29.01.1970
Neðri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

156. mál, Iðnþróunarsjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil biðja velvirðingar á því, að frv. til l. um Iðnþróunarsjóðinn skuli ekki vera fyrr komið fram og á það rætur sínar að rekja til nokkurra mistaka. Ég vil þó mega vona, að það þurfi ekki að valda því, að þinginu auðnist ekki að afgreiða þetta mál nú fyrir fundarhlé vegna Norðurlandaráðsins. Það er því fremur vegna þess, að hér er í raun og veru um einfalda löggjöf að ræða, þar sem meginatriði hennar er, að ríkisstj. skuli vera heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd samning ríkisstj. Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um stofnun norræns iðnþróunarsjóðs fyrir Ísland, sem gerður var í Rvík 12. des. 1969. En einmitt þessi samningur hefur áður legið fyrir hér í þinginu sem fskj. með þáltill. um aðild Íslands að Fríverzlunarsamtökum Evrópu og efni samningsins er kunnugt þm. Það sem í lögunum er að öðru leyti, má segja, að sé fremur formsatriði, en það er, að sjóðurinn skuli nefnast hér Iðnþróunarsjóður, hann er kallaður Norrænn iðnþróunarsjóður í samningsgerðinni, en af hentugleikaástæðum var talið eðlilegra, að hann héti hér á landi Iðnþróunarsjóður, en það stangast ekki heldur á við önnur sjóðsheiti hér á landi og á þess vegna ekki að valda neinum misskilningi.

Að öðru leyti eru svo ákvæði um stjórnir sjóðsins, nánar gerð grein fyrir þeim. Það má segja, að augljóst sé af samningnum um sjálfa sjóðsstjórnina, þ.e.a.s. sem skipuð er fulltrúum frá öllum Norðurlöndunum, 5 manna stjórn, en framkvæmdastjórnin átti að vera skipuð úr bankakerfinu og það eru ákvæði um það í 4. gr., að iðnrh. skipi 5 menn í framkvæmdanefnd sjóðsins eftir tilnefningu Seðlabanka Íslands, Landsbanka Íslands, Iðnaðarbanka Íslands og Iðnlánasjóðs, sem hver tilnefnir einn mann og Útvegsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, sem tilnefna einn mann sameiginlega. Hér er farin sú leið að taka tilnefningar frá þeim aðilum, sem mest eru riðnir við störf og framkvæmd á störfum sjóðsins og er þá miðað við það fjármagn, sem viðkomandi viðskiptabankar og sjóðir hafa í iðnaðinum. Landsbanki Íslands og Iðnaðarbankinn eru þar stærstu aðilarnir, en útlán þessara aðila til iðnaðar munu vera nálægt 500 millj. kr. hjá hvorum. Síðan er Iðnlánasjóðurinn með nálægt 400 millj. kr. í útlánum núna. Honum vex að sjálfsögðu jafnt og þétt fiskur um hrygg og verður innan tíðar sá, sem hefur mest fjármagn þessara aðila í útlánum, eins og hann er uppbyggður. En Útvegsbanki og Búnaðarbanki eru með svipuð útlán í iðnaði, um eða kringum 300 millj. kr. Það er rétt að segja það, að í sjálfu sér hefði kannske verið æskilegast, að sjóðsstjórnin — framkvæmdastjórnin — hefði verið skipuð 6 mönnum, þ.e.a.s. að Útvegsbankinn hefði getað tilnefnt einn og Búnaðarbankinn einn. En það var hins vegar ákveðið í samningnum um sjóðinn, svo að þessu gátum við ekki breytt. Hygg ég, að gott samkomulag geti náðst um þetta fyrirkomulag, þannig að í raun og veru standi allir þessir aðilar að framkvæmdastjórninni. Í EFTA–nefndinni á sínum tíma, þegar rætt var um, hvaða hátt menn vildu hafa á þessari framkvæmdastjórn, þá var það sameiginleg skoðun, ég held mér sé óhætt að segja allra aðila, bæði stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga, að hentugast væri, að það væru fulltrúar frá bankakerfinu og viðskiptabönkunum og Iðnlánasjóði þá líka, en við það sköpuðust náin tengsl, sem mikilsverð voru að áliti allra nefndarmanna, milli stjórnar fjárfestingarsjóðs eins og Iðnþróunarsjóðurinn er og þeirra viðskiptabanka og annarra aðila, sem lána til iðnaðarins.

Það er, eins og gefur að skilja, mjög mikilsvert fyrir iðnaðinn, að þær venjur og reglur mótist hér, þegar ákvarðanir eru teknar um fjárfestingarlán til hans, að þá sé um leið um það rætt og jafnvel fastmælum bundið á milli aðila, sem ætti að geta orðið í svona framkvæmdastjórn, hvar viðkomandi aðili mundi hafa sín viðskiptalán. Enda þykir það nú vera nauðsynlegur háttur, sem því miður hefur oft verið misbrestur á, á fyrri árum hjá okkur, að menn geri sér í upphafi grein fyrir rekstrarfjárþörf við það fyrirtæki, sem verið er að stofnsetja, um leið og fjárfestingarþörfin er metin og sótt um stofnlán.

