11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í D-deild Alþingistíðinda. (3327)

71. mál, sumardvalarheimili fyrir kaupstaðarbörn

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég sýndi fram á það áðan, að hér væri ekki verið að fara fram á neinar stofnanir eða fjárframlög af ríkisins hálfu að öðru leyti en því að skipa þessa einu nefnd til að undirbúa málið, og gera það í samráði við kaupstaði og kauptún í landinu. Þetta er það, sem till. fer fram á og ekkert annað. Ég kalla það þess vegna lítil heilindi að segja, að málið sé mikilvægt og undirstrika það sérstaklega og leggja svo til, að því sé vísað burt. Hv. þm. nefndi það, að það hefði oft komið fram og hann væri þeirrar skoðunar, að nefndir væru skipaðar til þess að svæfa mál og hindra, að mál komist fram. Ég vil nú biðja einhvern hv. þm. að koma þessum skilaboðum beint til ríkisstj., hvort hún kannist nokkuð við þetta. Það er stuðningsmaður hennar, sem bendir á þetta.

Ég held, að hér sé um uppeldismál að ræða, sem hefði ekki verið til of mikils mælzt, að ríkisstj. hefði stutt að, að yrði komið á betri grundvöll og á skipulegan hátt unnið að því í landinu, eins og hérna er lagt til, alveg án tillits til þess, hvort ríkið geri þetta eða sveitarfélögin geri það eða báðir þessir aðilar geri það í sameiningu, hvort heldur sem yrði. Þetta er svo mikið menningarmál fyrir kaupstaðarbörnin og unglingana, að ég tel það kæruleysi að vilja heldur láta þessi börn hafast við á götum kaupstaða og höfuðborgar heilu sumrin en að gera eitthvað í þá átt að koma þeim út í náttúruna til heilbrigðari viðfangsefna. Þess vegna finnst mér afgreiðsla hv. meiri hl. svo lágkúruleg, að engu tali tekur.