30.01.1970
Efri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

126. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. (Kristján Thorlacius):

Herra forseti. Með frv. því, sem hér er til umr. og þeim yfirlýsingum, sem gefnar hafa verið við meðferð málsins af hæstv. ráðh., er í raun og veru brotið blað í sögu skattamála hér á landi. Sú þróun hefur verið all ör að undanförnu, að horfið hefur verið frá beinum sköttum yfir til óbeinna skatta, en eins og upplýst er í aths. við tollskrárfrv., sem einnig er til afgreiðslu hér á hv. Alþ., er mikið af hinum óbeinu sköttum enn innheimt í formi aðflutningsgjalda, sem eru mismunandi á hinar ýmsu vörutegundir eftir því, hve nauðsynlegar þær eru fyrir almenning. Í aths. við tollskrárfrv. er frá því greint, að beinar tolltekjur ríkissjóðs nemi yfir 30% af heildartekjunum samkvæmt fjárlfrv. fyrir árið 1970. Nú er því lýst yfir, að á næstu árum eigi að stíga skrefið til fulls og hverfa frá aðflutningsgjöldum sem aðaltekjulind ríkissjóðs.

Með söluskattsfrv., sem hér liggur fyrir, er stigið stórt skref í þessa átt. Með þessari stefnubreytingu, þessari gjörbyltingu í skattheimtu ríkisins, er verið að hverfa frá þeirri reglu, sem verið hefur leiðarljós Íslendinga um langan aldur, að menn greiði til sameiginlegra þarfa samfélagsins eftir efnum og ástæðum, miðað við fjárhagsgetu. Það sem í staðinn á að koma, er söluskatturinn, sem í reynd er nefskattur og kemur fjárhagslega þyngst niður á þeim, sem minnsta hafa getuna til þess að greiða skatta, þ.e. tekjulágu fólki og allra verst kemur slíkur skattur við mann margar fjölskyldur.

Menn kveinka sér mjög undan hinum beinu sköttum og vissulega eru þeir þungir á mörgum. Það skattaform er fyrst og fremst gagnrýnt fyrir þá ágalla, sem reynzt hafa margir á því í sambandi við undandrátt á framtölum. Ef rétt er á haldið, er beina skattaaðferðin bezta skattheimtuaðferðin fyrir almenning. Það þýðir ekki að loka augunum fyrir því, að beinu skattarnir koma óvenjulega þungt niður á þeim, sem nú taka laun hjá öðrum. Þetta er ekki kerfinu að kenna, heldur framkvæmdinni og ég er þess fullviss, að til eru aðferðir, sem eru þess umkomnar að bæta úr þeim ágöllum, sem nú eru á framkvæmd álagningar beinan skatta til ríkis og sveitarfélaga. Og enn sannfærðari er ég um það, að með því að færa skattheimtuna yfir í söluskatt, er verið að fara úr öskunni í eldinn. Áreiðanlega eru hvergi meiri möguleikar til skattsvika en einmitt með innheimtu söluskatts og allar líkur benda til, að hundruð millj. kr. af söluskatti, sem neytendur greiða, muni aldrei komast til skila í ríkissjóð. Meðan við enn byggjum að nokkru á beinum rekstri fyrirtækja, haldast í hendur vanskil á söluskatti og undandráttur á framtölum til álagningar tekjuskatts og útsvara.

Mismunandi háir tollar á aðfluttum vörum eru mun hagkvæmari fyrir almenning en söluskatturinn, sem á að koma jafnt á allar vörur. Að mínum dómi er það fráleit stefna að hverfa frá beinum sköttum og mismunandi háum aðflutningsgjöldum yfir í söluskatt. Hér ætti að snúa blaðinu við og herða framkvæmd skattaeftirlits við álagningu beinna skatta. Slíkt er hvort sem er óumflýjanleg nauðsyn vegna innheimtu útsvara til sveitarfélaga. Hækkun söluskattsins kallar einnig á mjög aukið eftirlit og gagnrýni á framtölum söluskattsgreiðenda, því eins og ég sagði áðan, þá haldast í hendur undandráttur á skattframtölum og vanskil á söluskatti.

