21.01.1970
Sameinað þing: 31. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í D-deild Alþingistíðinda. (3202)

89. mál, byggingarkostnaður íbúðarhúsnæðis

Flm. ( Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þessa þáltill. ásamt fjórum flokksmönnum mínum, þeim hv. 3. þm. Norðurl. e., Ingvari Gíslasyni, hv. 4. þm. Sunnl., Birni Fr. Björnssyni, hv. 3. þm. Vestf., Bjarna Guðbjörnssyni, og hv. 11. þm. Reykv., Einari Ágústssyni. Till. er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa sjö manna nefnd til þess að gera athugun á byggingarkostnaði íbúðarhúsnæðis í landinu og upplýsa, hvaða aðilar hafa náð beztum árangri hvað verð og gæði snertir. Nefndin leggi fram skýrslu um niðurstöður sínar á næsta þingi. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Þessi ályktun var borin fram á síðasta þingi, en það seint, að hún fékk þá ekki afgreiðslu. Þá fylgdi henni eftirfarandi grg.:

„Á því leikur enginn vafi, að hraðvaxandi byggingarkostnaður hefur átt drjúgan þátt í því, hvað dýrtíðin hefur aukizt hröðum skrefum á liðnum árum. Með það í huga er ekki seinna vænna að taka það til gaumgæfilegrar athugunar, á hvern hátt er hægt að hamla á móti þessum mikla byggingarkostnaði. Virðist einsýnt, að þeir, sem byggja ódýrast miðað við gæði, eigi að sitja fyrir lóðum og fjármagni, enda er það eina sýnilega leiðin til að lækka íbúðakostnaðinn.

Þegar Breiðholtsáætlunin var gerð á sínum tíma, var að því stefnt, að sagt var, að lækka byggingarkostnaðinn með fjöldaframleiðslu íbúðarhúsnæðis. Nú er það almenn skoðun, ekki sízt meðal iðnaðarmanna, að Breiðholtsbyggingarnar hafi orðið enn dýrari en íbúðir byggðar af einstaklingum á sama tíma, og þó séu þessar Breiðholtsíbúðir meira og minna gallaðar, að sagt er.

Það er enn fremur talið, að ýmis byggingarsamvinnufélög hafi byggt fullkomlega sambærilegar íbúðir við Breiðholtsbyggingarnar fyrir allt að 33% minna verð, t.d. byggingarsamvinnufélag vélstjóra, sem hóf byggingu 12 íbúða í sept. s.l. og Leirubakka 18 og 20, og eru þessar íbúðir nú fokheldar. Byggingarkostnaður þessara íbúða fokheldra, miðað við þriggja herbergja íbúðir, 80 fermetra, auk geymslu í kjallara, er um 256 þús. kr.

Þrátt fyrir skýr fyrirmæli í lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins um, að stofnunin eigi að vinna að umbótum í byggingarmálum og lækkun á byggingarkostnaði, þá hefur þessum málum ekki verið sinnt sem skyldi enn sem komið er.

Það ætti að vera öllum aðilum áhugamál, að það sé kannað, hvað sannast er í þessum málum, og að staðið sé að byggingu íbúðarhúsnæðis á þann hátt, að sem mest fáist fyrir það takmarkaða fé, sem þjóðin hefur efni á að setja í það á ári hverju.“

Síðan þessi grg. var samin, hefur ýmislegt rekið á fjörur flm., sem gefur til kynna, að byggingar framkvæmdanefndar í Breiðholti hafi verið með þeim hætti, að full ástæða sé til þess að kryfja þá framkvæmd til mergjar. Það virðist liggja nokkuð ljóst fyrir, að byggingarkostnaðurinn hafi orðið það mikill, að nýtt met hafi verið slegið, þó að gengið sé út frá því, að gæði og frágangur sé í meðallagi, sem hann er ekki, og vantar mikið á, að hægt sé með nokkrum rökum að telja, að svo sé. Séu þær tölur réttar, sem hér verða nefndar, ættu stjórnarvöld að láta staðar numið með þessa framkvæmd, en láta þá aðila, sem sannanlega byggja ódýrast, um að leysa þessi verkefni af hendi.

