29.01.1970
Neðri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

156. mál, Iðnþróunarsjóður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og hefur komið fram hjá hæstv. iðnrh., þá er kannske ekki mikil ástæða til þess, að langar umr. verði hér um þetta mál, því að hér er í rauninni fyrst og fremst um staðfestingu á gerðu samkomulagi að ræða, sem þinginu hefur þegar verið gerð grein fyrir. Hér er um stofnun sjóðs að ræða, sem vissulega getur komið að gagni, ef vel tekst til með framkvæmdina.

Ég vildi aðeins segja það í tilefni af því, sem kom fram í ræðu hans, að það mundi hafa verið sameiginlegt álit fulltrúa í EFTA–nefnd, sem hefðu athugað þessi mál á sínum tíma, að heppilegast væri, að í framkvæmdastjórn sjóðsins yrðu fulltrúar frá bankakerfinu, að þetta er ekki rétt hvað mig áhrærir. Ég hef ekki verið á þeirri skoðun og er ekki á þeirri skoðun. Ég held, að það hefði farið betur að hafa þetta á annan veg. En þetta er ekkert meginatriði. Mín skoðun er sú, að það hefði verið miklu eðlilegra, að það hefði verið skipuð sérstök framkvæmdastjórn fyrir þennan sjóð, sem síðan hefði haft, eins og gert er ráð fyrir í samkomulaginu, náið samstarf við bankakerfið eða þá aðila, sem hafa með stofnlánaveitingar til iðnaðarins að gera. Ég vil einnig segja það, að ég tel fyrir mitt leyti, að eigi fulltrúar bankanna að vera í þessari framkvæmdastjórn, sem ég tel talsvert gallað, þá tel ég eðlilegra, að það væru aðeins fulltrúar viðskiptabankanna, ekki fulltrúar Seðlabankans. Ég tel, að þetta samrýmist í rauninni ekki þeim grundvelli, sem lagður er að störfum Seðlabankans, að hann sé með fulltrúa í svona lánastofnun, sem fjallar um lánveitingar til einstakra aðila. Ég teldi miklu eðlilegra, að hann ætti ekki fulltrúa í þessari framkvæmdastjórn.

En svo er hér eitt atriði, sem ég óska eftir að verði upplýst nokkru nánar, ef ekki við 1. umr., þá við þá n., sem fær málið til athugunar, en það er, að hér er um þýðingarmikinn stofnlánasjóð að ræða fyrir iðnaðinn, en eins og fram hefur komið í umr. hér áður, þá er það nokkuð óljóst, hvað talið er flokkast undir iðnað hér í landi og það skiptir því allmiklu máli, hvaða aðilar það eru, sem geta raunverulega átt von á því að fá lán eða fyrirgreiðslu úr þessum sjóði. Ég spyr t.d. um það, en legg ekki neina höfuðáherzlu á að fá svar við því við þessa umr., en það komi þá fram við nefndarstörf. Getur fiskiðnaðurinn fengið lán úr þessum sjóði, fiskiðnaðurinn almennt, þar á ég t.d. við frystihús og annan slíkan fiskiðnað, síldarverksmiðjur, fiskmjölsverksmiðjur og annan slíkan fiskiðnað, eða geta t.d. niðursuðu– og niðurlagningarverksmiðjur eða aðrar tegundir af fiskiðnaði flokkazt undir þessa lánveitingu, eða geta þessir aðilar ekki fengið lán úr þessum sjóði? Eru mörkin kannske þau sömu, sem hér voru skilgreind í sambandi við EFTA–umr. af hæstv. viðskrh., þar sem hann tók t.d. frystihúsarekstur og slíkan fiskiðnað út úr og taldi hann með sjávarútvegi, en hins vegar taldi hann með iðnaði niðursuðu og niðurlagningu og þá verksmiðjurekstur í vissum öðrum tilvikum, þar sem viðurkennt væri, að slík framleiðsla flokkaðist undir EFTA–meðferð? Ég álít, að það sé nauðsynlegt, að þetta fái að koma hér fram, hvaða greinar iðnaðar geta raunverulega flokkazt hér undir. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða málið frekar hér við 1. umr. Það fer til n. og fær þar sína athugun.