Við, sem stöndum að áliti minni hl. fjhn., við hv. 3. þm. Vestf., erum andvígir því frv., sem hér liggur fyrir til umr. um hækkun á söluskatti og leggjum til, að það verði fellt. Samkv. frv. á söluskatturinn að hækka úr 71/2% í 11%. Sú tekjuaukning, sem ríkissjóður ætlar að fá samkvæmt ákvæðum frv., á að nokkru að ganga til þess að bæta þann tekjumissi, sem stafar af lækkun á tollum vegna aðildar Íslands að EFTA, og að nokkru til annarra útgjalda ríkissjóðs, sem óviðkomandi eru EFTA–aðildinni. Við teljum, að þessara tekna hefði átt að afla með allt öðrum hætti til þess að mæta þeirri tollalækkun, sem leiðir af EFTA–aðildinni. Það hefði átt að fara þær tekjuöflunarleiðir, sem valda því að helztu lífsnauðsynjar verði ekkert eða sem allra minnst skattlagðar. Einnig er til sú leið að bæta upp álögur á neyzluvörur með auknum fjölskyldubótum eða á annan hátt. Það eru ýmsar aðrar leiðir til í því.

Við viljum gera tilraun til þess að flytja brtt. í hv. þd. við þetta frv., sem mundu, ef samþ. yrðu, draga verulega úr afleiðingunum fyrir almenning af þeirri ranglátu skattheimtu, sem hér er á ferðinni. Við leggjum til, að söluskattur verði alveg afnuminn af kjötvörum, smjöri, osti, skyri, kartöflum, kaffi, sykri, kornvörum, rafmagni, heitu vatni og gasolíu til heimilisnota. Í öðru lagi leggjum við til, að fjölskyldubæturnar verði hækkaðar um 20%, og mundi sú hækkun nema 1.000 kr. á hvert barn. Ef till. okkar nær samþykki, mundi það væntanlega kosta ríkissjóð samtals um 345 millj. kr. Þar á móti mundi koma u.þ.b. 50–60 millj. kr. útgjaldalækkun hjá ríkinu, sem stafar af því, að þær ráðstafanir, sem við leggjum til að gerðar verði til að létta byrðar almennings vegna söluskattshækkunarinnar, mundu hafa í för með sér 3 stiga lækkun vísitölunnar, samkvæmt áætlun Hagstofunnar. Þegar tekið er tillit til þessa, mundi þetta ekki kosta ríkið nema 285–295 millj. kr. á yfirstandandi ári.

Samkvæmt upplýsingum þeirra, sem mest hafa með efnahagsmál þjóðarinnar að gera, hefur ástandið í þeim efnum mjög batnað að undanförnu og er því full ástæða til að ætla, að afkoma ríkissjóðs verði betri á þessu ári, en á undanförnum árum, þegar efnahagslífið var í öldudal. Það er því, að okkar dómi engin ástæða til að ætla, að þær 250–300 millj. kr., sem ríkissjóður fær í auknum tekjum vegna hækkaðs söluskatts samkvæmt þessu frv., þurfi raunverulega til þeirra útgjalda, sem hæstv. fjmrh. gerir ráð fyrir að þær gangi til. Þá fjárhæð, sem hér um ræðir, má því nota til þeirra ráðstafana, sem brtt. okkar gera ráð fyrir.

Það er á allra vitorði, að tekjurýrnun hjá almenningi hefur orðið gífurleg að undanförnu og stórfelld launahækkun er orðin óumflýjanleg nauðsyn, sem ekki verður með nokkurri sanngirni staðið gegn. Þetta frv. um hækkun söluskatts, sem hér liggur fyrir, eykur verulega á þá nauðsyn. Okkar skoðun er sú, að skynsamlegra væri fyrir ríkisstj. og þingmeirihluta hennar að samþ. brtt., sem miða að því að draga úr áföllunum hjá almenningi í sambandi við hinar auknu álögur, heldur en að bæta enn olíu á eldinn í landinu, sem leiðir til ófarnaðar fyrir alla landsmenn.

Hv. 12. þm. Reykv. var hér með nokkrar hugleiðingar í ræðu sinni hér fyrr við þessa umr. í hv. d. út af ummælum okkar hv. 2. þm. Austf. við 1. umr. þessa máls. Eins og búast mátti við af þessum hv. þm., þá var hann ákaflega hógvær og hafði mikla fyrirvara í sínum málflutningi og m.a. hafði hann þá fyrirvara um flest það, sem hann sagði, að mjög væri erfitt að skera úr um það, hvor hefði réttara fyrir sér í því, sem um var rætt, hann eða við hv. 2. þm. Austf. Og ég held nú, að þar sem þessi yfirlýsing hans liggur fyrir, þá þýði lítið fyrir okkur að eyða tíma hv. Alþ. í að halda langar ræður um slík mál. Það mundu þá væntanlega standa yfir eilífar umræður, þar sem hvor aðilinn segir sitt og aðrir yrðu þá væntanlega að dæma um, hvor hefði rétt fyrir sér og mundu þá sennilega eiga nokkuð erfitt með það, ef rétt er hjá hv. þm., að erfiðleikar séu á að skera úr um það.

