23.03.1970
Neðri deild: 65. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í D-deild Alþingistíðinda. (3191)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það er aðallega vegna þeirrar yfirlýsingar, sem hæstv. viðskmrh. gaf áðan, sem ég hef kvatt mér hljóðs aftur. Þó að það mál, sem hann ræddi um, snerti að vísu ekki það efni, sem hér er til umr., finnst mér ástæða til þess að víkja nokkrum orðum að ræðu hans, vegna þess að hann vék þar nokkuð sérstaklega að Framsfl.

Ég verð að segja, að ræða hæstv. ráðh. kom mér mjög á óvart, og ég held, að það megi fullyrða, að slík ræða mundi hvergi hafa verið haldin á þingi nema hér. Ég held, að það sé viðtekin venja í öllum þingræðislöndum, að þegar ráðh. hefur lagt fram stjfrv. og það er fellt, segi viðkomandi ráðh. af sér. Ég held, að það sé hvergi hægt að finna dæmi um annað en þetta. En hæstv. ráðh. kom hér upp og gaf alveg gagnstæða yfirlýsingu. Á þessu þingi lagði hann fram stjfrv. í eigin nafni, sem hann lagði mikla áherzlu á, að næði fram að ganga. Nú hefur það verið fellt í Ed. og það af hans meðráðherra og flokksbróður í ríkisstj. Samt kemur ráðh. upp og segir: Þetta breytir ekki neinu um mína afstöðu, ég sit áfram í ríkisstj., eins og ekkert hafi í skorizt. Ég fullyrði, að enginn ráðh. hér eða í neinu öðru þingræðislandi láti slík ummæli sér um munn fara. Hvaða ráðh. sem er, sem þing hefði fellt stjfrv. fyrir, sem hann hefði lagt fram, hefði sagt af sér, þegar slíkur atburður hefði gerzt. Þetta sýnir, að hæstv. viðskmrh. er á margan hátt óvenjulegur maður og áreiðanlega gæti atburður eins og þessi ekki gerzt nema þar sem eru óvanalegir menn og óvenjuleg ríkisstj.

Ég verð að segja, að þessi yfirlýsing hæstv. viðskmrh. vakti jafnframt undrun mína af þeirri ástæðu, að hann virtist líka tala af hálfu Sjálfstfl. Það er kunnugt mál, að Sjálfstfl. hefur lengi lagt megináherzlu á að fá breytingu á verðlagslögum í þá átt, sem verðgæzlufrv. gekk, og talið þetta eitt af sínum höfuðmálum. Nú gerist það hins vegar, að einn af ráðh. samstarfsflokksins á sinn þátt í því, að þetta frv. er fellt, og það virðist ekki hafa minnstu áhrif á afstöðu Sjálfstfl. Hann situr jafnglaður áfram í stjórn með þessum ráðh., sem hefur fellt eitt af hans mestu áhugamálum og lætur eins og ekkert hafi í skorizt. Þetta mundi líka hvergi hafa getað gerzt nema á Íslandi. Þetta stafar af því, að núv. hæstv. ríkisstj. er ólík öllum öðrum ríkisstj., sem til þekkist í lýðræðislöndum. Slíkar stjórnir hafa yfirleitt stefnu og fylgja henni fram og standa með henni eða falla. Núv. ríkisstj. hefur enga þá stefnu, sem hún stendur eða fellur með. Henni er eiginlega nákvæmlega sama, hvernig hlutirnir veltast, hvað gerist, bara ef hún fær að hanga. Þetta mál er meiri staðfesting á því en nokkuð annað, sem áður hefur gerzt á þingi. Við höfum stefnulausa stjórn, sem er nákvæmlega sama um, hvað gerist og hvort hún kemur málum sínum fram eða ekki, aðeins ef hún fær að hanga. Þetta hefur verið betur staðfest með afgreiðslu verðgæzlufrv. í Ed. en nokkru öðru, og þjóðin ætti þess vegna að vita gert um það eftir en áður, hvers konar ríkisstj. hún hefur.

Hæstv. viðskmrh. sagði um afstöðu Framsfl., að stjórn hans hefði treyst á það, að hann mundi koma henni til hjálpar í þessum málum, þegar annar stjórnarflokkurinn væri klofinn. (Gripið fram í. Ég vil aðeins segja hæstv. ráðh., að þetta hlýtur að vera ástæða, sem er fundin upp eftir á. Ef ríkisstj. hefði ætlað sér í alvöru að kynna sér afstöðu Framsfl. til þessa máls, hefði hún að sjálfsögðu átt í upphafi, áður en hún lagði málið fyrir þingið, að leita eftir, hver hans afstaða var til þess og haga sér í samræmi við það. Framsfl. hafði engar þær yfirlýsingar gefið, sem ríkisstj. gat tekið þannig, að hann eða einhverjir einstakir þm. hans mundu fylgja málum hennar fram. Það er að vísu rétt, að ég og aðrir hv. þm. úr Framsfl. báru fram fsp. um það á síðasta ári, hvað liði þessu frv., en í því var ekki fólginn minnsti stuðningur við málið í því formi, sem það kæmi fram í, og engin afstaða var til þess tekin, aðeins spurt, hvað þessu máli liði.