Eftir því sem næst verður komizt, er söluverð þessara sambygginga 50 millj. 774 þús. kr., þ.e. sex sambygginga, sem búið er að byggja, og er þá söluverð þeirra um 304 millj. 644 þús. kr. eða 3096 kr. rúmmetrinn, séu útreikningar fasteignanefndar Reykjavíkur lagðir til grundvallar. Einbýlishúsin voru 23. Söluverð þeirra mun hafa verið 32 millj. 216 þús. kr. eða um 3940 kr. rúmmetrinn. Byggingartíminn var að mestu leyti á árunum 1967–1968, en meðalbyggingarvísitala þessara ára var 2987 kr. rúmmetrinn. Söluverð einbýlishúsanna hefur því verið 953 kr. hærra á hvern rúmmetra en byggingarvísitalan var, en söluverð sambýlishúsanna 109 kr. hærra hver rúmmetri.

En hér er ekki öll sagan sögð. Byggingarkostnaður allra þessara bygginga í lok júnímánaðar s.l. var 396 millj. kr. og ekki talið víst, að allir reikningar tilheyrandi þessum byggingum væru þá fram komnir. Það eru því 59 millj. kr. umfram söluverð íbúðanna, sem eftir stendur. Frá þessari upphæð dregst undirbúningskostnaður við áframhaldandi byggingar á vegum framkvæmdanefndar og hluti af skipulagsvinnu, sem talinn er vera um 4 millj. kr. samtals, og vélar og tæki, sem nú eru til. Séu þessar tölur réttar, er ljóst, að byggingarkostnaður þessara íbúða hefur orðið miklu hærri en söluverð þeirra. Ekki er því hægt að gera sér vonir um, að þessi byggingarmáti komi til með að lækka byggingarkostnaðinn í landinu, eins og ætlazt var til í upphafi, heldur hið gagnstæða.

Enginn ætti að ganga þess dulinn, að ein höfuðástæðan fyrir verðbólguþróuninni á liðnum árum hefur verið hinn mikli byggingarkostnaður íbúðarhúsnæðis. Miðað við kaupmátt launa nú er engin leið að rísa undir húsnæðiskostnaðinum óbreyttum. Það hlýtur því að vera skylda Alþ. að taka öll þessi mál til endurskoðunar og leita eftir leiðum til að lækka byggingarkostnaðinn til muna. Slíkt fálm og lausatök, sem á þessum málum hafa verið að undanförnu, geta ekki gengið lengur.

Það eru fyrst og fremst þrjú atriði, sem ég vil athuga nánar í þessu sambandi, sem renna stoðum undir, að full þörf sé að rannsaka byggingarkostnaðinn í landinu. Í fyrsta lagi að bera saman byggingarkostnað hér og t.d. á Norðurlöndum. Í öðru lagi að bera saman byggingarkostnað og frágang á byggingum framkvæmdanefndar í Breiðholti og öðrum íbúðum í fjölbýlishúsum byggðum á sama tíma, og í þriðja lagi að leiða hugann að því, hvort fjölskyldur með meðaltekjur geti staðið undir þeim byggingarkostnaði, sem nú er í landinu, að óbreyttum lögum og verðlagi, t.d. í Breiðholtsbyggingunum.

