18.11.1969
Sameinað þing: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í D-deild Alþingistíðinda. (3296)

44. mál, viðskiptafulltrúar

Flm. ( Guðlaugur Gíslason ):

Herra forseti. Ég get vel á það fallizt, að till. verði vísað til utanrmn. í stað fjvn., eins og ég lagði til, og ég var satt að segja nokkuð efins um það, í hvora nefndina væri eðlilegt að vísa henni, þar sem bæði er hún fjárhagsatriði og snertir að sjálfsögðu einnig utanríkisþjónustuna, eins og hæstv. utanrrh. benti á. Hæstv. ráðh. taldi í sjálfu sér þessa till. óþarfa, þar sem heimild væri í 11. gr. þess frv. til laga um utanríkisþjónustu, sem nú liggur fyrir. Það má vel vera og ég dreg það í engan efa, að sú heimild mundi nægja, ef hún yrði framkvæmd. En ég hygg, að í þeim lögum, sem nú gilda um utanríkisþjónustuna eða þeim reglum, sem um þá þjónustu gilda, sé örugglega heimild fyrir rn. til að setja niður viðskiptafulltrúa eða jafnvel koma skrifstofum viðskiptafulltrúa á fót. Þetta er og hefur verið fjárhagsatriði, en ég tel, að leggja þurfi meiri áherzlu á það nú og eftirleiðis, að slíkum fulltrúum og skrifstofum fyrir þá verði komið á fót, en gert hefur verið hingað til. Sú er ástæðan fyrir því, að ég flutti þessa till. á síðasta þingi og endurtek hana nú. Ég fellst alveg á það með hæstv. utanrrh., að það er vissulega þörf fyrir viðskiptafulltrúa víðar en á Ítalíu og á Spáni, og ætti það ekki að verða ágreiningsmál okkar á milli, því að ég hygg, að við séum um það atriði alveg sammála. En ástæðan fyrir því, að ég flutti till. í þessu formi bæði á síðasta þingi og nú aftur, er sú, að þarna er um tvö stór viðskiptalönd að ræða, þar sem sendiráðið í Osló annars vegar á að gæta hagsmuna okkar á Ítalíu og sendiráðið í London hagsmuna okkar á Spáni, bæði viðskiptahagsmuna og annarra. Ég tel, að þetta sé allt of þunglamalegt og þarna sé þörf breytinga. Af því tilgreindi ég þau tvö lönd, sem till. fjallar um. Mér er alveg ljóst, að við höfum árum og áratugum saman haft ákveðin sambönd vegna sölu á saltfiski í þessum löndum, en sú staðreynd liggur líka fyrir, að þrátt fyrir breyttar neyzluvenjur í þessum löndum, erum við enn þann dag í dag að flytja út hálfverkaðan saltfisk í 50 kg umbúðum. Ég hygg, að hægt væri að koma þessum útflutningi í eðlilegra horf, það er staðreynd, sem mér er alveg kunnugt um. Ég hef kynnt mér það, að þessa vöru okkar er þegar farið að selja í mun smærri umbúðum, eins og við gerum nú sjálfir í Bandaríkjunum. Við önnumst umbúnað þeirrar vöru hér heima á Íslandi að nokkru leyti í neytendaumbúðum, og við höfum okkar eigin verksmiðjur í Ameríku, sem framleiða fiskblokkirnar, sem eru sendar út í stærri einingum, þ.e. verksmiðjur, sem framleiða úr blokkinni vörur, sem pakkaðar eru til neyzlu svo að segja beint á borð neytenda. Ég hygg, að það gæti vel orðið til hagræðis og kannske yrði þróunin sú, að við hefðum skrifstofu fyrir viðskiptafulltrúa í þeim tveimur löndum, sem ég þarna tilgreindi, að útflytjendur og eigendur saltfisksins sæju sér hag í að setja á stofn fyrirtæki svipað því, sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur sett á stofn erlendis. Ef neytendur á Ítalíu og Spáni eru farnir að kaupa vörurnar innpakkaðar í litlum einingum, þá hygg ég, að það væri ekki síður til hagræðis fyrir okkur að selja hluta af saltfiskinum þannig unninn beint til neytandans, eins og við gerum með hraðfrysta fiskinn, í stað þess að selja hann út í hinum stóru og gamaldags umbúðum, sem við enn gerum og höfum gert í meira en hálfa öld. Mér finnst það næsta ótrúlegt, að það sé hagkvæmt fyrir okkur nú í dag að standa að þessum málum eins og við gerum, en ég tel, að þarna þurfi að koma aðstaða opinbers aðila, sem getur veitt þær leiðbeiningar, sem nauðsynlegar eru, og aðstoðað við að koma þarna á breytingu jafnvel eins og ég talaði um, koma á fót fyrirtæki, sem annaðist dreifingu þessarar vöru okkar í smærri einingum, jafnvel beint til neytandans.