18.03.1970
Sameinað þing: 39. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í D-deild Alþingistíðinda. (3444)

175. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins lýsa því yfir og undirstrika það, að ég er sama sinnis og áður um það, að ég tel, að stefna beri að því að taka upp staðgreiðslukerfi skatta. Og ég tel, að vinna eigi að því að forma tillögur um það efni, en hitt er áreiðanlega rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að það koma til mörg vandamál í sambandi við framkvæmd á þessu, þegar farið er að athuga það nánar, og það geta komið til álita í því sambandi fleiri leiðir en ein. Hefur það og sýnt sig í sambandi við þá skýrslu, sem hér hefur verið lögð fram, að nm. hafa ekki að öllu leyti getað orðið sammála. Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri sérálit í meginatriðum, ef ég man rétt. Það getur verið álitamál, hvað á að kalla meginatriði og hvað ekki. Ég held, að ég vilji nú tæpast kveða svo sterkt að orði, að um meginatriði sé þarna að tefla, sem ágreiningur er um, en samt sem áður atriði, sem að mínum dómi þarf verulega vel að hyggja að.

Auðvitað taka allir undir það, að skattkerfi þurfi að vera einfalt, og auðvitað hlýtur mörgum að sýnast einkennilegt, að það þurfi að hafa svo marga skatta að tölunni til, að ekki sé hægt að taka þá í einu eða a.m.k. í færri tilfellum en nú er gert. Og það virðist nokkuð liggja í augum uppi, að þessir mörgu skattar geri þetta allt heldur flóknara en þörf væri á. Ég tek þess vegna alveg undir það, og ég geri raunar ráð fyrir því, að það geri flestir þm., að skattkerfið þurfi að verða einfaldara en það er. Hins vegar stöndum við sjálfsagt andspænis nokkrum vanda, þegar á að fara að koma því í framkvæmd. Ég býst við, að það geti vafizt fyrir mörgum. Ég er persónulega alveg sammála því, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh., að æskilegt sé, að skattar og útsvör séu hin sömu hvar sem er á landinu. Ég lít svo á og hef alltaf litið svo á, að það væri óeðlilegt, að menn, sem búsettir eru á þessum eða hinum staðnum, þurfi að greiða hærri álögur en menn, sem búa annars staðar. Það segir sig sjálft, að það getur orðið til þess, að þeir leiti burt af slíkum stöðum, sem sízt skyldi, þ.e. þeir, sem kannske eru færastir um að standa undir þörfum viðkomandi sveitarfélags. Ég veit, að um þetta eru skiptar skoðanir og auðvitað segja menn, að það megi ekki rýra sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaganna, og sjálfsstjórnarréttur er það út af fyrir sig að hafa svigrúm eða frjálsræði til þess að skattleggja sjálfa sig, því verður ekki neitað. En ég tek persónulega undir það, sem fjmrh. sagði í þessu efni, að stefna eigi að því, að þessar persónulegu álögur verði hinar sömu hvar sem er, en þann mismun, sem af því kemur, verði síðan að jafna t.d. með jöfnunarsjóði eða einhverjum slíkum hætti, þannig að það verði ekki þeim sveitarfélögum sérstaklega til hnekkis, sem kynnu að þurfa að breyta eitthvað til í þessu efni frá því, sem nú er.

Það má kannske lengi deila um það, hvernig skattkerfið skuli upp byggt og hvort reynt skuli að aðlaga staðgreiðslukerfið því skattkerfi, sem fyrir er nú, að einhverju leyti eða byggja það á einhverjum alveg nýjum grundvelli. Ég er ekki við því búinn að láta í ljós álit í því efni á þessu stigi og ég held, að menn þurfi að hugsa það talsvert og athuga, og þó að þessi skýrsla hafi nú legið alllengi hér hjá okkur þm. og þó að hæstv. fjmrh. mæltist til þess, að fjvn. hraðaði heldur sínum störfum, þá vil ég vænta þess, að þm. gefist kostur á að íhuga þetta mál allt vel og hyggja að ýmsum atriðum í því sambandi. Hins vegar verður auðvitað ekki séð fyrir allt í þessu efni, fyrr en frv. hefur verið formað um það.

Í þessari þáltill. segir, ef ég man rétt, að ríkisstj. skuli falið að semja frv. í samræmi við það meginefni, sem fram kemur í áliti þessarar nefndar. Eins og ég drap á áðan, er sérálit í nefndinni og nokkur ágreiningur, og þess vegna vil ég a.m.k. áskilja mér rétt til þess að íhuga það, hvort í slíku orðalagi og slíkri samþykkt felist að einhverju leyti játun undir meirihlutaálitið í þessu efni. Ég álit, að á þessu stigi eigi að afgreiða málið þannig eða hafa till. þannig, að ekki sé beint kveðið upp úr um það efni. Mér skilst, að þau framkvæmdaatriði, sem þessi ágreiningur lýtur að, þurfi að athugast enn þá betur en gert hefur verið í þessari hv. nefnd, sem hefur haft það til meðferðar, og efast ég þó ekki um, að hún hafi lagt í það mikla og góða vinnu. En það er alveg laukrétt, og ég vil undirstrika það, sem hæstv. fjmrh. sagði, að bezt fer á því, að menn geri sér ljóst í upphafi, að það hljóta að vera ýmis vandkvæði þessu samfara og því hljóta að koma til sögunnar margvísleg vandamál. Þess vegna legg ég nú meira upp úr því, að málið sé ítarlega athugað heldur en þó hraðanum á þessari framkvæmd.