Í sambandi við aðflutningsgjöldin komst hv. 12. þm. Reykv. efnislega að orði eitthvað á þá leið, að honum fyndist það rétt stefna að mismuna nokkuð í aðflutningsgjöldum eftir því, hvort um væri að ræða munaðarvörur eða aðrar vörur, sem væru meira nauðsynlegar. Ég er honum alveg sammála um þetta, eins og fram kom í ræðu minni hér í gær, og við hv. 2. þm. Austf. höfum í ræðum okkar lagt áherzlu á það. En ég vil í þessu sambandi benda hv. þm. á það, að hér hafa komið fram skýrar yfirlýsingar frá hæstv. forsrh., sem hann styður í ríkisstj., um að það eigi að afnema öll aðflutningsgjöld. Það er stefna ríkisstj. og þm. hennar og þegar slíkt hefur tekizt, þá getum við hv. 12. þm. Reykv. væntanlega orðið sammála um það, að enginn möguleiki verður þá á að hafa mismunandi háa tolla, eftir að búið er að afnema þá. Mér finnst því, að þarna skjóti nokkuð skökku við í málflutningi hv. þm.

Í sambandi við smyglmálin, þá getur það vel verið rétt, að þar geti verið nokkur hætta á ferðinni. Ég hef nú satt að segja ekki athugað það, hvað margar konur gengu í nælonsokkum á tilteknu tímabili, en vafalaust hefur hv. þm. tekið betur eftir því en ég og sjálfsagt er það rétt hjá honum, að þær hafi verið allmargar, en ekki skal ég taka upp umr. við hann á Alþ. um það.

Í sambandi við tölur þær, sem ég nefndi hér við 2. umr. um laun opinberra ríkisstarfsmanna í Danmörku og tók þaðan nokkur dæmi og bar saman við laun hér á landi, þá vil ég enn minna á það, að ég hafði þar fullan fyrirvara á, að því er varðaði framfærslukostnað. Hann reyndi að færa nokkur rök að því, að framfærslukostnaðurinn í Danmörku væri mun meiri en hér. Hann taldi m. a., að beinir skattar væru mjög háir í Danmörku og það væri mjög mikið lóð á vogarskálina í því efni að gera framfærslukostnaðinn mun hærri þar en hér. En ég minni á í þessu sambandi og legg áherzlu á það, að ef við berum skatta í Danmörku og öðrum löndum yfirleitt saman við skatta hér á Íslandi, þá verðum við að taka fleiri samanburðartölur heldur en beinar tölur og hann minntist réttilega á óbeinu skattana hér. Það verður auðvitað að tína þetta allt saman og bera saman alla tolla og söluskatt, þ.e. aðflutningsgjöld, söluskatt og beina skatta. Ég hef ekki tölur í höndunum um þetta frekar en hann, en ég hef borið mig saman við menn í Danmörku, rætt þessi mál við menn þar og við komumst að þeirri niðurstöðu, að þegar allt væri tekið með í reikninginn, beinir skattar og tollar, þá mundi þetta vera nokkuð svipað þar í landi og hér. Ég hygg, að hv. þm. hafi hlotið að verða mismæli, þegar hann taldi, að af tiltekinni tekju upphæð í Danmörku greiddu menn 110% í skatt. Ég held það geti varla verið og það hljóti að hafa verið mismæli hjá hv. þm. Þá eru þeir fjmrh. í Danmörku fremri fjmrh. hér, og finnst okkur þó að hann hafi komizt nógu langt.

