18.03.1970
Sameinað þing: 39. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í D-deild Alþingistíðinda. (3443)

175. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Á árinu 1966 var lögð fram hér á hinu háa Alþ. yfirlitsskýrsla eða grg. frá fjmrn. varðandi staðgreiðslukerfi opinberra gjalda. Var sú skýrsla saman tekin til þess að hv. alþm. gætu gert sér til hlítar grein fyrir því, eða a.m.k. til nokkurrar hlítar, í hverju þetta kerfi væri fólgið, hver reynsla hefði af því orðið, og þá eftir atvikum markað stefnu um það, hvort rétt væri að taka upp það kerfi hér á landi eða ekki. Það hefur lengi verið á dagskrá víða, að rétt væri að stefna að því að taka upp staðgreiðslukerfi hérlendis, svo sem gert hefur verið í allmörgum löndum í vaxandi mæli, en hins vegar var það jafn ljóst, að hér er um mjög flókið mál að ræða, sem bezt sést á því, að í ýmsum löndum hefur það tekið mörg ár að koma kerfinu á, frá því að það var samþ. og stafar það fyrst og fremst af því, hversu mikilla breytinga var þörf á gildandi skattheimtukerfi og mikillar kynningar var þörf á þessu nýja kerfi. Till. sú, sem þá var lögð fram og fylgdi þeirri grg., er ég gat um af hálfu rn., var um það, að Alþ. markaði stefnu í þá átt, að rétt væri að vinna að því að innleiða slíkt kerfi, og að ríkisstj. yrði falið að vinna að frekari undirbúningi málsins. Alþ. kaus þá aðferð, sem ég að sjálfsögðu hafði ekkert á móti, að rétt væri heldur að setja í þetta mþn., og var gerð um það ályktun í aprílmánuði 1967, að kosin skyldi sjö manna nefnd, sem tæki þetta mál til frekari athugunar, kannaði efnið í einstökum atriðum og leitaði álits þeirra aðila, sem málið fyrst og fremst varðar, bæði sveitarfélaga, vinnuveitendasamtaka og verkalýðssamtaka, og síðan var í lokum þeirrar till. svo að orði komizt að „leiði athuganir þessar og viðræður til jákvæðrar niðurstöðu og samkomulags um viðhlítandi kerfi, skal ríkisstj. undirbúa nauðsynlega löggjöf í því sambandi.“ Þessi nefnd hefur síðan starfað undir forustu Ólafs Björnssonar prófessors. Þar sem þetta var þingkjörin nefnd, taldi rn. það ekki vera á sínu valdi eða ekki vera í sínum verkahring, að leggja neinar nánari línur fyrir nefndina eða ráða neinu um starfstilhögun hennar eða vinnubrögð. Nefnd þessi skilaði áliti fyrir ekki alllöngu síðan með þeim hætti, sem eðlilegt var. Það var nú um áramótin, að skýrsla um málið var afhent forsetum Alþ. og nál. þá hér útbýtt, þannig að hv. þm. hefur gefizt kostur á því nú um alllangt skeið að kynna sér niðurstöður þessa nál. og marka sér þá væntanlega skoðanir um það, hvernig rétt væri að þessu máli að standa, og hvort afstaða þeirra þá, eftir að hafa kynnt sér þetta mál í einstökum atriðum, svo sem það liggur fyrir í skýrslunni, leiddi til jákvæðrar niðurstöðu eða ekki.

Ég vil taka það skýrt fram, að ég álít, að þessi nefnd hafi unnið mjög mikið og gott verk og hún hafi kannað þetta mál til svo mikillar hlítar, að það eigi að vera hægt að gera sér fullkomlega grein fyrir því, hvort hér sé samkv. tillögum nefndarinnar farið inn á rétta braut eða ekki, og hvort kerfið muni hafa þær afleiðingar, sem menn hafa vonazt til, að staðgreiðslukerfið hefði, ef það yrði innleitt.

