22.10.1969
Sameinað þing: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (3212)

17. mál, Vesturlandsáætlun

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. um Vesturlandsáætlun. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera framkvæmdaáætlun fyrir Vesturland í þeim tilgangi að bæta afkomu einstaklinga og atvinnugreina og auka byggð á svæðinu á næstu árum.“

Á árinu 1963 samþykkti Alþ. þáltill. um framkvæmdaáætlun fyrir Vestfirði. Næsta ár á eftir var hafizt handa um gerð byggðaáætlunar fyrir það svæði, og var fengin aðstoð norskra sérfræðinga til þess að gera áætlunina. Var á nokkrum tíma gengið frá samgönguáætlun fyrir Vestfirði, og hefur nú þegar verið aflað mikils fjár til framkvæmda samkv. þeirri áætlun. Síðan 1966 hefur Efnahagsstofnunin unnið að byggðaáætlun fyrir Norðurland, og hefur einnig þar verið aflað fjár til framkvæmda þeirri áætlun. Loks hefur verið unnið allmikið af framkvæmdaáætlun fyrir Austurland.

Í áliti og till. um áætlanagerð, sem Efnahagsmálastofnunin sendi frá sér snemma á árinu 1968, segir m.a., að nægileg reynsla hafi þá ekki fengizt af því hér á landi, hvernig bezt sé að haga gerð byggðaáætlana og að hvaða notum slík áætlanagerð geti komið. Hins vegar taldi stjórn Efnahagsstofnunarinnar nauðsynlegt að ljúka því starfi, sem þá var hafið við gerð Norðurlandsáætlunar, og athuga jafnframt í ljósi reynslunnar, hvernig skyldi unnið að byggðaáætlunum framvegis. Ég leyfi mér að fullyrða, að Íslendingar muni halda áfram gerð byggðaáætlana, enda er reynslan af þeim góðsvo langt sem hún nær. Ég hygg, að allir stjórnmálaflokkarnir hafi lýst sig fylgjandi því, að gripið verði til aukinnar áætlunargerðar, og ég vil minna á, að fyrir fáum dögum tók landsfundur Sjálfstfl. mjög eindregið undir það, að halda þyrfti áfram gerð og framkvæmd byggðaáætlana.

Ýmsar ástæður hníga að því, að ég leyfi mér að flytja þessa till. og tel, að tími sé til þess kominn að gera slíka áætlun fyrir Vesturland. Orðið Vesturland er hér notað í þeirri merkingu, að það þýði þau héruð, sem falla undir Vesturlandskjördæmi. Þó gæti farið svo, að það yrði talið rétt við áætlunargerð að bæta Austur-Barðastrandarsýslu þar við, af því að mér skilst eftir skýrslum Efnahagsstofnunarinnar, að Austur-Barðastrandarsýsla hafi ekki verið tekin með í Vestfjarðaáætlun og sérfræðingar hafi talið, að hún mundi falla betur með byggðum í norðurhluta Vesturlands og ætti að vera með því svæði, þegar áætlun fyrir þann landshluta yrði gerð.

Fyrir fáum árum ríkti sá hugsunarháttur í landinu, og byggðist hann að sjálfsögðu á aðstæðum, sem þá voru fyrir hendi, að allar opinberar ráðstafanir til eflingar á atvinnulífi skyldu miðast við landið að undanskildu suðvesturhorni þess. Voru þá gjarnan dregnar línur þannig, að Faxaflóasvæðið og Reykjanessvæðið í heilu lagi voru undanskilin, en ýmis aðstoð var veitt öðrum landshlutum. Ég hygg, að reynsla þjóðarinnar undanfarin 2–3 ár á krepputímabili hafi sýnt, að þessi hugsun stenzt ekki lengur. Það hefur komið í ljós, að héruð, sem eru á suðvesturhorni landsins, búa við mjög mikið öryggisleysi í atvinnumálum, og í dag er ástandið þannig, að atvinnuleysi er mest í þéttbýlinu í Reykjavík. Ég vil því leyfa mér að halda fram með flutningi þessarar till., að það verði að athuga vandlega efnahagsástand og aðstæður á Vesturlandi, gera áætlun um framkvæmdir þar og til þurfi að koma opinbert átak til þess að efla afkomu einstaklinga, atvinnugreina og auka byggð á þessu svæði. Erfiðleikar undanfarandi ára hafa að sjálfsögðu komið mjög illa við þjóðina, en þó ákaflega misjafnlega eftir því, hvaða atvinnustéttir er um að ræða og einnig eftir því, hvaða byggðarlög er um að ræða. Við höfum orðið fyrir því á Vesturlandi, að á okkar svæði eru byggðarlög, sem hafa orðið mjög illa úti á þessu tímabili. Hefur komið í ljós, að hinir einhæfu atvinnuvegir valda því, að fólkið býr við ákaflega mikið öryggisleysi hvað atvinnu og afkomu snertir.