Ég hygg, að í sambandi við þessi verðlagsmál sé það rétt hjá hv. þm., að ég hafi áður látið þess getið, í svari við spurningu eins fréttamanns, að verðlag í Danmörku væri að mínum dómi nokkru hærra en hér. Þetta er auðvitað mismunandi á ýmsum vörutegundum. Ég hef orðið var við það, að ýmiss fatnaður, t.d. á karlmenn, er í vissum tilfellum mun ódýrari heldur en hér. Aðrar vörutegundir eru þar vafalaust dýrari og eftir því sem ég hef komist næst, sem ferðamaður, þá er verðlag væntanlega öllu hærra í Danmörku. En það hrekur það ekki, að þær tölur, sem ég fór með hér í gær, eru í höfuðatriðum réttar, þ.e. að laun eru meira en helmingi hærri hjá sambærilegum starfsmönnum í Danmörku heldur en hér. Og þegar ofar kemur í stigann, verða launin þar, vegna launamismunar þrefalt hærri a.m.k., sbr. dæmið, sem ég nefndi um arkitekta. Ég fullyrði því, að hinn raunverulegi munur á vöruverði þar og hér er áreiðanlega mjög hagstæður dönskum launamönnum. Þótt við höfum ekki aðstöðu til þess að bera þetta saman nákvæmlega, þá er algerlega óhætt að fullyrða það, að íslenzkir launamenn eru komnir langt á eftir starfsbræðrum sínum á Norðurlöndum hvað kjör snertir, um það er engum blöðum að fletta.

Það er alveg rétt, að launamismunur í Danmörku og á öðrum Norðurlöndum er mun meiri heldur en hér á landi og ein af orsökunum til þess, að launamismunurinn hér á landi hefur minnkað óvenjumikið núna á seinustu tímum, er sú ráðstöfun ríkisstj. að afnema verðlagsuppbót á laun og þeir samningar, sem gerðir hafa verið fyrir tilstilli ríkisstj. um að skerða verðlagsuppbótina á laun, þannig að full vísitala á laun er ekki greidd af hærri launum en 10 þús. kr. Eftir kjarasamningana 1963 voru hæstu laun opinberra starfsmanna innan launakerfisins 3.1 sinnum hærri en lægstu launin voru. Áður en þessir samningar voru gerðir, voru hæstu launin 2.9 sinnum hærri en lægstu launin. En núna er þetta komið niður í það, að hæstu launin eru 2.3 sinnum hærri en lægstu launin. Þetta er þróun, sem auðvitað er þjóðhagslega mjög hættuleg. Að halda launum niðri, eins og gert er hér á landi, er yfirleitt þjóðhagslega hættulegt. Og til viðbótar því, legg ég áherzlu á það, að fyrsta skilyrðið er, að viðunandi laun séu hjá hinum lægst launuðu, síðan þarf að vera launamismunur, til þess að þjóðfélagið fái hæfa menn til þess að mennta sig til sérfræðistafa og til ábyrgðarstarfa.

Ég veit, að hv. 12. þm. Reykv. hefur skilning á þessum málum og ég vil vænta þess, að hann beiti sér fyrir því meðal flokksbræðra sinna á Alþingi og í ríkisstj., að alvara verði gerð úr því að bæta úr launakjörum manna hér á landi, fyrst og fremst hinna láglaunuðu og svo verði bætt úr brýnni nauðsyn þess að afnema fyrst og fremst þá vísitöluskerðingu, sem hér er, þannig að full vísitala verði greidd. Það væri mjög mikið spor í áttina, ef hvort tveggja færi saman, að greidd yrði veruleg kauphækkun til allra opinberra starfsmanna, grunnlaunahækkun og síðan afnumin takmörkun á kaupgjaldsvísitölu. Ég efast ekkert um, að þessi hv. þm. muni vera á því, að þessa sé þörf, en ég vil nú skora á hann, ef hann hefur fastar skoðanir á þessu máli, að hlýða nú ekki flokksbræðrum sínum lengur með það að halda niðri launum í landinu og viðhalda þannig launakerfi hér, sem er að verða þjóðinni til stórskaða.

Það kom fram í ræðu hv. 12. þm. Reykv., að hann vildi vissulega stuðla að launahækkunum hér, ef efnahagur þjóðarinnar þyldi það. Ég vil í þessu sambandi minna á ummæli, sem komið hafa fram nú eftir áramótin hjá ýmsum af forustumönnum þjóðarinnar í fjármálum um, að efnahagurinn sé síbatnandi. Ég vil einnig minna á ummæli, sem einn af forustumönnum í járniðnaðinum viðhafði í útvarpi eða sjónvarpi núna eftir áramótin, það var formaður Fél. ísl. iðnrekenda, en hann sagði, að hann teldi iðnaðinn nú þola verulegar launahækkanir.

Vildi ég því mega vænta þess, að launþegasamtökin í landinu ættu hv. 12. þm. Reykv. að, þegar launakjarabaráttan hefst í vor.