18.11.1969
Sameinað þing: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í D-deild Alþingistíðinda. (3295)

44. mál, viðskiptafulltrúar

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Mig langar til að segja nokkur orð um þessa till. Það skal ekki vera langt.

Till. gerir ráð fyrir því, að hlutazt verði til um, að komið verði á fót skrifstofum viðskiptafulltrúa á Ítalíu og Spáni og ekki annað. Í lok máls síns sagði frsm. hv., að í frv. til l. um utanríkisþjónustu Íslands, sem liggur hér fyrir Alþ. nú, væri í 11. gr. gert ráð fyrir, að skipaðir yrðu viðskiptafulltrúar, og vildi rökstyðja sína till. með því, að þessi 11. gr. væri ekki nógu skýrt orðuð. Mér finnst aftur á móti, að með þessum ákvæðum í 11. gr. frv. um utanríkisþjónustuna sé nægilega frá því gengið, að þessir viðskiptafulltrúar verði skipaðir, ef þörf þykir, og þess vegna sé þessi till. á þskj. 44 nánast óþörf, ef frv. um utanríkisþjónustuna verður samþ. Í 11. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Auk þeirra starfsmanna utanríkisþjónustunnar, sem taldir eru í 10. gr., má skipa, þar sem þörf krefur, sérstaka viðskiptafulltrúa til takmarkaðs tíma. Skulu þeir vinna að markaðsleit fyrir íslenzkar afurðir og greiða á annan hátt fyrir viðskiptum við aðrar þjóðir.“

Ég tel fyrir mitt leyti, að viðskiptafulltrúar, sem skipaðir yrðu, gætu gert gagn og orðið til þess að treysta viðskiptin við þau lönd eða það svæði, sem þessir viðskiptafulltrúar hefðu. En ég sé ekki ástæðu til þess, þó að eðlilegt sé og gott að skipa þessa fulltrúa, að taka þessi tvö lönd út úr, sem þarna er gert. Það er heimild í frv. um utanríkisþjónustuna, eins og ég nefndi og eins og hann nefndi líka, sem gerir ráð fyrir því, að hægt verði að skipa þessa viðskiptafulltrúa, þar sem þörf krefur. Hitt finnst mér kannske nokkuð einhliða, að ákveða aðeins að skipa fulltrúa á Spáni og Ítalíu, en nefna ekkert önnur lönd. Það er vissulega verkefni fyrir viðskiptafulltrúa í öðrum löndum en þessum tveimur, vissulega. Og verkefni þessara viðskiptafulltrúa á í fyrsta lagi að vera að útvega nýja markaði fyrir íslenzkar vörur. Viðskiptin við Spán og Ítalíu eru svo gamalgróin, að þar ættu samböndin að vera í fullkomnu lagi, og viðskiptin við þessi lönd fara fram, að ég ætla, eins og bezt verður á kosið. Ég vildi þess vegna leyfa mér að leggja til, að sú n., sem fær þessa till. til athugunar og hv. flm. leggur til að verði fjvn., athugi, hvort ekki mætti að skaðlausu láta þau ákvæði, sem í frv. um utanríkisþjónustuna eru flutt, gilda fyrir alla viðskiptafulltrúa, þá á Spáni og Ítalíu líka, ef ástæða þætti til að setja fulltrúa þar. Hv. flm. gerði ráð fyrir, að þessari till. yrði vísað til fjvn. Ég held, að það væri nú fullt eins eðlilegt, að henni yrði vísað til utanrmn., því að þetta er vissulega utanríkismál. Þó að það sé vissulega viðskiptamál líka út af fyrir sig, þá er það ekki beint viðskiptamál ríkisins eins og fjvn. hefur mest með að gera. Ég vildi þess vegna, þó að ég geri það ekki að neinu kappsmáli, að till. yrði vísað til utanrmn. og þar yrði athugað, hvort ekki væri hægt að samræma hana því frv. til l., sem hér liggur fyrir um utanríkisþjónustu Íslands.