Hið sama gildir um fulltrúa flokksins í þeirri nefnd, sem undirbjó þetta mál. Hann tók aldrei neina endanlega afstöðu til þess og var því óbundinn í afstöðu sinni til þess. Satt að segja held ég, að það sé alveg einstakt og hafi hvergi annars staðar gerzt, að stjórn leggi fram stjfrv. í trausti þess, að andstæðingarnir komi og hlaupi til að samþykkja það. Hitt er það, að ef um einhver slík vafamál getur verið að ræða, þá er sú aðferð höfð, að slík mál eru t.d. lögð fram í þd. og þar kannað, hvort stuðningur fæst við flutning málsins. Þetta gerðist ekki nú. Og ég held, að þetta hafi eingöngu stafað af því, að stjórnin hafi nú í upphafi treyst á það, að hún hefði stuðning sinna eigin manna við málið, og þess vegna hafi hún lagt það fram. Ég held líka, að það sé viðtekin regla, að það sé ekkert frv. lagt fram sem stjfrv., nema áður sé búið að tryggja a.m.k. stuðning sjálfrar ríkisstj. við það. Það er algjört einsdæmi.

Ástæðurnar til þess, að Framsfl. greiddi atkv. á móti þessu frv. tel ég ástæðulaust að rekja hér, vegna þess að það hefur verið gert af talsmanni flokksins í Ed. og kemur fram í nál., sem fulltrúar flokksins í viðkomandi n. hafa lagt þar fram, og ég vísa til þess um það, sem afstöðu Framsfl. varðar til endanlegrar afgreiðslu málsins.

En fyrst hafnar eru umr. um þetta mál af hæstv. viðskmrh., finnst mér ástæða til þess að spyrja hann um það, hvað taki við, þegar búið er að fella þetta frv. Hver verður framkvæmdin í verðgæzlumálunum í áframhaldi af þessu? Sannleikurinn er sá, að til þess að koma á þeirri framkvæmd í verðgæzlumálum, sem fólst í umræddu frv., þarf enga lagabreytingu. Hæstv. viðskmrh. hefur það sjálfur á valdi sínu samkv. gildandi lögum að framkvæma þá stefnu, sem í verðgæzlufrv. fólst. Núverandi verðlagsnefnd er þannig upp byggð, að oddamaður hennar er ráðuneytisstjórinn í viðskmrn., og það er vitað mál, að hann telur sér skylt að gera ekki annað og fara ekki eftir öðru en þeim fyrirmælum, sem hann fær frá hæstv. viðskmrh. Þess vegna þurfti hæstv. viðskmrh. raunverulega ekkert á þessu nýja frv. að halda, vegna þess að hann hefur strax í dag samkv. gildandi lögum fullt vald til þess að framkvæma verðgæzlumálin samkv. því, sem frv. gerir ráð fyrir.

Og nú vil ég spyrja hæstv. viðskmrh.: Ætti hann ekki að nota þetta vald sitt til að framkvæma þá stefnu, sem er mörkuð í þessu frv. og hann sjálfur virðist vera fylgjandi? Þetta góða mál, sem hann var að tala um, eða a.m.k., að dregið sé úr mestu vanköntunum á framkvæmd þessara mála, eins og hún er í dag og allir viðurkenna og er m.a. viðurkennt í séráliti fulltrúa verkalýðssamtakanna, sem áttu sæti í þeirri nefnd, sem undirbjó verðgæzlufrv., það, sem sérstaklega hefur verið gengið eftir af hálfu þeirra, sem við verðlagshöftin verða að búa, er það, að framkvæmd verði ákvæði 3. gr. verðlagslaga, að verðlagsákvæðin skuli miðuð við þörf þeirra fyrirtækja, er hafa vel skipulagðan og hagkvæman rekstur. Það hefur orðið misbrestur á því, að þessari stefnu eða þessum fyrirmælum hafi verið fylgt. Nú spyr ég hæstv. viðskmrh. að því, eftir að málið er komið í þetta horf, hvort hann muni nú ekki gera gangskör að því, að þessum reglum verði fylgt?

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti, en ég vildi, vegna þess að umr. hafa hafizt um þetta mál, óska eftir svörum frá hæstv. viðskmrh. um þessi atriði, og jafnframt vildi ég óska eftir svari frá hæstv. dómsmrh. um það, hvort hann sé alveg sammála og samþykkur þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. viðskmrh. gaf, að endalok verðgæzlufrv. breyti ekki neinu um samvinnu ríkisstj.