29.10.1969
Sameinað þing: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í D-deild Alþingistíðinda. (3221)

17. mál, Vesturlandsáætlun

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Af því að byggðaáætlanagerð heyrir að nokkru leyti undir mig eins og sakir standa, — því að framkvæmdaáætlanir heyra sem slíkar undir fjmrh., og auk þess vill svo til, að ég er formaður stjórnar Atvinnujöfnunarsjóðs, sem lögum samkvæmt hefur fengið það verkefni að athuga, að hve miklu leyti ástæða sé til slíkra áætlanagerða, — þá langar mig til þess að segja um þessa till. nokkur orð, áður en hún fer til n. og biðja hv. n. að íhuga ýmis atriði í sambandi við þetta mál, sem ég tel nauðsynlegt að hafa í huga.

Tillagan, sem hér er flutt, er fyrst og fremst um að gera framkvæmdaáætlun fyrir Vesturland, viðaukatillagan er um að gera framkvæmdaáætlun fyrir Suðurland. Mér þykir ekki ólíklegt, að einhverjum renni blóðið til skyldunnar og leggi jafnvel til að gera framkvæmdaáætlun fyrir Reykjavík og aðra fyrir Reykjaneskjördæmi, þannig að þetta fer að verða dálítið flókið mál við að fást, og kemur þá auðvitað upp á teninginn, hvort ekki eigi að snúa þessu upp í einhverja allsherjaráætlunargerð fyrir landið í heild.

Allir hv. þm. vita, hvert er upphaf þessara áætlanagerða, og það er nauðsynlegt að skilja þá hugsun, sem þar lá á bak við, til þess að geta tekið ákvarðanir um hugleiðingar sem þessar, ekki sízt ef þær eru útfærðar svo langt sem hér er gert. Fyrsta hugmyndin um áætlunargerð er í sambandi við þáltill. hér á Alþ. um að gera ráðstafanir til þess að stöðva fólks- flótta frá Vestfjörðum, og það er Vestfjarðaáætlunin, sem sumir hafa stundum haldið fram, að væri ekki til, að öðru leyti liggur ljóst fyrir, að framkvæmdur hefur verið hluti þeirrar áætlunar, þ.e. samgönguáætlun Vestfjarða, og rammaáætlun var gerð varðandi aðra þróun mála, um atvinnumál og ýmsa aðra þætti byggðauppbyggingar á Vestfjörðum. Þetta var gert með hliðsjón af því ástandi, sem þá var viðurkennt á hinu háa Alþ., að Vestfirðir hefðu sérstöðu um, vegna þess að þaðan væri meiri fólksflótti, eins og það var orðað, heldur en frá öðrum byggðarlögum á landinu og hætta á því, að þarna yrði óeðlilegur samdráttur byggðar.

Næsta skref áætlunargerðar er svo svo kölluð Norðurlandsáætlun, sem gerð er í sambandi við samkomulag ríkisstj., verkalýðsfélaga og vinnuveitenda á Norðurlandi, á svæðinu frá Strandasýslu til Vopnafjarðar, vorið 1965, og ég hygg, að þá hafi einnig verið viðurkennt af öllum hv. þm., að Norðurland væri í sérstakri aðstöðu vegna þeirra miklu atvinnuerfiðleika, og hins geysilega aflabrests, sem verið hafði þá á þessu svæði a.m.k. um áratugsbil, þannig að allt atvinnulíf hafði stórlega raskazt. Þetta er ástæðan til þess, að Norðurlandsáætlunargerð var hrint af stað og hefur hún skilað þeirri niðurstöðu, að fyrir liggur atvinnumálakafli þeirrar áætlunar og yfirlit um mannfjöldaþróun á Norðurlandi, sem í rauninni er einnig mjög fróðlegt yfirlit um mannfjölda, sem draga má af mjög fróðlegar ályktanir um mannfjöldaþróun yfirleitt í landinu og flutning til þéttbýlissvæðanna. Báðar þessar áætlanir voru ákveðnar á þann veg, eins og ég gat um, að ríkisstj. var falið að framkvæma þessa áætlanagerð, af mjög eðlilegum ástæðum, vegna þess að það var enginn aðili í landinu, sem hafði það verkefni að sjá um slíka áætlanagerð.

Eftir að ákvarðanir hafa verið teknar um þessar tvær áætlanir, hefur verið sett löggjöf um Atvinnujöfnunarsjóð, þar sem beinlínis er ákveðið, að Atvinnujöfnunarsjóður láti, eftir því sem ástæða þykir til miðað við ástandið á hverjum tíma og ef sérstök hætta er á jafnvægisröskun í byggð hér og þar á landinu, gera áætlanir, annaðhvort allsherjaráætlanir eða á takmörkuðum sviðum fyrir stærri eða smærri svæði landsins, í því skyni að vinna gegn slíkri þróun, og er þá gert ráð fyrir því, að Efnahagsstofnunin vinni fyrir sjóðinn, eftir því sem nauðsynlegt er, að gerð slíkrar áætlunar. Atvinnujöfnunarsjóður hefur ekki tekið ákvörðun um frekari áætlanagerð síðan hann var settur á laggirnar, aðra en Norðurlandsáætlun, vegna þess að á það hefur verið bent, að nauðsynlegt væri að framkvæma hana og ljúka henni til þess að sjá, hvaða erfiðleikar kæmu fram við gerð slíkrar áætlunar og draga af henni lærdóma, er að gagni kæmu við gerð annarra áætlana af svipuðu tagi, en þetta er fyrsta byggðaáætlun, sem gerð er á Íslandi af innlendum aðilum. Og það er engum efa bundið, að einmitt gerð þeirrar áætlunar, sem sumum hefur nú þótt dragast nokkuð lengi, en er nú komin þetta langt, leiddi í ljós margvíslega erfiðleika, sem hafa beint hugum manna inn á það, að rétt væri að vinna að þessari áætlunargerð að ýmsu leyti með öðrum hætti og ekki gera jafnheilsteyptar áætlanir eins og þar var gerð tilraun til að gera.

