11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í D-deild Alþingistíðinda. (3286)

42. mál, rekstrarlán iðnfyrirtækja

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Í hinni rökstuddu dagskrá frá meiri hl. allshn. er komizt svo að orði, að lánamál iðnaðarins séu nú í gagngerðri athugun hjá ríkisvaldinu. Ég hefði í tilefni af því viljað beina þeirri fsp. til hæstv. iðnmrh., hvað langt þessari athugun væri komið, og hvort vænta mætti einhverra tillagna um það á þessu þingi eða hvort ætlunin væri að leysa þessi mál, án þess að þau kæmu til kasta þingsins. Nú sé ég, að hæstv. iðnmrh. er ekki viðstaddur. Hann var að vísu viðstaddur, þegar umr. um þetta mál hófst hér í d., en er nú vikinn af fundi, og ef svo er, að hæstv. ráðh. væri kannske farinn úr húsinu og hefði þess vegna ekki aðstöðu til þess að svara þessari fsp. minni nú, þá vildi ég fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann frestaði umr., þannig að ráðh. gæti þá gefizt kostur á því síðar að svara fsp. um þetta efni.