Þá kem ég að fyrsta liðnum, um samanburð á byggingarkostnaði hér og á Norðurlöndum. Í skýrslu prófessors Guðmundar Magnússonar um iðnaðinn og EFTA segir á bls. 43 um þetta efni, með leyfi forseta:

„Ef litið er á töflu 51, sem sýnir hlutfall einstakra útgjalda neytenda og heildarneyzlu þeirra árin 1965 og 1966, kemur í ljós, að við verjum hlutfallslega um helmingi meiru til húsnæðis en hinar Norðurlandaþjóðirnar (að meðaltali). Hlýtur þetta að koma niður á öðrum hlutfallstölum töflunnar fyrir Ísland: við eyðum tiltölulega minnstu í drykkjarvörur, tóbak, skemmtanir og aðra þjónustu. Aðeins Danir verja minna í mat, aðeins Finnar eyða minna í varanlega búsmuni og aðeins útgjöld Norðmanna eru minni vegna samgangna, að hlutfallstölu til. Hins vegar eyða aðeins Norðmenn meiru í fatnað og einkamuni en við: Þessi útgjaldaliður virðist fara að nokkru eftir veðurfari — eða kannske réttara sagt veðurfarsbreytingum — landanna. Athyglisvert er, að í Finnlandi og á Íslandi, þar sem húsnæðisútgjöldin eru tiltölulega hæst, eru útgjöld vegna varanlegra búsmuna (þ.e. húsgagna og heimilisáhalda) tiltölulega lægst. Þetta gæti bent til þess, að byggingarkostnaður sé tiltölulega hár í þessum löndum, því að varla býr fólk í tómum húsum.“

Ég ætla þá að athuga aðeins töflu í skýrslu prófessors Guðmundar, töflu 51, og sjá, hvernig þessar tölur eru. Hann segir þar, að þessi tafla sé um einkaneyzlu á Norðurlöndum í hlutfallstölum á árunum 1965 og 1966. Og fyrri talan, sem ég las þá upp, er húsnæðisliðurinn fyrir árið 1965 og hin fyrir 1966. Þá er það fyrst Danmörk 8.3%, 8.4%, Finnland 10.9%, 11.1%, Ísland 18.7%, 19.5%, Noregur 7.9%, 7.9%, Svíþjóð 9.6%, 9.8%.

Þessar upplýsingar gefa til kynna, að byggingarkostnaðurinn hér sé óeðlilega hár miðað við fyrrnefnd lönd. Hlutfallstalan að meðaltali bæði árin er þá þessi: Danir eru með 8.3%, Finnar 11%, Íslendingar 19.1%, Norðmenn 7.9 og Svíar 9.7. Sýnist það vera einhver goðgá að athuga það, hvort ekki væri unnt að minnka þennan geigvænlega mun, sem var á byggingarkostnaðinum á árunum 1965–1966, og ekki sízt, þegar allt bendir til þess, að þessi kostnaðarmunur hafi enn aukizt á þeim árum, sem liðin eru síðan? Gefa þessar tölur ekki til kynna, að húsnæðisliðurinn sé hér miklu hærri en eðlilegt má telja? Er það þá ekki skylda Alþ. að láta fara fram rannsókn á því, hvað er að í þessari starfsemi og láta gera viðhlítandi könnun á því, hvað veldur þessum geigvænlega mun? Ég kem betur að þessu atriði síðar.

Þá er ég kominn að öðru atriðinu, um samanburð á kostnaði og frágangi á byggingum framkvæmdanefndar í Breiðholti og íbúðum í fjölbýlishúsum byggðum á sama tíma. Í áramótaþætti Flosa Ólafssonar gafst þjóðinni að sjá og heyra, hvernig þessar íbúðir eru. Þó að eitthvað hafi e.t.v. verið ýkt í þessum þætti í einstökum atriðum, er hitt eins víst, að ýmsir gallar komu ekki fram í þessum þætti, sem eru á þessum íbúðum. Það fer því ekki á milli mála, að þessar byggingar eru orðnar frægar um allt land fyrir tvennt: Í fyrsta lagi fyrir það, hvað þær urðu dýrar í byggingu. Í öðru lagi, hvað margir og miklir gallar hafa nú þegar komið fram í þessum byggingum og hve hroðvirknislega er þar frá ýmsu gengið.

