar þá að hækka þyrfti raforkuverrið til almennings, hvort þá væri ekki hyggilegra að taka einhvern verulegan hluta af framleiðslugjaldinu og láta það renna til orkukerfisins í staðinn fyrir, að það fer beina leið til ríkissjóðs. En það, sem mér finnst vera kjarni málsins í þessu sambandi, er, hvort raforkuverðið er nægilega hátt til þess að standa undir rekstri Landsvirkjunar. Hitt er allt annað mál og snertir það ekki, hvort hagnaður kunni að vera af álbræðslunni í heild með því að taka inn í dæmið framleiðslugjaldið, atvinnu, sem tengd er við virkjunina, gjaldeyristekjur o.s.frv. Það er allt annar handleggur. Það, sem máli skiptir í þessu sambandi, er, hvort orkuverðið, verðið fyrir orkuna, er nægilega hátt til þess að Landsvirkjun geti staðið undir sér og helzt skilað nokkrum arði til uppbyggingar á orkukerfinu í framtíðinni. Og ég vænti þess, að þegar hæstv. ráðh. gerir sér grein fyrir því, að málið liggur fyrst og fremst þannig fyrir, þá fáist hann til þess að vera með þessari till., því að ég heyri það álit, að hæstv. ráðh. hafi áhuga á því, að Landsvirkjun hafi sæmilega afkomu og helzt það góða, að hún verði þess megnug að safna nokkrum arði, sem nota mætti til þess að hraða uppbyggingu orkukerfisins í landinu.

Ráðh. hélt því fram, að þetta mál hefði fengið nægilega athugun í fjhn. Það er mesti misskilningur, og það geta allir gert sér ljóst, að jafnstórt mál og þetta verður ekki rannsakað á tveimur eða þremur fundum í einni þn. Hitt skal ég viðurkenna, að þær upplýsingar, sem þar koma fram og voru okkur fúslega veittar af þeim forsvarsmönnum Landsvirkjunar, sem mættu á nefndarfundunum, þær upplýsingar urðu til þess að glöggva málið verulega, frá því sem áður var. Mér virtist það t.d. koma fram eða liggja greinilega fyrir eftir þessar upplýsingar, að engin þeirra þriggja megináætlana, sem höfðu upphaflega verið gerðar í sambandi við Búrfellsvirkjun, hefði staðizt. Þessar þrjár megináætlanir voru í fyrsta lagi áætlun um stofnkostnað, í öðru lagi áætlun um fjármögnun og í þriðja lagi áætlun um lánskjör. Það liggur alveg ómótmælanlega fyrir varðandi stofnkostnaðinn, að ef ekki hefðu t.d. orðið mjög verulegar breytingar á gengi á þessum tíma, þá hefði stofnkostnaðurinn farið fram úr áætlun, svo að mörgum hundruðum millj. kr. skipti. Þetta held ég; að sé ekki neitt deilumál, þó að gengisfellingarnar hafi hins vegar gert það að verkum, að þessi halli verður miklu minni í dollurum en ella hefði orðið, ef gengisbreytingarnar hefðu ekki komið til sögunnar. Það liggur jafnljóst fyrir, að sú áætlun, sem gerð var um fjármögnun verksmiðjunnar eða Búrfellsvirkjunar, hefur farið algerlega út um þúfur. Menn þurfa ekki annað en fletta upp á bls. 5 og 6 í nál. meiri hl. til að gera sér grein fyrir þessu. Þar kemur fram, að gert var ráð fyrir að afla fjármagns til Búrfellsvirkjunar m.a. á þann þátt, að gróði yrði á rekstri Landsvirkjunar á árunum 1966–1975. Það kemur greinilega fram í þessari upphaflegu áætlun um fjármögnunina, að gert var ráð fyrir því, að hægt væri að fá fé úr rekstri Landsvirkjunar á árunum 1966–1975, sem næmi 7 millj. dollara. Það verður sennilega ekki neitt úr því, að þetta fé fáist. Það var líka gert ráð fyrir því, að eigendur Landsvirkjunar mundu leggja fram upphæð, sem næmi rúmlega 3 millj. dollara, en þetta framlag verður a.m.k. helmingi meira. Þá