Fyrsta till., sem flutt var og samþ. á Alþ. um gerð byggðaáætlana, till. um Vestfjarðaáætlun, var rökstudd á þann hátt, að stöðva þyrfti fólksflótta frá Vestfjörðum. Ég vil leyfa mér að benda á, að íbúafjöldi Vesturlands, eins og ég hef skilgreint það, hefur aukizt mjög hægt á undanförnum áratugum og raunar miklu hægar en ástæða er til. Á árunum 1940–1960 fjölgaði á þessu svæði aðeins um 1846 manns, en á sama tíma fjölgaði þjóðinni í heild um 54 206 manns. Á árabilinu 1960–1968 fjölgaði á Vesturlandi um 1409 manns, en þau ár var heildarfjölgun þjóðarinnar 26 511. Ég vil beina athygli hv. þm. að því, að þetta svæði er þannig í sveit sett, að það ætti að taka við miklu stærri hluta af fólksfjölgun þjóðarinnar en raun hefur borið vitni. Ég tel því, að hér sé um aðra veigamikla ástæðu að ræða fyrir því. að nú sé kominn tími til þess að hefja gerð Vesturlandsáætlunar og framkvæmdir samkv. slíkri áætlun.

Reynslan af þeim áætlunum, sem þegar hafa verið gerðar og teknar til framkvæmda, hefur orðið sú, að greiðust leið sé að gera samgönguáætlanir fyrir viðkomandi héruð. Það mun og vera skoðun allra, sem hlut eiga að máli, að bættar samgöngur eftir slíkum áætlunum verði til þess að veita viðkomandi byggðum alhliða efnahagsstyrk. Ég tel ástæðu til að ætla, að sama muni gilda um Vesturland, og ég vil vekja athygli á því, að þar bíða einmitt á sviði samgöngumála óleyst mjög stór verkefni, sem ég tel að mundu ekki aðeins stórbæta aðstöðu veigamikilla byggðarlaga á þessu svæði, veita þar aukna atvinnu og tekjur, heldur mundu þessar sömu framkvæmdir koma öðrum landshlutum að miklu gagni, vegna þess að meginsamgönguæðar þjóðarinnar mundu batna. Ég skal ekki fara ítarlega út í að nefna þessi verkefni, en það nægir að minna t.d. á lausn Hvalfjarðarmálsins og á brú yfir Borgarfjörð, sem almennt mun hafa verið talin til skýjaborga, þegar einn af Vesturlandsþm. flutti fyrst þá hugmynd á Alþ., en öllum er nú orðið ljóst, að er mjög raunhæft og nauðsynlegt verkefni. Ég vil nefna fullgerð Heydalsvegar, sem raunar er nú á góðum vegi, veg yfir Laxárdalsheiði, sem mundi bæta samgöngur milli Norðurlands annars vegar og Vesturlands og Vestfjarða hins vegar, svo og endurnýjun á ýmsum gömlum brúm og brautum í héraðinu. Þá vil ég benda á, að Vesturland hefur enn lítið getað notað flugsamgöngur, en framkvæmdir, sem ekki þyrftu að vera stórar í sniðum, við það að stækka flugbrautir, t.d. í Stykkishólmi og á Hellissandi, mundu gera kleift að auka flugsamgöngur á þessu svæði til muna. Hafnarmál skipta miklu fyrir ýmis byggðarlög á Vesturlandi og einnig þar bíða aðkallandi verkefni. Flóabátar hafa mikla þýðingu fyrir þetta kjördæmi, bæði á Breiðafirði og Faxaflóa, og er nauðsynlegt að tryggja starfsemi þeirra og aðstöðu a.m.k. um fyrirsjáanlega framtíð.

Í beinu framhaldi af tali um hugsanlegar samgöngubætur á Vesturlandi vil ég benda á ferðamannastraum sem atvinnuveg. Augu þjóðarinnar eru að opnast fyrir því, að hvers konar starfsemi varðandi ferðamannastraum er veigamikill atvinnuvegur, sem gefur miklar tekjur, og ég tel, að Vesturland hafi sérstaka möguleika á þessu sviði, ekki sízt vegna þess, að það er í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið, þar sem liðlega helmingur þjóðarinnar býr. Strax og samgöngur fyrir Hvalfjörð greiðast, þannig að leiðin til héraða norðan Hvalfjarðar styttist, hygg ég, að straumur manna muni verða af þéttbýlissvæðunum norður um. Ég vil sérstaklega benda á, að ferðamannastraumur er einn af þeim fáu nútímaatvinnuvegum, sem við Íslendingar erum að byggja upp, er getur tekið við allmiklu vinnuafli skólafólks á sumrin. Við búum nú við það, að breyttir atvinnuhættir gera okkur sífellt erfiðara að útvega unga fólkinu, sem er í skólum, sérstaklega framhaldsskólunum, sumaratvinnu. Af þeim atvinnuvegum, sem nú virðast eiga verulega framtíð í landinu, hefur ferðamannastraumurinn það fram yfir flesta aðra, sem ég hef um heyrt, að hann ætti að geta tekið við allmiklu af slíku fólki, en sumarvinna skólafólks hefur mikil áhrif á efnahag heimila þess.