Þegar um þessar byggingarframkvæmdir var samið í fyrstunni, var sagt, að höfuðtilgangurinn með þessum byggingum væri að lækka byggingarkostnaðinn til muna, frá því sem þá var, með því að byggja íbúðir í fjöldaframleiðslu. Þessar íbúðir áttu svo hinir efnaminni í þjóðfélaginu að fá keyptar með hagstæðum kjörum. Eins og áður segir, mun svo hafa til tekizt með byggingarkostnaðinn, að í staðinn fyrir að lækka hann er ekki annað að sjá en nýtt met hafi verið slegið í byggingarkostnaðinum í þessum byggingum, og séu frágangur og gallar teknir með í samanburðinum, er enginn vafi á því, að met hefur verið slegið að þessu leyti.

Við tókum okkur til, tveir af flm. þessarar þáltill., og fórum upp í Breiðholt til þess að sjá með eigin augum þessar frægu byggingar, því að sjón er sögu ríkari. Við fengum með okkur þrautreyndan byggingarmeistara til þess að heyra hans álit á því, sem kynni að bera þar fyrir augu okkar. Ég vil taka fram, að ég var búinn að gera mér fulla grein fyrir því, að allt mundi ekki vera í sómanum með þessar byggingar. En að það væri eins slæmt og það reyndist vera eða kom mér fyrir sjónir, datt mér alls ekki í hug. Það er engin ástæða til þess, að ég fari að gefa tæmandi lýsingar á því, sem fyrir augu bar í þessari ferð. Hins vegar vil ég skora á hv. alþm. að samþykkja þessa till., sem hér er til umr. og stuðla að því, að fram fari rannsókn á þessum og öðrum byggingum, til þess að hlutlaust mat fari fram á þann hátt, og stuðla að meira aðhaldi í byggingarstarfseminni í landinu. Sú hv. n., sem fær þessa till. til athugunar, getur fengið aðstoð og leiðbeiningar hjá mér eða okkur, ef hún vill athuga þessar og aðrar byggingar, sem við skoðuðum í umræddri ferð, svo að hún hafi ekki sögusögn okkar eða annarra um þennan samanburð. En til þess að hv. alþm. fái nú þegar nokkra hugmynd um, hvernig ástandið er í þessu efni, eins og það kom mér fyrir sjónir umfram það sem kom fram í sjónvarpsþætti Flosa Ólafssonar á gamlárskvöld, vil ég nefna nokkur atriði.

Víða voru veggir sprungnir langt fram yfir það, sem ég hef séð í nokkrum byggingum. Þessar sprungur voru víða mjög gleiðar og opnar, og okkur fannst þær alveg rosalegar, t.d. hjá stigum og víðar, þannig að stigarnir virtust hanga í lausu lofti. Parketgólf eru í þessum íbúðum, en allvíða voru gólfin farin að síga, marraði og jafnvel brakaði í þeim, þegar um þau var gengið, ekki ólíkt því, sem var í gömlu baðstofugólfunum, þegar bitar og undirlög voru að láta sig og farin að fúna. Í mörgum baðherbergjunum hrundu flísar jafnóðum og þær voru límdar á veggina, og sem dæmi voru okkur sýnd nokkur böð, sem búið var þrívegis að líma flísarnar á án árangurs. Skápar og innréttingar voru þannig, að engin leið er að kalla þann frágang fagvinnu og það var líka álit byggingarmeistarans. Og ég vil segja, að í mörgum tilfellum er frágangurinn þannig, að hann var engum manni bjóðandi og rýrir útlit og sölumöguleika íbúðanna til mikilla muna. Samsetningargallar sáust allvíða á gleri, og taldi byggingarmeistarinn allt gallað gler ónýtt. Það er að vísu auðvelt að bæta úr því með því að skipta um gler, en hverjum ber að borga þann kostnað, sem af þeim skiptum mundi leiða, eða hver sér um það, að réttir aðilar verði látnir greiða þann kostnað? Einangrunargallar munu vera algeng fyrirbæri. Sumt hefur verið lagað, en annað ekki enn sem komið er, hvað sem verður. Hverri íbúð fylgir geymsla í kjallara. Þessar geymslur eru þiljaðar í sundur með þunnum panel, en hurð er úr sama efni. Læsing og lamir eru þannig, að stálpaðir krakkar eiga auðvelt með að komast inn í geymslurnar, og þarf ekki nema nagla eða lítið skrúfjárn til þess. Er því ekkert til friðs í þessum geymslum og ekki auðvelt að bæta úr nema þá að taka niður þessar innréttingar og setja upp ný skilrúm í staðinn úr öðru efni.

