29.01.1970
Neðri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

156. mál, Iðnþróunarsjóður

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Í till. á undanförnum þingum og í umr. um iðnaðinn hefur af okkur framsóknarmönnum verið bent á nauðsyn þess að útvega iðnaðinum í landinu aukið fjármagn og í umr. um EFTA–málið lögðum við áherzlu á það, að iðnaðurinn í landinu væri ekki nógu vel undir það búinn að taka þátt í þeirri samkeppni, sem fram undan væri í sambandi við EFTA–aðildina og að brýn nauðsyn væri til að nota tímann vel til að búa íslenzkan iðnað undir það. Nú hefur hins vegar verið ákveðið, að Ísland gengur í EFTA eftir rúmlega mánuð og okkur er það ljóst, framsóknarmönnum og leggjum á það mikla áherzlu, að þjóðin verður að sameinast í þeim verkefnum til þess að standa sem bezt að því máli og hagnýta sér sem bezt þá möguleika, sem hún kynni að eiga á því sviði. Enda þótt mönnum hefði getað sýnzt sitt hvað um málið í heild, meðan það var á afgreiðslustigi, þá er það nú á því stigi, að sameinast þarf til átaka til þess að búa atvinnuvegi þjóðarinnar sem bezt undir þetta samstarf.

Einn þátturinn í EFTA–málinu var Iðnþróunarsjóðurinn, og það gerðu sér allir grein fyrir því, að þar voru á ferðinni fjármunir, sem iðnaðurinn þurfti á að halda og þarf að hagnýta. Framsfl. mun því ekki leggja stein í götu þessa máls, nema síður sé, enda gerði hann það ekki við EFTA–málið í heild.

Það eina, sem ég vildi segja í sambandi við þetta frv., sem lítill tími hefur verið til þess að skoða, – stefnan var áður mörkuð, svo að hún var kunn, – það er um sjóðsstjórnina, að hún nær yfir mjög takmarkað svið og er mjög á valdi hæstv. ráðh., sem með þetta mál fer, hvernig til tekst með þá skipan. Hér getur verið um einhliða skipan á flestum sviðum að ræða, ef þannig verður á haldið. Í okkar bankakerfi hefur það verið svo, að það hefur verið tekið tillit til ýmissa hluta á sviði atvinnúmála og einnig stjórnmála. Og það skiptir verulegu máli í þessu sambandi, þegar þessi stjórn verður skipuð, sem er eingöngu skipuð eftir viðhorfi bankanna, að það sé einnig tekið tillit til þeirra mála, sem lögð eru til grundvallar við skipan bankastjórastarfanna.

Að öðru leyti mun ég ekki orðlengja um þetta frv. við

þessa umr., enda gefur það ekki sérstakt tilefni til umr. hér, og get endurtekið, að það hefur alltaf verið okkar stefna og okkar till., að iðnaðurinn í landinu þyrfti aukið fjármagn og án aukins fjármagns mundi hann ekki geta orðið sá atvinnuvegur í okkar þjóðfélagi, sem við stefnum að og viljum að hann verði.