er reiknað með talsvert hærra láni frá ríkissjóði en raun verður á. Þetta hefur þær afleiðingar, að í staðinn fyrir að hafa gert ráð fyrir, að ekki þyrfti að afla erlends lánsfjár nema sem næmi 30 millj. dollara, þá verður að taka erlend lán, sem nema 40 millj. dollara. Hér munar 10 millj. dollara, og sá munur er gífurlega mikill, vegna þess að ætlazt var til, að þessar 10 millj. dollara, væru eigið fé Landsvirkjunar sjálfrar, sem hún gæti reiknað vexti af eins og henni þóknaðist, en í staðinn verður hún að taka þetta fé að láni og með miklu hærri vöxtum en gert var ráð fyrir, að yrðu af lánum til virkjunarinnar. Þetta, sem ég hef rakið, sýnir ljóslega, að áætlunin, sem hafði verið gerð um fjármögnun Búrfellsvirkjunar, hefur farið gersamlega út um þúfur. Og sama er að segja um þá áætlun, sem gerð var um lánskjör í sambandi við virkjunina, að hún hefur einnig gersamlega farið út um þúfur. Það hefur verið gert ráð fyrir því, að lánskjörin yrðu þau, að vextir yrðu 6% og afborganatíminn 25 ár, en af þeim lánum, sem þegar er búið að taka, er það ekki nema eitt lánið, að vísu stærsta lánið, sem fullnægir þessum skilmálum, en öll hin eru bæði með hærri vöxtum og miklu skemmri endurgreiðslutíma. Allt þetta — hvernig áætlunarfjármögnun og áætlunarlánskjör fara út um þúfur, — veldur því, að rekstrarafkoma Landsvirkjunar verður miklu örðugri næstu árin en búizt hafði verið við. Og það er sérstök ástæða til þess, að gerð sé athugun á því, hvort orkuverðið nægi til þess að standa undir hallalausum rekstri Landsvirkjunar. Mér virðist, að eins og dæmin standa í dag, hljóti til annars tveggja að koma næstu árin og hefði áreiðanlega komið, ef nýi álsamningurinn hefði ekki verið gerður, að orðið hefði mjög verulegur halli á Landsvirkjun, ellegar það þyrfti einu sinni enn að hækka verulega orkuverðið til landsmanna. Það bætist svo við, að ekki safnast neinn hagnaður til þess að halda áfram uppbyggingu á orkukerfinu, eins og reiknað hafði verið með. Það er af þessum ástæðum, sem ég tel mikilsvert að fá fram rannsókn á því, raunhæfa rannsókn á því, hvort núverandi orkuverð nægi til þess að tryggja hallalausan rekstur virkjunarinnar og í framhaldi af því, ef nauðsynlegt verður, að gera ráðstafanir til að styrkja aðstöðu Landsvirkjunar frá því sem nú er. Hér er um svo stóran og mikilsverðan rekstur fyrir landsmenn að ræða, bæði nú og í framtíðinni, að ég held, að þm. hljóti að hafa áhuga fyrir því að fá þetta mál upplýst til fulls og fá þá jafnframt grundvöll til að standa á varðandi það, hvort frekari eða nýjar ráðstafanir verði að gera til þess að tryggja afkomu Landsvirkjunar. Eins og nú er, þá svífur þetta mjög í lausu lofti. Það liggja að vísu fyrir rekstraráætlanir, sem sýna sæmilega afkomu, en þá er reiknað með því, að afborgunartíminn sé 40 ár, svo að eina raunhæfa áætlunin, sem mér virðist liggja fyrir, er sú, sem snertir fyrirsjáanlegar greiðslur Landsvirkjunar næstu árin, næstu 4 árin, en hana er að finna á bls. 21 í nál. meiri hl., og þar kemur ljóslega fram, að á næstu árum — þegar undan er skilið aðeins árið í ár, — þá verða afborganirnar, sem virkjunin þarf að greiða, miklu meiri en þær afskriftir, sem menn reikna með á rekstraráætluninni. Það munar svo miklu á þessu, að á árinu 1972 verða afskriftir eða afborganir 69.8 millj. kr. meiri en afskriftir eru reiknaðar á