Nú er það að vísu svo, að ekki er algjör samstaða um þessar tillögur nefndarinnar. Þær eru ekki, eins og menn sjá, formaðar sem tillögur í frv.-formi, heldur er þar skilgreint, hvaða vandamál er við að glíma og hvernig hugsanlegt væri að mæta þeim og sums staðar bent á fleiri en eina leið til þess að taka á þeim viðfangsefnum. En ágreiningur er um nokkur veigamikil framkvæmdaratriði innan nefndarinnar. Má því segja e.t.v., að með hliðsjón af hinni fyrri þál. réttlæti það að taka málið hér aftur til meðferðar, að nefndin hafi ekki orðið sammála. Þó tel ég það ekki meginástæðuna til þess, að ég legg þetta mál hér aftur fyrir og hið um nýja viljayfirlýsingu Alþ., heldur hitt; að ég álít, að komið hafi fram í þessari síðari skýrslu svo mörg ný atriði, að æskilegt sé, að Alþ. taki aftur afstöðu til málsins. Og ég vil jafnframt taka það fram, að þáltill.; þó að hún sé orðuð á þann hátt, sem hér er gert, að ríkisstj. sé falið að undirbúa fyrir næsta þing frv. um staðgreiðslukerfi opinberra gjalda í meginefnum í samræmi við tillögur umræddrar nefndar, þó ber ekki að líta á það sem skilyrðislausa skoðun mína eða ríkisstj. um, að þannig skuli að málinu staðið, heldur er þetta aðeins til þess, að málið beri að þinginu með sama hætti og það lauk málinu, þegar umrædd nefnd var kjörin. Enda þótt ég geti lýst því yfir, að ég hafi ekki breytt minni skoðun um það, að í grundvallarefnum sé rétt að taka upp staðgreiðslu opinberra gjalda, leiðir þessi athugun nefndarinnar í ljós, að mál þetta er ekki eins einfalt og margir kynnu að hafa látið sér detta í hug á undanförnum árum og alls ekki jafnjákvætt á öllum sviðum né hafi í sér fólginn þann lífselexír til lækninga á skattkerfi og skattgreiðslum hér á landi, sem oft hefur verið vikið að og menn hafa gjarnan gerzt talsmenn fyrir. Þetta hygg ég, að eigi við um fleiri menn en mig, sem hafa skoðað þetta mál, og þess vegna sé það alveg nauðsynlegt, áður en lögð er í það mikil vinna, sem vitanlega þarf að leggja fram enn, þótt þetta nál. sé í sjálfu sér ítarlegt, að aftur sé mörkuð afstaða Alþ. um það, hvort þingið vill halda áfram á sömu braut, og þá tel ég að sjálfsögðu eðlilegt, að á þessu stigi sé ekki um annað að ræða en að ríkisstj. sé falið að undirbúa löggjöfina, og af þeim sökum hef ég lagt til, að málið kæmi hér til kasta Alþ. að nýju.

Ég sé enga ástæðu til þess að rekja nál. það, sem hér hefur verið til meðferðar hjá þm. í nokkrar vikur og þeir hafa haft grundvöll til þess að kynna sér, og ég tel ekki þörf á því, að farið sé að efna til umr. um það álit út af fyrir sig. Ég vil aðeins benda á þá meginstaðreynd, sem fólgin er í álitinu, og ég er á engan hátt að vita, það má ekki skilja orð mín svo, heldur aðeins að upplýsa, að sýnilega hefur það verið meginsjónarmið nefndarinnar að aðlaga staðgreiðslukerfið í meginefnum ríkjandi skattkerfi, sem við búum við, en ekki að umskapa skattkerfið. Þetta er nauðsynlegt, að menn hafi í huga. Það er að vísu gert ráð fyrir ýmsum víðtækum fyrirkomulagsbreytingum, sérstaklega í sambandi við útsvarsmálin, en ég held, að í meginefnum megi þó segja, að það sé rétt, að leitazt sé við að aðlaga þetta núgildandi kerfi, en ekki breyta um skattheimtuaðferðir eða tegundir skatta, og það er gert ráð fyrir því, að inn í kerfið falli 20 tegundir skatta. Nú er það auðvitað ljóst, enda kemur það greinilega fram í skýrslu nefndarinnar, að því flóknara sem skattkerfið er, sem staðgreiðslan á að taka til, því kostnaðarsamara og flóknara verður kerfið í framkvæmd. Á þessu er nauðsynlegt að vekja athygli. Og þess vegna er þar vísvitandi sett sú setning, sem er síðari setning umræddrar ályktunartillögu, að leitazt skuli við að gera skattheimtukerfið það einfalt, að staðgreiðsla opinberra gjalda auki ekki kostnað og fyrirhöfn við álagningu og innheimtu gjaldanna. Ég tel nauðsynlegt, að það komi fram til athugunar fyrir hv. nefnd, að með þessu orðalagi á ég við, að stefnt verði að því að breyta í verulegum efnum frá þeim tillögum, sem nefndin er með, ef þess reynist kostur, í þá átt að aðlaga skattheimtukerfið meira staðgreiðslukerfinu, þ.e. reyna að breyta ýmsum grundvallaratriðum skattkerfisins.