Að sjálfsögðu ætti ég að nefna framleiðsluatvinnuvegina, en mér er ljóst, að það er ekki eins auðvelt að gera áætlanir og framkvæmdir á því sviði fyrir einstaka landshluta, heldur verða flest vandamál framleiðsluatvinnuveganna að leysast fyrir þjóðina sem heild. Vandamál á því sviði eru á Vesturlandi hin sömu og annars staðar í landinu. Á þessu svæði eru byggðarlög, sem hafa mjög einhæfa atvinnuvegi, byggja afkomu sína eingöngu á fiskveiðum og fiskvinnslu og hafa á undanförnum kreppuárum orðið fyrir allt að því óbærilegum áföllum sum hver. Önnur byggðarlög á þessu svæði hafa komið upp meiri eða minni iðnaði, og er öllum ljóst, hversu þýðingarmikið þróunarskref það er. Engu að síður eru þar líka mörg vandamál. Loks eru byggðir, sem byggja afkomu sína á samgöngum og þjónustu, en þær eiga líka sín vandamál við að stríða.

Það mætti nefna marga fleiri málaflokka, þar sem ég hygg, að áætlanagerð mundi geta komið að miklu gagni. Þar vil ég fyrst og fremst nefna skólamálin, en ég tel, að þau muni á komandi árum hafa miklu meiri áhrif á byggð í landinu og tilflutninga fólks en verið hefur hingað til. Ég hygg, að á komandi árum muni fleiri og fleiri fjölskyldur flytjast þangað, sem börnin geta fengið nútíma framhaldsmenntun. Af þessum ástæðum er væntanlega öllum ljóst, að það er eitt af stórmálum þjóðarinnar í dag, að sú menntunaraðstaða verði ekki öll á einum eða tveimur stöðum, heldur verði henni dreift eins mikið og með góðu móti er unnt.

Vesturland hefur að ýmsu leyti búið vel hvað skóla snertir og haft forustu um byggingu heimavistar barna- og unglingaskóla í sveitum. En það skortir enn mikið á, að ástandið í þessum efnum sé viðunandi. Ég tel, að menntaskóli verði fljótlega að koma á þessu svæði og ýmsir aðrir sérskólar. Ég tel, að byggðirnar á þessu svæði skorti ýmsar menntastofnanir til þess að öðlast svo alhliða félagslíf, að nútímafólk geti við það unað.

Að lokum vil ég nefna þróun, sem mjög er rætt um þessi árin, þar sem er uppbygging stóriðju. Ég vil koma á framfæri því sjónarmiði, hvað sem líður öðrum deilum um stóriðju á Íslandi, að ég tel óhugsandi, að slík stóriðja verði svo að segja öll sett á höfuðborgarsvæðið. Nú er talað um byggingu olíuhreinsunarstöðvar, og ég hef það fyrir satt, að þeir, sem um það mál fjalla, hafi varla nefnt annað en tiltekinn stað við Sundin við Reykjavík. Ef menn lesa þá ágætu bók, sem út hefur komið um skipulag Reykjavíkursvæðisins á næstu áratugum, sjá þeir, að ætlunin er að koma fyrir á þessum stað íbúðarhverfum fyrir 80–100 þús. manns. Það gerist e.t.v. ekki fyrr en undir árið 2000, en þetta eru svæði, sem sérfróðir menn hafa bent á sem framtíðaríbúðarsvæði höfuðborgarinnar og nálægra sveitarfélaga. Ég tel því fráleitt að ætla sér að setja olíuhreinsunarstöð með þeirri loftmengun og þeim óhreinindum, sem slíku fyrirtæki fylgja, á mitt þetta fagra svæði, þar sem við ætlum að reisa íbúðarhverfi fyrir 100 þús. Íslendinga á næstu áratugum. Ég vil benda á, að það væri tilvalið að reisa stóriðjuver við norðanverðan Hvalfjörð. Þar er hafnaraðstaða og þar geta stærstu skip nútímans siglt inn. Þar væri hægt að koma fyrir iðjuverum, sem hefðu Vesturland, aðallega Borgarfjarðarhérað, að bakhjarli og yrðu því ekki hluti af því mikla þéttbýlissvæði, sem hér er. Þetta stóriðjusvæði mundi geta stuðzt við Akranes, sem þarf ekki að vera nema 15 mínútna akstur eða svo frá þessu svæði, og verkafólk gæti búið þar og haft þar margvíslega þjónustu. Ef menn halda því fram, sem heyrzt hefur, að olíuhreinsunarstöð verði að vera nálægt mesta markaðssvæðinu, sem er höfuðborgin, þá er lítill kostnaður við að leggja þangað olíuleiðslur. Á fáum árum mundi sá kostnaður greiðast upp og verða sáralítill.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að umr. um þetta mál verði frestað og því verði vísað til fjvn.