29.04.1970
Sameinað þing: 49. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í D-deild Alþingistíðinda. (3239)

62. mál, áætlunargerð vegna fjárhagsaðstoðar við íþróttastarfsemina

Frsm. ( Jón Árnason ):

Herra forseti. Till. til þál. um áætlunargerð vegna fjárhagsaðstoðar ríkisins við íþróttastarfsemina í landinu hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að skipuð verði fimm manna nefnd með þeim hætti, að í henni eigi sæti þessir aðilar: Forseti Íþróttasambands Íslands, formaður Ungmennafélags Íslands, íþróttafulltrúi ríkisins, tveir menn kosnir af Sþ. Menntmrh. skipar formann nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar skal vera að gera fjárhagsáætlun fyrir íþróttastarfsemina í landinu (þó ekki mannvirki). Skal fyrsta áætlun gerð fyrir árið 1971, en eftir það skulu áætlanir gilda til fjögurra ára. Þó má endurskoða áætlunina að tveim árum liðnum, ef einhver nm. óskar þess. Við áætlunargerðina skal hafa hliðsjón af fjárframlögum annarra þjóða til íþróttastarfseminnar, t.d. Norðurlandaþjóðanna. Keppt verði að því með áætlunargerðinni, að fjárskortur hamli ekki getu íslenzkra íþróttamanna.“

Fjvn. tók þetta mál til umr. á fundi sínum og leitaði umsagnar um málið hjá stjórn Íþróttasambands Íslands, Ungmennafélagi Íslands og íþróttanefnd ríkisins. Í svörum tveggja fyrrgreindu aðilanna kom fram, að þeir tóku mjög undir, að slík nefnd væri sett á stofn, sem hér um ræðir, en frá íþróttafulltrúa ríkisins var álitið nokkuð á annan veg. Hann taldi, að ef um slíka nefnd væri að ræða, ætti hún fyrst og fremst að vera þingkjörin og meira tengd Alþ. en hún yrði með skipun á þann hátt, sem þáltill. gerir ráð fyrir.

Það má öllum vera ljóst, að hér er um allstórt mál að ræða og ég vil taka undir, að nauðsynlegt sé að gera sér meiri grein fyrir því en verið hefur, hver raunveruleg fjárþörf er í sambandi við íþróttastarfsemina í landinu. Hitt er svo annað mál, sem ég tel, að þurfi að athuga gaumgæfilega, á hvern hátt skuli verja því fjármagni, sem á hverjum tíma verður af opinberri hálfu varið til íþróttastarfsemi í landinu, hvort það verður veitt opinberum stofnunum sérstaklega eða til styrktar og eflingar frjálsri félagsstarfsemi íþróttafélaganna í landinu. Nú er, eins og fram kemur í þessari þáltill., ekki ætlazt til þess, að þessi nefnd taki til athugunar fjármagnsþörf í sambandi við byggingu íþróttamannvirkja út af fyrir sig, heldur er aðeins átt við íþróttaiðkunina og íþróttastarfsemina í landinu.

Fjvn. leggur til, að till. þessari verði vísað til ríkisstj. með þeim tilmælum, að forseta ÍSÍ, formanni UMFÍ og íþróttafulltrúa ríkisins verði falið að gera umrædda fjárhagsáætlun til eins árs. Skulu þessir aðilar leggja áætlun sína fyrir fjvn. við afgreiðslu fjárlagafrv. fyrir árið 1971.

Eins og fram kemur í áliti fjvn., leggur hún ekki til, að nefndin verði skipuð fleiri fulltrúum en ég hef greint frá, og á þessi stigi málsins a.m.k. telur hún, að það mundi nást nokkuð út úr því, sem ætlazt er til með till.