Þetta eru þau meginatriði, sem ég vildi leggja áherzlu á fyrir hv. nefnd, sem fengi þetta til meðferðar og til upplýsinga fyrir hv. þm., hvernig stendur á því, að ég tel æskilegt, að þetta komi aftur til kasta þingsins. Það er að minni hyggju ákaflega mikil nauðsyn á því, að staðgreiðslukerfið verði framkvæmt þannig, að sem allra minnst þurfi að koma til eftirreiknings. En til þess að svo megi verða, þarf skattkerfið sjálft að vera einfalt. Það mega ekki vera á því margir stigar, jafnvel ekki nema einn stigi, ef vel ætti að vera, þannig að það væri hverjum skattgreiðanda ljóst, að þegar hann greiðir, hafi hann endanlega greitt sinn skatt, en þetta merkir að breyta þarf ýmsum frádráttarreglum, og allmörg veigamikil atriði eru þess eðlis, að þau, eins og skattkerfið er í dag, gera breytingar óumflýjanlegar. Þetta hefur auðvitað ýmis vandamál í för með sér, einkanlega fyrir sveitarfélögin, sem hafa mjög mismunandi skattstiga. Nefndin, sem málið kannaði, hefur alveg til hlítar gert sér grein fyrir því, að það eru sveitarfélögin og útsvarsmálin, sem hér eru einn erfiðasti hnúturinn vegna þess, hversu útsvör eru misjafnlega há í hinum ýmsu sveitarfélögum. Það hafa verið notaðir 30–40 skattstigar, ef svo má segja, ef við köllum í þessu tilfelli skattstiga hina mismunandi frádrætti og álag á útsvör, sem innheimt hafa verið á hinum ýmsu stöðum. Nú er það auðvitað mikil nauðsyn, að reynt verði að stefna að því, að skattborgararnir greiði sömu álögur til ríkis og sveitarfélaga, hvar sem þeir eiga heima á landinu, og það væri því æskilegra, að meira væri horfið í þá átt að nota jöfnunarsjóð til að jafna þarna á milli en að hafa mjög mismunandi álagningu á borgarana, sem hlýtur, þegar til lengdar lætur, að valda því, að viðkomandi sveitarfélög beinlínis kyrkja sjálf sig, ef svo má segja, á þann hátt, að þau hrekja burtu atvinnurekstur. Ef árum saman á að framkvæma stórfelldar álögur á útsvörin í viðkomandi sveitarfélögum, þá gefast atvinnurekendur og þeir, sem tekjuháir eru í sveitarfélaginu, að sjálfsögðu upp á því að eiga þar bólfestu og kjósa heldur að leita til þeirra staða, þar sem útsvör eru lægri. Þetta held ég, að liggi í augum uppi, enda hefur oft að þessu máli verið vikið hér á þingi. En þetta er töluvert flókið vandamál.

Kjarni málsins er sá, að til þess að staðgreiðslukerfið geti komið að fullu gagni og verkað eðlilega, á þann hátt að koma í veg fyrir skattsveiflur, sem menn hafa verið að tala um á milli ára, þá er það hin mesta nauðsyn, að sami skattstigi gildi um sem allra víðast svið teknanna. Niðurstaðan hjá nefndinni hefur orðið sú, að þetta yrðu tveir stigar í stað þess, að þeir eru þrír í dag, og hefur nefndin gert sér fulla grein fyrir áðurnefndri nauðsyn, en ég er ekki alveg viss um, að gengið sé alveg nógu langt, til þess að sá árangur náist, að ekki þurfi að koma til mikillar eftirálagningar gjalda. Eins og ég áðan sagði, þá skal ég ekki þreyta hv. þm. á löngu máli um skýrslu nefndarinnar, sem er hið skilmerkilegasta plagg og gerir fullkomlega grein fyrir vandamálunum elns og þau liggja fyrir, og ég sé ástæðu til, eins og ég áðan sagði, að þakka nefndinni fyrir hennar ágæta starf. Ég tel mikilvægt einmitt með hliðsjón af mörgum þeim nýjungum, sem nefndin hefur leitt í ljós, þeim nýju vandamálum, sem ég er ekki alveg viss um, að allir hafi gert sér grein fyrir, að í fyrsta lagi verði mörkuð stefna um það, hvort Alþ. er enn þeirrar skoðunar, að stefna beri að því með fullum hraða að taka upp staðgreiðslukerfið, og í annan stað, hvort Alþ. að öllu óbreyttu er þeirrar skoðunar, að fylgja eigi þeirri stefnu að aðlaga skattstaðgreiðslukerfið að núgildandi skattkerfi sem mest óbreyttu eða hvort eigi að stefna að því, a.m.k. kanna það til hlítar, hvort ekki séu tök á því að gera á skattkerfinu sjálfu þær breytingar, að staðgreiðslukerfið mundi leiða til jákvæðari niðurstöðu og vera kostnaðarminna og einfaldara á allan hátt en það hlýtur að verða með því að fylgja þeirri aðferð að aðlaga það því skattkerfi, sem við í meginefnum búum við.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, nema tilefni gefist til, að hafa þessi orð mín fleiri, en legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn. Vildi ég mjög mælast til þess, að n. leitaðist við að skila áliti nú, áður en þingi lýkur, þannig að legið geti fyrir endanleg niðurstaða Alþ. um það, hvernig áfram beri að vinna að þessu máli.