22.10.1969
Sameinað þing: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (3217)

17. mál, Vesturlandsáætlun

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Þessar umr., sem hér fara fram, finnast mér býsna fróðlegar og ánægjulegar. Hér koma upp í ræðustól þm. úr öllum flokkum og lýsa yfir fylgi sínu við áætlunarvinnubrögð. Þeir leggja áherzlu á nauðsyn þess, að gerðar séu byggðaáætlanir, ekki aðeins á stöðum, þar sem þær hafa þegar verið ákveðnar, heldur einnig á Vesturlandi, Austurlandi og Suðurlandi. Þetta eru menn úr öllum flokkum. Þetta eru meira að segja menn, sem hafa tekið þátt í baráttu flokks, sem segist ekkert vilja hafa með áætlunarbúskap að gera af neinu tagi, sem telur, að málin eigi að vera í höndum einstaklinga, sem eigi að beita hinu fræga framtaki til þess að leysa öll vandamál. En hér kemur í ljós, að menn, sem hugsa um ástandið í byggðarlögum sínum, telja, að áætlunarvinnubrögð séu lausnin, og ég vil fagna þessu alveg sérstaklega.

Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs var þó sú, að hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason, sagði í ræðu sinni áðan, að hann teldi eðlilegt, að slíkar áætlanir yrðu gerðar utan þéttbýlisins. Hann virtist telja, að það væri ekki nauðsynlegt að hafa slík vinnubrögð í sambandi við Reykjavík og Reykjavíkursvæðið. Nú er að vísu rétt, að það er mikill munur á aðstæðum hér og úti á landi. Þau vandamál, sem hér brenna á fólki, eru að ýmsu leyti annars eðlis. Þau eru fyrst og fremst ástandið í atvinnumálum. En á því sviði er ástandið í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu tvímælalaust alvarlegra en á nokkrum öðrum stað á landinu, þegar undan eru skildir nokkrir blettir á Norðurlandi. Hins vegar hefur mér þótt þess gæta seinustu árin, eins og raunar kom fram í ræðu hv. 5. þm. Vesturl., að margir teldu, að ástandið í Reykjavík væri þannig, að fyrir Reykjavík þyrfti ekkert að gera. Og það eru meira að segja brögð að því, að eðlilegur áhugi á því að létta undir með stöðum úti á landi hefur hreinlega bitnað á Reykjavík. T.d. hefur það gerzt núna á síðustu mánuðunum, að 8 stórir bátar hafa verið seldir frá Reykjavík út á land. Þessir staðir, sem hafa fengið bátana, þurfa að sjálfsögðu á þeim að halda, en Reykjavík þurfti einnig á þeim að halda. Við skulum minnast þess, að hér í Reykjavík hefur þróunin orðið sú, að á síðustu 5 árum hefur fækkað um 10 togara. Í Hafnarfirði hefur sú þróun orðið enn þá stórfelldari, þar hefur togurunum fækkað úr 10 í 3 á undanförnum árum, og bátum í Hafnarfirði hefur fækkað úr 35 í 12. Það er þessi þróun, sem hefur leitt til þess, að í Reykjavík hefur verið að magnast atvinnuleysi, sem hefur náð saman og verið í samfellu síðan í fyrrahaust og allir dómbærir menn óttast, að muni vaxa til muna á næstunni. Þetta á ekki aðeins við um sjávarútveg og fiskiðnað. Samdráttur sá, sem verið hefur í iðnaði á undanförnum árum, hefur fyrst og fremst bitnað á Reykjavíkursvæðinu, því að hér eru öll helztu iðnaðarfyrirtækin.

Þessu hefur alls ekki verið gefinn nægilegur gaumur, ekki heldur í þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið af hálfu Alþ. og stjórnarvalda til þess að auka atvinnu í landinu. Að undanförnu hafa starfað að þeim verkefnum þrjár stofnanir, atvinnumálanefnd ríkisins, Atvinnujöfnunarsjóður og Fiskveiðasjóður. Lánveitingar úr þeim sjóðum hafa skipzt milli landshluta. En heildarlánveitingar til Reykjavíkur úr þessum þremur sjóðum voru í júlílok í sumar orðnar 80 millj. af 566 millj. í heild. Það voru aðeins 14.3%, sem runnu til Reykjavíkur, enda þótt íbúatala sé um 40% og atvinnuleysingjahópurinn í sumar væri næstum því helmingurinn af atvinnuleysingjunum í landinu.

