05.11.1969
Sameinað þing: 10. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í D-deild Alþingistíðinda. (3251)

26. mál, rannsókn sjóslysa

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Ég vildi ekki láta málið fara í n. öðruvísi en lýsa samþykki mínu við þann anda, sem felst í þessari till., því að ég tel rétt, að hér sé um óháðan rannsóknardóm að ræða, er starfi í þeim anda, sem flm. gerði grein fyrir, en jafnframt vil ég benda á, að í 48. máli, frv. til l. um eftirlit með skipum, sem flutt er af hálfu ríkisstj., liggur fyrir í VIII. kafla ákvæði um siglingadóm og rannsókn sjóslysa. Ég er ekki ánægður með það fyrirkomulag, sem þar er gert ráð fyrir, og tel einmitt, að það eigi að fylgja eftir þessari þáltill., því að ef við lítum á 41. gr. þess frv., þá er þar fjallað um sjóslysin og segir svo orðrétt, með leyfi forseta:

„Áður en saksóknari ákveður höfðun opinbers máls út af sjóslysum eða brotum á lögum þessum, skal hann jafnan leita umsagnar siglingamálastjóra.

Ég tel þetta nokkuð hæpið, vegna þess að í fyrrgreindu frv. er mjög mikið vald lagt undir hugsanlegan siglingamálastjóra eða Skipaskoðun ríkisins, en einmitt að leita umsagnar þeirra manna, sem eiga að tryggja öryggi um borð í bátunum, er hæpið, því að fyrstu viðbrögð þeirra hljóta að vera, — það er sú mannlega viðleitni, — að fría sjálfan sig. Þess vegna er nauðsyn á því, að dómstóllinn sé óháður. Auðvitað getur hann leitað til siglingamálastjóra eða Skipaskoðunar ríkisins, eins og hann leitar til annarra aðila, til að fá hið sanna og rétta í ljós. En grundvallaratriði er, að rannsóknin sé framkvæmd af þeim aðilum, sem eru alveg óháðir og leita að öllum atriðum, sem hafa orsakað sjóslysið. Þess vegna fagna ég því, að þetta skuli vera hér endurflutt og vænti þess, að það nái fram að ganga.