30.01.1970
Efri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

126. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. (Kristján Thorlacius):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég vildi aðeins gera aths. við eitt atriði, sem fram kom í síðustu ræðu hv. 12. þm. Reykv. Hann sagðist ekki vita til þess, að ríkisstj. hefði átt neinn hlut að þeirri vísitöluskerðingu, sem nú gildir, varðandi launagreiðslur hér á landi. Ég held, að það viti það allir landsmenn aðrir en 12. þm. Reykv., að ríkisstj. hefur afdrifarík áhrif á alla launasamninga í landinu og ég held, að það viti það allir, sem fylgzt hafa með launasamningum á undanförnum missirum, að atvinnurekendur hafa mátt treysta á það, þegar kjaradeilur hafa staðið yfir, að ríkisstj. hafi að lokum verið tilbúin að gefa út brbl. í kjaradeilunum, ef á hefur þurft að halda. Og til sönnunar því, að þetta er a.m.k. svo, að því er opinbera starfsmenn varðar og þá vísitöluskerðingu, sem þeir búa við í dag, þá vil ég benda hv. 12. þm. Reykv. og öðrum hv. þm. á það, að samtök opinberra starfsmanna hafa gert um það kröfu að fá greidda fulla vísitölu á laun, en hæstv. ríkisstj. hefur synjað þeirrar kröfu. Og a.m.k. í því tilfelli, sem ég hér nefndi, er engum blöðum um það að fletta, að það er hæstv. ríkisstj., sem hefur ráðið því, að um vísitöluskerðingu er að ræða. Og að sjálfsögðu vita það allir menn, að það er einnig ríkisstj. og hennar stefna í kjaramálum, sem ræður því, að aðrir launþegar í landinu fá ekki fulla vísitöluuppbót á laun sín. Um þetta þurfum við hv. 12. þm. Reykv. ekki að deila.