Eitt af því furðulegasta, sem við sáum, var það, að í tveggja herbergja íbúðunum var ekkert gluggafag opnanlegt í svefnherbergjunum. Í þess stað var smárifa eða rifur með lokum fyrir undir gluggunum. Þessi loftaugu ásamt lokunum voru úr málmi, og var okkur sagt, að þegar frost væri, frysu lokarnir fastir, þannig að þá var engin leið að opna þessi loftaugu. Í heilbrigðissamþykkt fyrir Reykjavík segir svo í 32. gr. í 5. mgr. eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Í hverju íbúðarherbergi og eldhúsi skal á útvegg vera nægilega stór gluggi, sem má opna.“

Ég get ekki séð betur en það sé blátt áfram brot á heilbrigðissamþykkt Reykjavíkur að hafa ekki opið fag á gluggunum. Að öðru leyti lýsti Flosi Ólafsson þessum íbúðum í þætti sínum, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þá galla hér.

Í framhaldi af þessari kynnisferð í Breiðholtsbyggingarnar skoðuðum við íbúðir byggðar af byggingarsamvinnufélögum eða fólki, sem myndaði samtök til að koma yfir sig íbúðum, byggðum á sama tíma og Breiðholtsbyggingarnar. T.d. skoðuðum við fjögurra herbergja íbúðir svipaðar að stærð og fjögurra herbergja íbúðirnar í Breiðholti, sem kostuðu 1132 þús. kr. En þessar íbúðir með frágengnum lóðum kostuðu allar innan við 900 þús. kr., ögn misjafnt eftir því, hvað í þær var borið. Það var annar frágangur á þessum íbúðum, og hefði ég verið að hugsa um að kaupa mér íbúð og þessar íbúðir hefðu verið til sölu, annars vegar Breiðholtsíbúðirnar og hins vegar þær íbúðir, sem við skoðuðum annars staðar í borginni, hefði ég ekki viljað Breiðholtsíbúðirnar, þó þær væru falar fyrir 250–300 þús. kr. minna en hinar.

Þar sem verkalýðsfélögin sömdu um þessar byggingar í upphafi við ríkisstj. og þessar byggingar áttu að leysa íbúðarvandamál hinna efnaminni í þjóðfélaginu, hefði mátt vænta þess, að þessi félagasamtök tækju ekki þegjandi við þessum íbúðum, eins og verð er á þeim og frágangur allur, en því miður hefur ekki heyrzt neitt um það enn sem komið er, að þau hafi gengið í þetta mál. Margt af þessu fólki, sem íbúðirnar keypti, hefur áreiðanlega fá úrræði og munu a.m.k. sumir hika við að leita réttar síns fyrir dómstólunum, þó að þeim finnist, að þeir hafi verið hart leiknir í þessum kaupum. Stéttarfélögin sömdu um þessar byggingar við ríkisvaldið. Þessi framkvæmd getur tæpast verið í samræmi við það, sem ætlazt var til, þegar samkomulagið var gert, því er það bæði eðlilegt og sjálfsagt, að þeir aðilar, sem sömdu um þessar byggingar fyrir meðlimi sína, gangi í það að leita réttar þeirra, þegar svo herfilega hefur til tekizt, eins og að framan er rætt.