Önnur ákvæði eru í samræmi við það, sem gert hefur verið ráð fyrir í samningnum og þarf því ekki að fjalla frekar um. Sjálfur samningurinn er í slíku tilfelli fylgiskjal með löggjöfinni.

Um athugasemdir við frv. þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Þar er gerð grein fyrir því, sem þm. hefur áður verið gerð grein fyrir, hvernig hugmyndin að sjóðnum er til komin, til að reyna að auka gagnkvæm viðskipti Íslendinga og hinna Norðurlandanna fjögurra, þar sem því miður hefur hallazt mjög á, á undanförnum árum og einnig að auðvelda Íslendingum viðskipti sín almennt innan Fríverzlunar samtakanna. Þessi sjónarmið voru af hálfu Norðurlandanna, fulltrúa í þeirra eigin ríkisstjórnum, viðurkennd að þau væru mikils virði og þess vegna vel tekið undir þessar hugmyndir að stofna hinn svokallaða Norræna iðnþróunarsjóð. En augljóst mál var það, að einmitt við inngönguna í EFTA og til þess þá einnig að herða á eðlilegu jafnvægi í viðskiptum sérstaklega á milli Norðurlandanna og Íslands, var eiginlega íslenzkum iðnaði þörf mjög verulegs aukins fjármagns. Af þessum sökum var það svo, að sjóðurinn var endanlega ákveðinn í ísl. kr. 1.232 millj. og með þeirri skiptingu, sem hv. þm. er kunnugt um og gerð er grein fyrir í athugasemdum.

Loks vil ég aðeins minna á, að hér hefur verið látið fylgja í fskj. áætlun frá Seðlabanka Íslands. Óskað var eftir því, að hann gerði nokkra áætlun um sjóðinn, hvernig hann byggði sig upp og hvernig fjármagn hans mundi vera, en eins og tekið er fram af Seðlabankans hálfu, þá er byggt á gefnum forsendum, sem þurfa ekki endilega að vera með þeim hætti, sem bankinn hefur gert ráð fyrir. Það er þess vegna meira sett fram til þess, að þm. geti áttað sig á, hvernig í raun og veru sjóðurinn muni þróast, en hann er eins og kunnugt er með þeim hætti, að þegar 10 ár eru liðin, þá eigum við Íslendingar aftur að fara að greiða, en að vísu vaxtalaust, framlagið frá hinum Norðurlöndunum. Þess vegna, eftir að höfuðstóllinn hefur náð hámarki eftir 10 ár, þá fer sjálfur höfuðstóllinn nokkuð að minnka vegna endurgreiðslnanna, sem þá nema nálægt 80 millj. kr. árlega í 15 ár. Eftir 25 ár hefur stofnféð verið endurgreitt og þá er sjóðurinn orðinn að eign okkar Íslendinga einna og starfi sjóðurinn þá áfram, sem auðvitað má telja mestar líkur á, þá þarf bæði að setja honum nýja löggjöf og nýjar reglur. En þá hefur hann aukna möguleika til þess að halda áfram að vaxa, eins og venjulegir stofnfjársjóðir gera. Hér er nokkurt frávik á þessu tímabili. Það kemur einnig fram, að sjóðurinn hefur mest fé til ráðstöfunar á fyrstu árunum, en það er m.a. vegna þess, að gert er ráð fyrir, að þá sé mest þörf fyrir, að hagnýtt verði til fulls heimildin í samningnum um sjóðinn að verja allt að 10% af stofnfénu til sérstakra lána með hagkvæmum kjörum eða beinlínis til framlaga til þess að stuðla að rannsóknum, tækniaðstoð og markaðskönnunum.

Ég hygg svo, herra forseti, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð til skilgreiningar á þessu frv., en vil mælast til þess, að frv. verði að lokinni umr. vísað til iðnn. og 2. umr. Og þá vil ég biðja hv. n. að hafa í huga þann möguleika, að við getum gengið frá þessu frv. um sjóðinn fyrir þinghlé, alla vega þannig, að löggjöf um hann liggi fyrir, þegar ráðgert er, að við verðum aðilar að EFTA 1. marz. En það þarf auðvitað verulegan undirbúning til starfsemi slíks sjóðs og er þegar hafið í rn. að undirbúa starfsemi sjóðsins, þar til að því kemur, að honum verði sett stjórn, sem ekki yrði þá fyrr, en á því tímabili, að sjálf þátttakan í EFTA verður raunhæf, en það er hins vegar verulegt atriði, að undirbúningur þess, viðræður við hin Norðurlöndin líka, fari fram, svo að allt geti tekið gildi í einu, þátttakan í EFTA og formleg skipun í sjóðinn eftir þann undirbúning, sem nú þarf að fara fram, meðan málið er í burðarliðnum.