rekstraráætluninni. Þetta er sama upphæð og árið 1974, og árið 1975 er reiknað með því, að afborganir umfram afskriftir verði 106 millj. kr. Og mér skilst, að þessi mismunur muni enn þá hækka á árinu 1975, vegna þess að þá bætast við afborganir af nýjum lánum. En það var við þessa áætlun, sem við verðum fyrst og fremst að miða, og hún sýnir, að þrátt fyrir nýja álsamninginn má engu muna, að það verði ekki greiðsluhalli á Landsvirkjun á þessu tímabili. Frá mínu sjónarmiði gerir þetta nauðsynlegt, að Alþ. afli sér upplýsinga um það til fullnustu, hvernig raunverulegri rekstrarafkomu Landsvirkjunar og Búrfellsvirkjunar verði háttað á næstu árum og geri fullnægjandi ráðstafanir, ef þurfa þykir, til þess að tryggja sæmilega afkomu þessara fyrirtækja. Það verður að vísu ekki gert úr því sem komið er með því að knýja fram hækkun hjá álbræðslunni, en það gæti fullkomlega komið til athugunar í þessu sambandi finnst mér, að Landsvirkjun, til að tryggja sína afkomu, fái tiltölulega meiri hluta af framleiðslugjaldinu en hún fær nú og yfir lengra tímabil en gert er ráð fyrir. Ég vil treysta því, að þegar hæstv. ráðh. athugar þetta mál frá þessu sjónarmiði, þá fallist hann á þessa rannsókn.

Ég vil taka það fram, að stuðningur minn við þessa till. felur ekki í sér neina aðdróttun um það, að eitthvað óheiðarlegt hafi átt sér stað hjá Landsvirkjun, og þeir gallar, sem hafa orðið á áætluninni, kunni ekki að stafa af skiljanlegum ástæðum, þó að bersýnilegt sé, að þær hafa verið byggðar á allt of mikilli bjartsýni. Ég vil ekki fullyrða um neitt slíkt fyrr en þetta kemur endanlega í ljós við nánari athugun. Og frá sjónarmiði forustumanna Landsvirkjunar, ef ég væri í þeirra sporum, þá mundi ég beinlínis óska eftir slíkri rannsókn sem þessari til þess að kveða niður, að það sé nokkuð óeðlilegt, sem þar eigi sér stað.

Ég vil minna á það í þessu sambandi, að þegar fram kom ákæra á hendur mér og fleiri utanríkismálanefndarmönnum, þá bar ég fram till. um það í d., að skipuð yrði nefnd hliðstæð þessari til þess að fá það upplýst, hvort nokkurt brot hefði átt sér stað. Á sama hátt finnst mér, að forustumenn Landsvirkjunar ættu beinlínis að vera þakklátir fyrir, að fá með ítarlegri athugun það rétta upplýst í þessum efnum, svo framarlega sem þeir telja, að þeir hafi algerlega hreint mél í pokahorninu. Og ég minni á það í þessu sambandi, að þegar annað mál var rætt hér, álsamningurinn, þá bauðst hæstv. raforkumrh, til þess að láta fara fram mjög nána athugun á því, hvort ekki væri réttur samanburður á reikningum hans um það, hvað fengist fyrir framleiðslugjaldið hér og fyrir þá skatta, sem álbræðslan borgaði í Noregi. En það væri hægt að sameina þá athugun þeirri rannsókn, sem hér er rætt um. Og það ætti að vera hæstv. ráðh. aukin hvatning til þess að fallast á þessa till.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, vegna þess að þetta mál er orðið svo fullrætt í sambandi við tölur og þess háttar, að lítið annað er hægt að ræða en endurtaka það, sem áður hefur verið sagt. Ég vil þó aðeins endurtaka það, að ég held, að ef hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmenn telja, að allt sé í lagi hjá forustumönnum Landsvirkjunar, þá ættu þeir að styrkja málstað þeirra með því að samþykkja þessa till. og sýna í verki, að þeir óttast ekki, að neitt komi fram, sem þyrfti að fela.