Í því sambandi má enn minna á það, að því var mjög á loft haldið, þegar umrætt samkomulag var gert, að með þessum framkvæmdum mundi byggingarkostnaðurinn til muna lækka og þar með húsnæðiskostnaður hinna efnaminni, sem áttu samkv. samkomulaginu að sitja fyrir þessum íbúðum. Og það, að Breiðholtsbyggingarnar voru látnar sitja fyrir fjármagni frá Húsnæðismálastofnuninni, var réttlætt með því, að þar væri verið að byggja miklu ódýrari íbúðir en áður hefðu þekkzt í landinu. En þessi ráðstöfun kom mjög hart niður á öðrum húsbyggjendum í landinu og olli því í mörgum tilfellum, að ýmsir sáu enga leið til þess að hefja byggingar, ekki eingöngu hér við Faxaflóa, heldur einnig víðs vegar um land. Þessi framkvæmd hefur því valdið því, að önnur byggingarstarfsemi hefur mjög dregizt saman á þessu tímabili, en að vísu fyrir brigðmæli hæstv. ríkisstj., þar sem hún stóð ekki við að útvega fjármagn í þessar byggingar utan við það almenna veðlánakerfi, eins og ætlazt var til og um var samið.

Og þá er ég kominn að þriðja atriðinu, sem ég nefndi, hvort fjölskyldur með meðaltekjur geti staðið undir húsnæðiskostnaðinum, að honum óbreyttum, miðað við óbreyttar ráðstöfunartekjur þessara stétta. Nú hefur ríkisvaldið staðið fyrir byggingunum í Breiðholti og ber í raun og veru ábyrgð á þeirri framkvæmd og þeim kjörum, sem þeir, sem hafa keypt þær, hafa orðið að skuldbinda sig til að sæta. Við skulum því staldra við og hugleiða, hvaða líkur séu á því, að þessir aðilar muni geta staðið við þessar skuldbindingar að öllu óbreyttu.

Tveggja herbergja íbúðirnar í Breiðholti, sem eru 66 fermetrar, kostuðu 883 þús. kr. Lán til 33 ára nemur 706 þús. kr. og til 6 ára 93166 kr. Afborganir og vextir fyrsta árið af þessum íbúðum eru rúmar 50 þús. kr., á fjórða ári tæpar 60 þús. kr. og á sjöunda ári og þar á eftir rúmar 42 þús. kr. Kaupverð þriggja herbergja íbúðanna, 78 fermetra í sambyggingu, var 1 millj. 16 þús. kr. Lán til 33 ára var 813 þús. kr. og til 6 ára rúml. 106 þús. kr. Afborgun og vextir á fyrsta ári eru 57 600 kr., á fjórða ári tæpar 69 þús. kr. og á sjöunda ári og þar á eftir 48500 kr. Fjögurra herbergja íbúðirnar eru 90 fermetra, kaupverðið 1 millj. 132 þús. Lán til 33 ára 906 þús. kr. og til 6 ára 119 þús. kr. Afborganir og vextir fyrsta árið 64 300 kr., á fjórða ári 76800 kr. og á sjöunda ári og þar á eftir um 54 þús. kr. Ef maður bætir svo við fasteignagjaldinu, sem mun vera á þessar íbúðir um 4 300 kr., yrði greiðslan á fjórða ári rúml. 81 þús. kr. Einbýlishúsin, sem voru 116 fermetra, kostuðu 1 millj. 489 þús. kr. Lán til 33 ára eru 1 millj. 191 þús. og til 6 ára rúmlega 158 þús. Afborganir og vextir fyrsta árið tæp 85 þús., á fjórða ári rúmlega 101 þús. og á sjöunda ári og þar á eftir tæplega 71 þús. kr. Til viðbótar fyrsta árs greiðslu þyrfti að bæta stimpilgjaldi, 2% af söluverði, og skipulagsgjaldi 3% af brunabótamati. Þessi gjöld má ætla, að verði af þessum íbúðum, sem hér segir: Af tveggja herbergja íbúðunum samtals 17 660 kr. Af þriggja herbergja íbúðunum rúmlega 23 000 kr. Af fjögurra herbergja íbúðunum 26 000 kr.