Þetta eru ákaflega stórfelld vandamál. Ég óttast mjög, að sjálf atvinnuundirstaðan á Reykjavíkursvæðinu sé svo veik, að hún geti hreinlega brostið. Það hefur oft verið rætt um það, að þróunin á velmegunarárunum var sú, að peningunum var varið í þjónustufyrirtæki og verzlunarfyrirtæki og slíka starfsemi, sem vissulega getur verið æskileg og þægileg fyrir þegnana, en hrynur saman um leið og framleiðsluatvinnuvegirnir skila ekki nægilegum afköstum. Þess vegna hefur samdráttur í framleiðsluatvinnuvegum margföld áhrif á stað eins og Reykjavík. Ég held einmitt, að það sé alveg sérstaklega mikil nauðsyn að gera áætlun um, hvernig haga eigi efnahagslegri undirstöðu þéttbýlissvæðisins við Faxaflóa, það sé hin mesta nauðsyn, sem nú blasir við. Hins vegar verður það verk ekki leyst á þann hátt að hólfa landið niður í sérstök hverfi og tala einvörðungu um áætlanir innan hvers búts um sig. Eins og hv. þm. Benedikt Gröndal tók réttilega fram í framsöguræðu sinni áðan, hafa þessar byggðaáætlanir reynzt þess of lítið megnugar að fjalla um atvinnumálin, atvinnuvegina. Hins vegar eru atvinnumálin, framleiðslan, undirstaða allra annarra hluta. Það þýðir ekkert að ímynda sér, að maður geti gert áætlanir um vegalagningar, skóla og annað slíkt, ef við höfum ekki efnahagslega undirstöðu til að bera þau verkefni uppi. Forsenda raunverulegra byggðaáætlana er allsherjaráætlun um uppbyggingu atvinnuveganna á Íslandi. Áætlunarbúskapur, sem leggur á ráðin um það, hvernig eigi að þróa fiskveiðar, fiskiðnað og annan iðnað og aðra atvinnuvegi okkar.

Þetta mál er í brennipunkti stjórnmálaátakanna á Íslandi eins og allir vita. Við stjórnarandstæðingar höfum haldið því fram, að það væri háskalegasta villan hjá hæstv. ríkisstj., að hún hafni því, að stjórnarvöld hafi félagslegt frumkvæði að því að byggja upp atvinnuvegina. Kórvilla hennar sé sú, að það megi enginn snerta við því verkefni nema atvinnurekendur, sem reynslan sýnir þegar, að eru þess ómegnugir, og þess vegna eru útlendingar nú að hlaupa í skarðið í vaxandi mæli. Fyrir liggur á þingi mjög ákveðin skoðun stjórnarandstöðuflokkanna beggja um stuðning við áætlunarbúskap, en þetta er einnig forn stefna Alþfl., þetta er einn aðalkjarninn í stefnuskrá Alþfl. Þannig segist hann vilja vinna að málum. Er nú ekki ráð, að Alþfl. hagnýti það lag, sem nú blasir við á þingi, þegar allir flokkar lýsa stuðningi við takmarkaðan áætlunarbúskap, þegar stjórnarandstaðan lýsir yfir fullum stuðningi við áætlunarbúskap í atvinnumálum? Er þá ekki tækifæri fyrir Alþfl. að taka þetta mál upp við samstarfsflokk sinn í ríkisstj. og hagnýta sér þá staðreynd, að það er meiri hl. á þingi fyrir áætlunarbúskap, ef þingmenn Alþfl. vilja standa við þá stefnu, sem þeir þykjast fylgja? Svona einfalt er þetta mál. Það er í höndum Alþfl. að koma þessu máli fram. Hann getur hreinlega tekið það upp við Sjálfstfl. og sagt: Við höfum þingvilja fyrir þessari breytingu á stjórnarstefnunni, og látið svo á það reyna, hvort Sjálfstfl. vill taka tillit til þessa þingvilja eða ekki. Þetta tel ég vera algert meginatriði. Ég skal síður en svo draga úr gagnsemi takmarkaðra byggðaáætlana, þær geta gert mikið gagn og hafa gert það, og þær geta aukið vitneskju manna mjög mikið um vandamál á stöðum úti um land. En undirstaða þeirra er atvinnulífið sjálft, framleiðslan, og ef við getum ekki tryggt þá undirstöðu, verður talið um takmarkaðar áætlanir dútlið eitt.