14.01.1970
Sameinað þing: 30. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í D-deild Alþingistíðinda. (3307)

59. mál, fjármagn til rannsókna í þágu íslensks atvinnulífs

Flm. ( Jón Skaftason ):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 64 till. til þál. um aukið fjármagn til rannsókna í þágu íslenzks atvinnulífs, svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera áætlun um aukið fjármagn til rannsókna í þágu íslenzks atvinnulífs og tryggja, að á næstu 5 árum hækki fjárveltingar til rannsóknarmálefna um a.m.k. 0.2% af þjóðartekjunum á ári hverju.“

Hér á landi, eins og raunar í öllum öðrum löndum, hefur hin síðari árin mjög vaxið skilningur á mikilvægi rannsóknarstarfsemi, vísindalegri rannsóknarstarfsemi, til þess að halda uppi góðum lífskjörum í hinum einstöku ríkjum. Fjárveitingar til þessarar starfsemi hafa hjá öllum ríkjum, sem telja má til menningarþjóðfélaga, að ég held undantekningarlaust farið vaxandi ár frá ári. Þá sorgarsögu er að segja víða frá, að mikill hluti af því aukna fjármagni, sem veitt hefur verið til þessarar starfsemi, hefur gengið til hernaðarmálefna, sem við Íslendingar höfum verið blessunarlega lausir við allt til þessa dags, og ég vona, að framtíðin hafi enga breytingu að því leyti til í för með sér fyrir okkur Íslendinga, svo að við þurfum ekki að eyða fjármunum til þess að undirbúa framleiðslu drápstækja til hernaðar. Það er af ýmsum ástæðum, og mörgum skýranlegum og eðlilegum ástæðum, að hér á Íslandi hefur þessum málum ekki verið gefinn eins mikill gaumur, og mikilvægi þeirra hefur ekki verið almenningi jafnljóst og víða annars staðar. Þetta stafar m.a. af því, að við eigum ekki mjög langa sögu sem sjálfstæð þjóð með forsjá eigin mála. En ég held, að ég geti fullyrt það, að núna hin síðari árin og síðustu áratugina hafi Íslendingum og ráðandi mönnum orðið æ ljósara mikilvægi þessa verkefnis, enda er það staðreynd, að ýmsir vísindamenn okkar hafa unnið á undanförnum árum umtalsverð afrek í sambandi við rannsóknarstarfsemi og get ég um tvö þeirra a.m.k. í grg. minni. Það fyrra er, að dr. Björn heitinn Sigurðsson fann upp fyrir nokkrum árum bóluefni gegn garnaveiki í sauðfé, sem talið er að spari kostnað við sauðfjárhaldið, er nemi allt að 50–60 millj. kr. á ári. Enn fremur hafa nýjar niðurstöður rannsókna leitt til þess, að mönnum er ljóst, að hægt hefði verið að spara t.d. við byggingu hinnar miklu Búrfellsvirkjunar um 40 millj. kr., ef vitað hefði verið um þá þéttingu, er verður á hraunum við framburð jökulfljóta. Ég hygg því, að óþarft sé fyrir mig að fara um þetta atriði málsins mörgum orðum. Mikilvægi þeirra er ljóst. Það, sem háð hefur rannsóknarstarfseminni hér, er ekki einasta það, að til hennar hefur verið varið of litlu fjármagni, heldur líka hitt, að fyrir fram hefur ekki verið til nein áætlun til lengri tíma um, hvernig fjárveitingum til þessarar starfsemi kynni að verða háttað. Þetta er mjög bagalegt í sambandi við skipulagningu þessarar starfsemi, að vita ekki nokkurn veginn fyrir fram, að hvaða fjárveitingum ganga má í þessu skyni, og þegar af þeirri ástæðu er hér með tillöguflutningi þessum lagt til, að gerð sé 5 ára áætlun um auknar jafnar fjárveitingar til rannsóknarstarfsemi, er vísindamenn okkar og aðrir þeir, sem skipuleggja þessa starfsemi, geti miðað sínar aðgerðir við. Við eigum á Íslandi mikið verkefni óunnið í sambandi við rannsóknir á auðlindum landsins. Ég nefni bara sem dæmi, að rannsóknir á virkjanleika vatnsfalla okkar eru að mínu viti og margra fleiri því miður allt of skammt á veg komnar og vissulega þarf á næstu árum að veita milljónatugi og helzt milljónahundruð til þeirra mála, ef vel ætti að vera. Enn fremur vitum við það, að á s.l. ári og undanfarin ár hefur mikið fjármagn verið veitt til þess að kanna auðlindir okkar, sem við eigum í jarðvarma víða um land, og hygg ég, að á s.l. ári hafi verið veitt til þeirra hluta nærri því jafnmikið fjármagn og hafði samanlagt verið veitt til þessara mála allt fram til s.l. árs. En mikið verkefni er óunnið í þeim málum. Með till. þessari er ekki lagt til að rannsaka sérstaklega, hvernig skipulagi sjálfrar rannsóknarstarfseminnar verði bezt fyrir komið. Ástæðan fyrir því er sú, að um þessi mál eru í gildi tiltölulega ný lög, þ.e. lög um rannsóknir í þágu atvinnuveganna frá árinu 1965, þannig að fyrir fram mætti ætla, að skipulag þessara mála væri í nokkuð nútímalegu horfi og þyrfti ekki, að svo stöddu a.m.k., sérstakrar endurskoðunar við. En sýni reynslan, að í einhverju sé skipulagi þessu áfátt, þá er að sjálfsögðu opið að framkvæma rannsókn og endurskoðun á þeim málum hvenær sem er, þó að ekki sé gerð um það tillaga hérna. Ég hef birt í grg. minni töflu um það, hversu fimm tiltekin þjóðlönd, Ísland, Svíþjóð, Noregur, Bandaríkin og Bretland, hafa varið stórum hluta þjóðartekna sinna til þessara mála, og af þeim samanburði, sem er annars vegar miðaður við árið 1950 og hins vegar við árið 1966, sést, að við Íslendingar höfum dregizt mjög aftur úr þessum samanburðarþjóðum um fjárveitingar til rannsóknarmála. En eins og ég gat um áðan, þá gengur verulegur hluti af fjárveitingum t.d. Bandaríkjanna til þess að standa undir rannsóknum í sambandi við hernaðarmálefni þess stórveldis, sem við erum lausir við. Engu að síður hygg ég, að draga megi þá öruggu ályktun af þeim tölum, sem nefndar eru í grg., að við höfum dregizt aftur úr um fjárveitingar til rannsóknarmálefna, þó að tekið sé tillit til þess, að samanburðarlöndin öll, önnur en við, verja verulegum hluta af þessum fjárveitingum til hernaðarmálefna. Við svo búið má ekki standa. Það eru engar frambærilegar skýringar á því, að við getum ekki veitt til þessara mála svipuðum hluta þjóðartekna okkar og aðrar þjóðir gera, og það gefur auga leið, að ef svo fer fram um einhvern tíma. þá hlýtur það að koma niður á lífskjörum Íslendinga.

Ég sé svo ekki, herra forseti, ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þáltill. þessa. Ég legg til, að umr. um hana verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.