18.11.1969
Sameinað þing: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í D-deild Alþingistíðinda. (3281)

42. mál, rekstrarlán iðnfyrirtækja

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Efni þessarar till. er, að Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að Seðlabankinn veiti viðskiptabönkunum nú þegar sérstök lán til að koma rekstraraðstöðu iðnfyrirtækja í viðunandi horf. Rekstrarlán til þeirra fyrirtækja, sem sett geta viðunandi tryggingu, verði veitt í samræmi við þær lágmarksreglur, sem nú skal greina:

a. Fyrirtækin fái víxlasöluheimild (víxilkvóta) til sölu á allt að 90 daga löngum víxlum, er nemi allt að þriggja mánaða framleiðslu þeirra.

b. Auk þess fái fyrirtækin yfirdráttarheimild á reikningslánum (hlaupareikningsyfirdrátt), er svari til þriggja mánaða kaupgreiðslu viðkomandi fyrirtækis.

Að því er varðar báða ofangreinda liði, skal miðað við meðaltalsframleiðslu og meðaltalskaupgreiðslur s.l. tvö ár.

Í grg. till. er rakin nokkuð forsaga þessarar till. Hún er í stuttu máli sú, að haustið 1968 ákvað borgarstjórn Reykjavíkur að skipa sérstaka atvinnumálanefnd. Verkefni þessarar nefndar skyldi vera að fylgjast með atvinnumálum borgarinnar og gera tillögur um ráðstafanir til að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Nefndin hóf störf nokkru síðar og skilaði tillögum um ýmsar ráðstafanir til atvinnuaukningar nokkru fyrir síðustu áramót. Meðal þeirra mála, sem nefndin tók sérstaklega til meðferðar, voru rekstrarlán iðnaðarins og um það efni skilaði nefndin mjög ítarlegum tillögum. En meginatriði þeirrar till. til þál., sem hér liggur fyrir, er byggð á þessum tillögum atvinnumálanefndar Reykjavíkurborgar. Það kom fram í áliti nefndarinnar, að stór hluti verksmiðjuiðnaðarins ætti við mikla rekstrarfjárörðugleika að stríða, og væru horfur á, að hann drægist enn meira saman en orðið væri, ef ekki raknaði eitthvað úr um rekstrarfjármöguleika hans. Nefndin benti sérstaklega á það, að vegna gengisfellinganna hefði rekstrarlánaþörf iðnaðarins mjög aukizt og engar sérstakar ráðstafanir verið gerðar til að mæta þeirri auknu þörf. Þá lagði nefndin alveg sérstaka áherzlu á það, að iðnfyrirtækin fengju það, sem hún kallaði föst lán, þannig að þau gætu gengið nokkurn veginn að föstum kvóta hjá viðskiptabönkum sínum, eftir ákveðnum reglum, en það þýddi ekki neitt handahóf í þessum efnum. Slíkt fyrirkomulag taldi nefndin að mundi mjög draga úr þeirri óvissu, sem iðnaðurinn ætti við að stríða í þessum efnum, og mundi verða til að styrkja aðstöðu hans verulega. Það skal viðurkennt, að síðan þetta nál. birtist, hefur verið gert nokkuð í þá átt að auka rekstrarlán til iðnaðarins, en þó hefur enn verið allt of skammt gengið. Hin auknu rekstrarlán, sem iðnaðurinn hefur fengið á þessu ári, eru langflest stutt bráðabirgðalán, en tryggingu fyrir föstum rekstrarlánum hefur iðnaðurinn ekki fengið. Þess vegna er það, að við, sem stöndum að þessari till., teljum nauðsynlegt að gera þetta mál að þingmáli og leggja til grundvallar þær tillögur, sem atvinnumálanefnd Reykjavíkurborgar gerði haustið 1968. Við teljum, og það er líka mat iðnaðarmanna, sem ég hef rætt við, að með því að fá tryggingu fyrir föstum lánum eins og till. gerir ráð fyrir, sé rekstrinum skapað aukið öryggi, en það skal hins vegar tekið fram, að við flm. lítum á þetta sem algert lágmark og að gera þurfi miklu víðtækari ráðstafanir í þessum efnum og tryggja rekstrarlánamöguleika iðnaðarins enn betur en gert er ráð fyrir í till. Ég hef á undanförnum árum flutt till. hér á Alþ., sem hefur gengið í þessa átt, ásamt fleiri hv. þm., en hún hefur ekki fengið nægilegar undirtektir og þess vegna er það, sem þessi till. er flutt, þó að hún gangi skemmra, í þeirri von, að hún nái þá frekar samþykki þingmeirihluta. Síðan þessi till. var flutt hefur það gerzt, að ríkisstj. hefur gengið frá samkomulagi við EFTA og virðist staðráðin í því, að Ísland gangi í þetta bandalag. Það mun að sjálfsögðu þýða stóraukna samkeppni við erlendan iðnað, sérstaklega á innlendum vettvangi, og gerir þörf iðnaðarins fyrir föst rekstrarlán brýnni en ella. Það má telja nokkurn veginn víst, að þau erlendu auðfyrirtæki, sem munu selja hingað vörur í vaxandi mæli á næstu misserum og árum vegna aðildar Íslands að EFTA, geta veitt kaupendunum svo og svo langan lánsfrest. Ef íslenzkur iðnaður getur ekki veitt sams konar frest eða sams konar lán, þá verður það til þess, sennilega í langflestum tilfellum, að þeir kaupmenn, sem verzla með þessar vörur, kjósa erlendu vörurnar fremur, m.a. af þeirri eðlilegu ástæðu, að þeir búa við lánsfjárskort og verða þess vegna að nota sér þennan möguleika. Aðildin að EFTA, ef úr henni verður, gerir það óhjákvæmilegt, að gengið verði enn þá lengra til móts við þarfir iðnaðarins en gert er í þessari till. og á það vildi ég leggja sérstaka áherzlu við þá n., sem fær þetta mál til meðferðar.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þessa till. að sinni, en leyfi mér að leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.