29.01.1970
Neðri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

156. mál, Iðnþróunarsjóður

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þessar skýringar. Hann greindi frá því að í viðræðum íslenzkra ráðherra við ráðherra annarra Norðurlanda hafi sú ósk ekki verið borin fram í upphafi af Íslendingum, að við fengjum þetta fjármagn vaxtalaust. Og hann sagðist vilja taka þetta fram, til þess að það væri skýrt, að við hefðum ekki farið fram á neitt, sem ekki væri í samræmi við sóma Íslands. Ég gat ekki skilið þetta öðruvísi en svo, að hæstv. ráðherra hefði talið það ósæmandi fyrir okkur Íslendinga að fara fram á þetta. Það er ekki hægt að skýra þessi ummæli hæstv. ráðherra á annan hátt. En um það, hvernig þessi hugmynd hefði fæðzt, fengum við enga vitneskju. Hæstv. ráðherra sagði aðeins, að hugmyndin hefði orðið til. Einhvers staðar hlýtur hún að hafa orðið til. Einhver hefur orðað hana fyrst og það væri afar fróðlegt að fá um það frekari vitneskju hjá hæstv. ráðh. Ég skal engan veginn draga í efa það, sem hann hefur sagt um málflutning íslenzkra ráðherra í þessum viðræðum. En á hitt vil ég minna, að það gerðist um svipað leyti, að hæstv. forsrh. átti um það viðræður við sænsk stjórnarvöld, hvort þau væru ekki reiðubúin til þess að veita íslenzkum námsmönnum í Svíþjóð aðgang að sænsku námslaunafé, vegna þess að Lánasjóður íslenzkra námsmanna væri ekki nægilega öflugur til að tryggja íslenzkum námsmönnum sömu kjör og sænskir hafa. Það var farið fram á það af hálfu íslenzkra stjórnvalda, að sænsk stjórnarvöld hlypu þarna undir bagga. Þetta er ástæðan fyrir því, að ég taldi engan veginn ólíklegt, að þessi hugmynd um vaxtalaust fé hefði komið frá íslenzkum stjórnarvöldum, þó að ég sé engan veginn að vefengja það, sem hæstv. ráðherra segir.

En jafnvel þó að þessi hugmynd hafi í rauninni komið frá öðrum, þá var algerlega ástæðulaust fyrir stjórnarvöld okkar að fallast á hana. Það var tvímælalaust vinsemdarvottur af ríkisstjórnum annarra Norðurlanda að láta okkur hafa þetta lánsfé, og við gátum vel greitt fyrir þetta lánsfé hóflega vexti. Það átti hreinlega að vera afstaða ráðherra okkar í þessum viðræðum, að við vildum greiða hóflega vexti af þessu lánsfé. Hvaðan svo sem þessar hugmyndir hafa komið, þá er ekki mikil reisn í því að þiggja þessi kjör heldur.