29.10.1969
Sameinað þing: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í D-deild Alþingistíðinda. (3220)

17. mál, Vesturlandsáætlun

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þegar þáltill. þessi var rædd í hv. Sþ. á síðasta fundi þess, kom ég fram með þá ábendingu, að aðeins væri um að ræða tvo landshluta, þ.e. Suðurland og Vesturland, sem eftir væri að gera byggðaáætlun fyrir. Ég gat þess þá, að ég mundi beita mér fyrir því, að þm. Sunnl. flyttu brtt. við þá þáltill., sem hér liggur fyrir, og höfum við fjórir þm. Sunnl. lagt fram till. í þessu sambandi. Hún er á þskj. 53 og er efnislega þannig, að Alþ. álykti að láta gera till. um framkvæmdaáætlun fyrir Suðurland jafnframt því, að áætlun yrði gerð fyrir Vesturland. Ég tel, að frekari rökstuðning fyrir þessari till. þurfi varla. Þau rök, sem færð eru fyrir till. um Vesturlandsáætlun, geta að mörgu leyti einnig átt við till. fyrir Suðurlandsáætlun. Á ég bæði við samgöngumál, menningarmál o.fl. Ég benti á það í ræðu minni á síðasta fundi Sþ., að eftir að Vestfjarðaáætlun kom fram, mundu fylgja á eftir till. þm. úr öðrum kjördæmum þess efnis, að einnig yrðu samdar byggðaáætlanir fyrir fleiri landshluta. Þetta hefur nú gerzt og það alveg eðlilega, að ég tel, og er nú svo komið, eins og ég hef bent á, að aðeins Vesturland og Suðurland eru eftir.

Hv. 6. þm. Reykv. kom í ræðustól á síðasta fundi Sþ., þegar þetta mál var rætt, og lýsti ánægju sinni yfir því, að nú skyldu ég og fleiri þm. vera fylgjandi áætlunargerðum í þessu sambandi. Ég veit ekki, hvernig þessi ágæti þm. lítur á áætlunargerð. Mér skilst, að hann geri engan greinarmun á, hvort um áætlunargerðir eða áætlunarbúskap er að ræða, en ég vil undirstrika það, að ég greini þar mjög mikið á milli, og ég tel, að þar sé um næsta óskyld mál að ræða. Ég held, að hver einstaklingur, jafnvel þó að hann hafi engan atvinnurekstur, geri að vissu marki áætlun um sín fjármál, og þeir, sem atvinnurekstur hafa, þurfa auðvitað að gera ýmiss konar áætlanir í sambandi við sinn rekstur. Þetta gera sveitarfélög líka, og ég tel, að áætlunargerð í sambandi við uppbyggingu í vissum landshlutum eigi vissulega rétt á sér. Það er með okkur sem aðrar þjóðir, að það kemur í ljós, að fólk sækir meira en góðu hófi gegnir til búsetu í höfuðborg landsins. Ég tel að þetta eigi við Reykjavík, eins og það á við höfuðborgir annarra nálægra landa, bæði Norðurlanda og víðar, að talið er, að höfuðborgirnar byggist of ört upp, fólkið flytji of ört frá dreifbýlinu til þéttbýlissvæðanna, höfuðborganna og þar í grennd. Ég tel, að þær byggðaáætlanir, sem unnið er að, og þær byggðaáætlanir, sem hér er lagt til, að gerðar verði, miði að því að bæta aðstöðu fólksins í dreifbýlinu, halda því frekar kyrru þar en að það flosni upp og flytji í þéttbýlið við Faxaflóa, þar sem það telur, að sé betri aðstaða til búsetu. Ég tel, að byggðaáætlun eigi að vega þarna upp á móti og gera aðstöðu til búsetu ekki lakari, að því leyti sem hægt er, í dreifbýlinu en í þéttbýlinu hér við Faxaflóann. Þetta er ástæðan fyrir því, að ég hef fylgt þeim áætlanagerðum, sem legið hafa fyrir á hv. Alþ. um byggðaáætlanir fyrir Vestfirði og einnig um Norðurlandsáætlun, og ég er einn af flm. till. um það, að byggðaáætlun verði einnig gerð fyrir Vesturlands- og Suðurlandskjördæmi. Áætlunarbúskap lít ég allt öðrum augum. Í áætlunarbúskap, eins og við þekkjum hann t.d. frá þeim ríkjum, þar sem kommúnistar ráða, er það ríkið, sem gerir áætlun um rekstur alls þjóðarbúsins og ég tel ekki og hef aldrei getað sannfærzt um, að það skipulag hentaði okkur Íslendingum betur en það skipulag, sem við búum við, þó að við förum að vissu marki að gera áætlun um einstök atriði í sambandi við rekstur sveitarfélaga, eins og einstaklingar gera í sambandi við sinn rekstur. Þetta er það, sem ég tel, að skilji á milli áætlunargerðar og áætlunarbúskapar, eins og við þekkjum hann frá þeim löndum, sem kommúnistar ráða og reka þjóðarbúið eftir alveg fyrir fram mótaðri áætlun, þar sem ríkið ræður raunverulega öllu, bæði atvinnurekstri og má segja einstaklingunum einnig, og ef hv. 6. þm. Reykv. hefur verið að vona, að ég væri að færast nær því, sem samþingismenn hér á Alþ. kalla Þjóðviljaklíkuna, þá verð ég að valda honum miklum vonbrigðum, því að ég held, að ég hafi aldrei verið fjær því að láta mér detta í hug, að það væri vettvangur eða skipulag, sem hentaði íslenzka þjóðfélaginu.