29.01.1970
Neðri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

156. mál, Iðnþróunarsjóður

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mig langaði með örfáum orðum að gera athugasemd við eitt atriði í þessari samningsgerð, sem ekki hefur enn borið á góma í þessari umr., sem hér hefur orðið. Það er það atriði í samningi þeim, sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert við ríkisstjórnir annarra Norðurlanda, að stofnfé það, sem lagt er fram, skuli vera vaxtalaust.

Það hefur verið skýrt frá því í almennri skýrslu í sambandi við EFTA–aðildina, að upptök þessa máls hafi verið þau, að hæstv. forsrh. Íslands hafi snúið sér til ríkisstj. annarra Norðurlanda og farið fram á það, að þessi sjóður yrði stofnaður á þennan hátt. Hæstv. ráðherra hafði sem sé farið fram á það, að ekki aðeins fengjum við lánsfé hjá öðrum Norðurlöndum, heldur að ekki yrðu greiddir vextir af þessu lánsfé, en þetta jafngildir því að sjálfsögðu, miðað við venjuleg lánaviðskipti, að það var farið fram á beina peningagjöf af okkar hálfu. Ég tel þetta vera mjög óeðlilega málaleitun og algerlega ástæðulausa. Enda þótt fjárhagsaðstæður okkar hafi verið erfiðar á ýmsan hátt, þá voru þær ekki svo erfiðar, að við þyrftum að fara fram á slíkt sem þetta. Þetta hefur verið varið með því af hæstv. viðskrh., að í sambandi við aðild að EFTA mundu önnur Norðurlönd hagnast meira á viðskiptum við okkur, heldur en við af viðskiptum við þau, vegna þess að þannig væri samskiptum þessum háttað. Nú var aðild að EFTA rökstudd með því af ríkisstjórn Íslands, að við mundum hagnast á henni, – við mundum ekki tapa á henni, við mundum hagnast á henni. Og ef hæstv. ríkisstjórn trúir sjálf á þessar röksemdir, þá höfum við að sjálfsögðu engar forsendur til að fara fram á neinar bætur vegna þess, að við gengjum í EFTA. Ég þekki ekki heldur nein þau EFTA–sjónarmið, sem segi til um það, að það eigi að vera jafnvægi í viðskiptum einstakra ríkja innan EFTA, þannig að þarna er greinilega um blekkingar að ræða. Það, sem þarna gerist, er einvörðungu það, að ríkisstjórn Íslands notar sér það, að hún veit, að við njótum velvildar annars staðar á Norðurlöndum og að frændþjóðir okkar þar vilja gera vel við okkur. En slíka vinsemd eigum við ekki að misnota á þennan hátt. Fjármunir eru að vísu mikilvægir, en sjálfsvirðing getur verið enn þá mikilvægari og með því að leggjast svona lágt aftur og aftur, eins og gert er af íslenzkum stjórnarvöldum, þá erum við að lama sjálfsvirðingu okkar sjálfra og þar erum við að vinna okkur tjón, sem engan veginn verður bætt með þeim fjármunum, sem við kunnum að afla með þessu móti.

Þessi samningur hefur þegar verið gerður og það er að sjálfsögðu ekki raunsætt að koma með till. um, að honum verði breytt. En ég vildi við 1 . umr. þessa máls, að þessar athugasemdir af minni hálfu yrðu skráðar í þingskjöl.