29.01.1970
Neðri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

156. mál, Iðnþróunarsjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil aðeins út af ræðu hv. síðasta ræðumanns, 1. þm. Vestf., segja örfá orð. Hann segir sem svo, að hann telji, vegna þess að við fáum þarna vaxtalaust lán, sem við endurgreiðum á 25 árum, þá megi telja, að svo sé komið fyrir Íslandi, að við séum eins konar þurfalingar í samfélagi þjóðanna, að við séum komin niður á það svið, að sveitarstyrkur hafi verið veittur vaxtalaust o.s.frv. og var ýmislegt annarlegt sagt í þessu sambandi. Og hann var jafnvel að leggja það til, að n., sem fengi frv. til meðferðar, spyrðist fyrir um það, grennslaðist eftir því, hvort við gætum ekki fengið að borga vexti af þessu. Ég vil segja þessum hv. þm. það, að ef hann álitur, að við séum komin niður á eitthvert annað svið en við áður höfum verið á, þá hefur Ísland þegið stórkostlegt gjafafé frá öðrum þjóðum, án þess að hann hafi nokkuð — eða hans flokkur — tekið nærri sér að taka á móti því né nokkurn tíma borið fram, að það væri endurgreitt. (Gripið fram í.) Það hefur þó Framsfl. gert og undir forsæti formanns Framsfl. Ég minni hér aðeins á Marshall–aðstoðina á því sviði og margs konar hlunnindalán, sem í tengslum við hana voru á sínum tíma og voru menn þó ekki kallaðir þurfalingar.