22.10.1969
Sameinað þing: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í D-deild Alþingistíðinda. (3218)

17. mál, Vesturlandsáætlun

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja á þessu stigi málsins, sérstaklega vegna þess að ummæli sumra hv. þm. hafa fallið á þá leið, að lokið sé Vestfjarðaáætlun og nú sé röðin komin að öðrum landshlutum og þá fyrst Norðurlandsáætlun, en svo skil ég ekki enn, hvor á að verða á undan, Austurlands- eða Vesturlandsáætlun. (Gripið fram í.) Ja, það er nú svo, ég veit nú ekkert um það, hvort hún er komin í gang. Ég vil leiðrétta svolitið þennan misskilning, sem kemur fram hjá þessum hv. þm., hvað snertir Vestfjarðaáætlun, sem þeir eru að tala um, að sé nú búin. (Gripið fram í.) Það getur verið, að þessi hv. þm. hafi ekki sagt það, en ég held, að ég hafi tekið svo vel eftir, að hv. þm. Guðlaugur Gíslason hafi sagt, að Vestfjarðaáætlun væri búin, en hvort sem menn hafa sagt það eða ekki, þá ætla ég að leiðrétta þann misskilning. Það vantar mikið á, að hún sé búin, þessi Vestfjarðaáætlun, og við höfum orð hæstv. fjmrh. fyrir því frá síðasta þingi, þar sem hann skýrði alveg réttilega frá því, loksins að það fékkst, að það væri engin Vestfjarðaáætlun búin nema vegáætlun. Það er allt og sumt. Það er ekki farið að gera frumdrætti að nokkurri áætlun í menntamálum, atvinnumálunum, sem ættu nú að standa undir öllu saman, heilbrigðismálunum og rafmagnsmálunum, ég nefni bara fjögur dæmi. Það hefur aldrei borið á góma. En það er ekki nóg með það, að þetta sé allt eftir, heldur er hér um bil helmingurinn af Vestfjörðum eftir, og hv. 5. þm. Vesturl. minntist ósköp skemmtilega á það áðan í ræðu sinni, að það væri kannske rétt, að þessi Vesturlandsáætlun tæki Austur-Barðastrandarsýslu með, því að hún hefði verið skilin eftir. Ég vil segja, að þetta sé ósköp vel meint, eins og séra Oddur sagði einu sinni. Þetta er ósköp vel meint, en það var bara meira en Austur-Barðastrandarsýsla, sem var skilin eftir, það var öll Strandasýslan skilin eftir, það var allt Ísafjarðardjúpið, norðan- og sunnanvert, skilið eftir, svo að það er þó nokkuð eftir af Vestfjarðaáætluninni enn. Nú vil ég biðja hv. n., sem fær þetta mál, að muna eftir því, þegar hún fer að afgreiða till., að skjóta því einhvern veginn að, að ljúka skuli þeim áætlunum, byggðaáætlunum, sem byrjað var á og ekki er búið með. Það væri brýnt að gera það, því að vel getur verið, ef þær eru þrjár eða fjórar í takinu, já og fimm með Suðurlandsáætlun, að þetta dragist allt svo lengi, að engin klárist. Það eru mjög óhyggileg vinnubrögð að mínum dómi. Ég vildi vekja athygli á þessu nú þegar, vegna þess að sá misskilningur virðist vera mjög ríkjandi, að Vestfjarðaáætlun sé löngu tilbúin og alveg afgreidd. Þið megið vita, að upphaf þessarar áætlunar voru ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir fólksflutninga af Vestfjörðum, en nú skilst mér, að önnur byggðarlög þurfi ekki svo mjög að kvarta undan því, nema ef það væri þá Austurland. Ég held, að fólksfækkun sé ekkert áberandi á Suðurlandi eða hérna við Faxaflóann, ekkert áberandi. Það getur verið, að í einstökum hreppum sé það svona, en fjölgunin er þá margföld annars staðar. Þar með er ég ekki að segja, að því aðeins eigi að gera byggðaáætlun, að það sé vegna fólksfækkunar, öðru nær. Það er alveg rétt, sem kom fram áðan, það þarf að gera áætlanir fyrir landið allt. En meðan verið er að tala um byggðaáætlanir, er hyggilegra að ljúka við það, sem byrjað er á, áður en farið er að fjölga þeim áætlunum. Ég hef svo sem heyrt það nefnt um Strandasýslu, að hún eigi eiginlega að heyra til Norðurlandi, en Strandasýsla tilheyrir ekkert Norðurlandi frekar fyrir það, hún tilheyrir Vestfjörðum og verður þar meðan Vestfirðir eru til, svo að þess háttar tal er algerlega út í hött, og þó að hv. þm. Benedikt Gröndal vilji krækja í Austur-Barðastrandarsýslu, þá verður hún á Vestfjörðum áfram. Það er ekki einu sinni hægt að tengja hana, þó að við fengjum brú yfir Breiðafjörðinn, eins og þeir yfir Borgarfjörðinn. Við höfum þó undirstöðurnar undir hana.