29.10.1969
Sameinað þing: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í D-deild Alþingistíðinda. (3222)

17. mál, Vesturlandsáætlun

Jón Árnason:

Herra forseti. Eins og fram kemur í grg. fyrir þeirri þáltill., sem hér er til umr., till. til þál. um Vesturlandsáætlun, eru rúmlega 6 ár liðin frá því að Alþ. samþykkti hliðstæða framkvæmdaáætlun fyrir Vestfirði. Með hliðsjón af þeirri þróun, sem þá hafði átt sér stað á Vestfjörðum, samdrætti í atvinnulífinu, sem leiddi af sér, að fólkinu í þessum landshluta fór stöðugt fækkandi, svo að við lá, að heil byggðarlög legðust í auðn, var öllum ljóst, að við svo búið mátti ekki standa. Óhjákvæmilegt var að gera stórátak til eflingar og viðreisnar alhliða uppbyggingu á Vestfjörðum, og það var gert. Enda þótt enn sem komið er sé þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar voru, ekki að fullu lokið, eins og hér hefur komið fram, fer það varla fram hjá íbúunum eða þeim, sem ferðast um Vestfirði í dag, að þar hafa miklar framkvæmdir átt sér stað á undanförnum árum og þá hvað mest í samgöngu- og hafnarmálum.

Eins og þegar hefur komið fram í umr. um þetta mál, er það samkv. lögum um Atvinnujöfnunarsjóð, sem samþ. voru á Alþ. vorið 1966, að stjórn þess sjóðs beri að beita sér fyrir slíkum áætlunargerðum, sem þessi þáltill. felur í sér. Fyrsta verkefni Atvinnujöfnunarsjóðs í þessum efnum var svo að fela Efnahagsstofnuninni að gera Norðurlandsáætlun. Þeirri áætlunargerð mun að verulegu leyti vera lokið eftir því sem upplýst er, og fyrir tilkomu hennar hafa þegar á þessu ári átt sér stað ýmsar framkvæmdir á Norðurlandi. Þá hefur verið upplýst í umr. um þetta mál, að stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs hafi nú þegar falið Efnahagsstofnuninni að gera framkvæmdaáætlun á Austurlandi, þ.e. um það, sem snýr að samgöngumálum. Ég tel víst, að þegar því verki verður lokið og jafnvel fyrr, komi röðin að Vesturlandsáætlun, eins og þessi þáltill. felur í sér. Það er því mikið álitamál, hvort ekki hefði verið réttara, að Alþ. beindi áskorun sinni til stjórnar Atvinnujöfnunarsjóðs í stað ríkisstj., eins og tillgr. kveður á um. Með þeim tekjum, sem Atvinnujöfnunarsjóði eru tryggðar umfram það, sem lög kveða á um, að veitt skuli í fjárlögum ár hvert, en það eru tekjur af framleiðslu álversins í Straumsvík, kunna að liggja meiri möguleikar í margs konar uppbyggingu víðs vegar um landið en menn gera sér almennt grein fyrir í dag. Það er því augljóst mál, að á komandi árum verður Atvinnujöfnunarsjóður þess umkominn að efla á ýmsan hátt atvinnulífið í landinu miklu meira en átt hefur sér stað á undanförnum árum. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1970 var gert ráð fyrir, að tekjur þessar næmu um 30 millj. kr., og telja kunnugir, að sú upphæð muni vera vanáætluð og það muni vera um 37 millj. kr., sem muni vera óhætt að áætla, að komi frá álverinu til Atvinnujöfnunarsjóðs á árinu 1967, eftir að sú endurskoðun, sem átt hefur sér stað, hefur farið fram og er í beinu sambandi við þá verðlagsbreytingu, sem átt hefur sér stað á verðlagi þessarar framleiðslu. Með auknum framleiðsluafköstum álversins, eins og nú er gert ráð fyrir, hækka verulega tekjurnar á næstu árum. Þannig er á sama hátt gert ráð fyrir því, að á árinu 1971 verði þessar tekjur sjóðsins 44 millj. kr. og á árinu 1977 verði þær komnar upp í 55 millj. Það er því augljóst mál, eins og ég áðan sagði, að á komandi árum verður Atvinnujöfnunarsjóður þess umkominn að efla á ýmsan hátt atvinnulífið í landinu miklu meira en átt hefur sér stað á undanförnum árum.

Það kom fram hjá hv. flm. í framsögu fyrir till., að um tíma hafi allar opinberar ráðstafanir, sem gerðar voru til styrktar atvinnulífinu í landinu, verið við það miðaðar, að þær næðu ekki til aðstoðar við atvinnuvegina á Suðvesturlandi. Slíka framkvæmdastefnu tel ég ranga og vona, að til þess komi ekki á ný, að landshlutum verði þannig mismunað, enda kom í ljós, að á slíkri framkvæmd voru ýmsir meinbugir, sem erfitt er að komast fram hjá. Hitt er svo annað mál og það verður alltaf svo, að erfiðleikarnir eru mismunandi miklir í hinum ýmsu landshlutum, og því er nauðsynlegt að taka sérstakt tillit til þess, þegar um opinberar ráðstafanir eða vissa aðstoð er að ræða. Ég tel, að á þessa þáltill. beri að líta sem einn lið í þeim framkvæmdaáætlunum, sem ráðgerðar hafa verið. Það er ljóst, að þegar margt kallar að, er erfitt að koma öllu í framkvæmd, og það hlýtur að taka nokkurn tíma að gera þær allsherjar framkvæmdaáætlanir, sem ætlað er, að nái yfir allt landið. Ég vil þó leyfa mér að vona, að gerð Vesturlandsáætlunar sé á næsta leiti og mun því styðja að samþykkt þessarar þáltill., a.m.k. efnislega.