Að mestu leyti losna t.d. þeir, sem byggja í samvinnufélögunum, við þessar greiðslur, þannig að til samanburðar við þær íbúðir, sem ég gat um áðan á tæplega 900 þús., þá kosta þessar íbúðir, fjögurra herbergja íbúðirnar, nálægt 1160 þús. kr.

Hvernig eiga þeir, sem hafa um 150 þús. kr. árstekjur, og þó að tekjurnar væru 180 þús. kr., að standa undir slíkum greiðslum? Væri ekki viðeigandi og verðugt viðfangsefni fyrir hæstv. ráðh. að sýna okkur fram á það tölulega, að fjölskylda með slíkar tekjur geti staðið undir þessum greiðslum? En skyldi það ekki standa í þeim? Og sé þessi húsnæðiskostnaður eðlilegur að dómi hæstv. ríkisstj., þá er kaupmáttur launanna engan veginn í samræmi við þann lið og verður að skoða það til hlítar í réttu ljósi. Eins og þessi byggingarstarfsemi hefur verið á liðnum árum, hafa þær byggingar, sem orðið hafa dýrastar, setið fyrir fjármagni frá Húsnæðismálastofnuninni, og af því hefur leitt, að þeir, sem hafa sýnt meiri hagkvæmni, hafa verið stöðvaðir af þeim sökum. Svo að ég taki dæmi um byggingarkostnað í samvinnubyggingarfélögum í Reykjavík, þá veit ég, að ýmsir aðilar úti á landi hafa byggt a.m.k. eins ódýrt eins og þessi samvinnubyggingarfélög. T.d. veit ég um það á Akureyri, að byggingarkostnaðurinn var innan við þetta mark á þessum árum. Er heil brú í þessu? Og vilja hv. alþm. taka þá ábyrgð á sig að láta ekki kanna þetta mál til hlítar?

Unga fólkið mun fylgjast með því, hvernig hv. Alþ. tekur á þessu máli. Það er mér a.m.k. ljóst, því að ekki eru það svo fáir, sem hafa haft samband við mig undanfarnar vikur til þess að ræða um þessa þáltill., sem er til umr., og ástandið í þessum málum yfirleitt. Augu manna eru að opnast, ekki sízt unga fólksins, fyrir því, að þessi mál séu ekki í eins góðu lagi og hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa viljað vera láta, og það er almennt álitið, að byggingarkostnaður sé fast að því helmingi hærri hér en t.d. á Norðurlöndum.

Það er almenn skoðun, að Breiðholtsævintýrið hafi gersamlega mistekizt. Það er áþreifanleg staðreynd, að byggingarkostnaðurinn hefur verið mesti verðbólguvaldurinn á liðnum árum. Hinn mikli húsnæðiskostnaður, ekki sízt í Breiðholti, hlýtur að auka mjög kröfur um miklar kauphækkanir á næstu mánuðum. Það er alveg vonlaust fyrir hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar að halda að sér höndum í þessum málum og staðhæfa, að öll gagnrýni á þessi mál sé af vanþekkingu og misskilningi sprottin og sé að engu hafandi. Almenningur í landinu veit betur. Og það er ætlazt til þess af okkur, sem eigum sæti á hv. Alþ., að við þorum að horfast í augu við vandann og gerum ráðstafanir til þess að reyna að afstýra honum, bæði á þessu sviði og öðrum. Til þess erum við hér, en ekki til þess að stinga höfðinu niður í sandinn og láta allt reka á reiðanum, eins og áberandi hefur verið síðasta áratuginn hjá þeim, sem völdin hafa haft. Þetta mál er í brennipunkti. Þjóðin öll og þó sérstaklega unga fólkið fylgist vel með, hvaða afgreiðslu þessi þáltill. fær á hv. Alþ. og hvernig staðið verður að þessum málum, því að þessi mál brenna á æðimörgum þessa dagana.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.