Atvinnujöfnunarsjóður hefur á þessu sumri tekið til athugunar gerð samgönguáætlunar fyrir Austurland og jafnframt hefur verið tekið til athugunar og Efnahagsstofnunin beðin að kanna, hvort ekki væri tiltækilegt að ljúka atvinnumálaþætti Vestfjarðaáætlunar. Samgöngumálaáætlun fyrir Austurland mun vera tiltölulega einfalt mál, vegna þess að inn í þær áætlanir hefur komið heildaráætlun, sem unnið hefur verið að á ýmsum sviðum, m.a. áætlun um samgöngumál fyrir landið allt, svo kölluð Kampsax-áætlun, sem er komin á lokastig, og sömuleiðis hefur verið unnið að skólabyggingaáætlunum fyrir landið allt, þannig að tiltölulega auðvelt ætti að vera að átta sig á þeim vandamálum innan tíðar, en samgönguáætlunin er það langt komin, að talið hefur verið tiltölulega mjög auðvelt á skömmum tíma að gera samgönguáætlun fyrir Austurland, og Atvinnujöfnunarsjóður hefur einmitt ákveðið að óska eftir því við Efnahagsstofnunina, að hún ljúki gerð slíkrar áætlunar, til að sjóðurinn geti haft hana til hliðsjónar og séð, hvaða vandamál er þar við að fást. Ýmsum köflum Norðurlandsáætlunar er heldur ekki lokið, en það er einmitt niðurstaða Efnahagsstofnunarinnar í þeim þáttum Norðurlandsáætlunar, sem lokið er, að eðlilegt sé, að að þessum málum verði unnið á vegum Atvinnujöfnunarsjóðs í framhaldi af þeirri áætlun, sem þegar er lokið um atvinnumálin og að ekki sé rétt að vinna að þessu með þeim hætti, sem gert hefur verið, nema að takmörkuðu leyti.

Ég held, að þróunin sé að færast í þá átt, að meira verði unnið að takmörkuðum áætlunargerðum fyrir einstök byggðarlög, þar eð víða hefur verið ákveðið af einstökum sveitarfélögum að gera framkvæmdaáætlanir. Austfirðingar hafa sjálfir — eða Fjórðungssamband Austfirðinga, — ráðizt í að gera framkvæmdaáætlun fyrir Austfirði, sem vafalaust verður mikilvægt gagn til þess að átta sig betur á þörfum þess landshluta. Vel má hugsa sér, að rétt sé að gera einhverja slíka könnun á vissum þáttum mála á Vesturlandi og Suðurlandi líka. Það má ekki skilja orð mín sem nein andmæli gegn því. En ég held, að eins og málum er háttað nú a.m.k., sé vert fyrir þá n., sem fær þessi mál til íhugunar, að gera sér grein fyrir, á hvaða stigi áætlunargerðin er og hvað viðhorfin hafa breytzt í þessum efnum, frá því að ákveðin var gerð Norðurlandsáætlunar og Vestfjarðaáætlunar, og það er í rauninni ekki eðlilegt, finnst mér, að ríkisstj. sé falið að framkvæma heilsteypta áætlunargerð fyrir einstök byggðasvæði úr þessu, heldur eigi það að metast af Atvinnujöfnunarsjóði, eftir því sem atvik standa til hverju sinni, hvaða landsvæði hafi mesta þörf fyrir áætlunargerð, og ekki sízt verður nauðsynlegt að gera þetta mat, ef á að stefna í þá átt að vinna nú að áætlunargerð fyrir svo að segja öll kjördæmi landsins. Og ég vek athygli á því, sem ég áðan sagði, að það verður að taka þetta í skrefum. Það er engin leið annars. Þetta er svo víðtækt vandamál, sem hér er um að ræða, að við höfum ekki nokkurn mannafla á Íslandi til þess að vinna að þessum áætlunargerðum, nema þá á löngum tíma. Og við reynum þar að velja og hafna, eftir því sem nauðsynlegast er hverju sinni.

Þetta vildi ég, herra forseti, aðeins láta koma fram til upplýsingar um það, hvernig þessi mál standa í dag, ekki til að mótmæla einu né neinu af því, sem hér hefur verið sagt, heldur til þess að reyna að gera mönnum ljóst, hvernig að þessu hefur verið unnið. Ég tel mjög æskilegt, að stefnt verði í þá átt, sem nú hefur verið gert á Norðurlandi, að stofna samtök sveitarfélaganna þar. Ég hygg, ef ég man rétt. að þeir á Vesturlandi hafi jafnvel stofnað slík samtök. Á Austurlandi munu þau vera komin. og vel má hugsa sér, að þau verði stofnuð á Vestfjörðum og Suðurlandi og síðan yrði það spurning um samvinnu milli slíkra samtaka og Atvinnujöfnunarsjóðs, að hve miklu leyti og á hvaða sviðum slíkar áætlanir yrðu gerðar og síðan reynt að vega og meta, hvar brýnust væri þörfin hverju sinni, því að ekki verður unnið að öllu í einu.