18.03.1970
Sameinað þing: 39. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í D-deild Alþingistíðinda. (3445)

175. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Samkv. þeirri till., sem hér er til umr., er lagt til, að Alþ. lýsi yfir því á nýjan leik, að það óski eftir því, að samið verði frv. um staðgreiðslukerfi opinberra gjalda. En áður hefur Alþ. í rauninni gert samþykkt, sem felur þetta í sér. Í þessari till. sýnist mér, að mörkuð sé ákveðin stefna í sambandi við það frv., sem lagt er til að leggja fyrir Alþ., því að í till. segir, að það frv., sem semja á, skuli í meginefnum vera í samræmi við till. nefndar þeirrar, sem Alþ. kaus samkv. þál. frá 18. apríl 1967.

Ég hef nokkuð athugað þetta nál. fyrir mitt leyti og veitt því athygli, að um nokkurn ágreining var að ræða hjá nm., en ég held, að það geti ekki leikið á því neinn vafi, að uppi munu verða miklu fleiri skoðanir um ýmis mikilvæg atriði þessa máls heldur en þar koma fram, sem sagt, í þeim ágreiningi, sem er á milli meiri hl. og minni hl. nefndarinnar. Því tel ég, að ef þess er óskað af hálfu ráðh., að Alþ. endurnýi sína fyrri samþykkt um það, að áfram skuli unnið að því að koma á staðgreiðslu opinberra gjalda, m.a. með því að semja frv. um málið og leggja það hér fyrir þingið, þá væri langeðlilegast á þessu stigi málsins að hafa þessa till. þannig, að því sé slegið föstu, að áfram verði haldið undirbúningi málsins og frv. um málið verði lagt fyrir þingið, en hitt fellt niður úr till., sem þar er slegið föstu, að frv. skuli í meginatriðum vera í samræmi við nál. Ég held líka, að ef staðið er fast á því, sé óhjákvæmilegt að taka hér til rækilegrar umr. sjálft nál. Ég fyrir mitt leyti hef margar aths. við það að gera. Þegar ég las það yfir, merkti ég þar við á ótal mörgum stöðum. Það vöknuðu hjá mér ýmsar spurningar og það var ekkert um það að ræða, að ég hafði þar talsvert aðra skoðun en kom fram hjá meiri og minni hl. þessarar nefndar. Ég held því, að engin þörf sé á því á þessu stigi málsins að fara að hefja hér almennar umr. um nál. og þetta margslungna mál. Ég held, að sjálfsagt sé að endurnýja samþykkt Alþ. um það, að unnið verði að því að koma hér á staðgreiðslukerfi opinberra gjalda. Ég get fyrir mitt leyti fallizt á, að það sé t.d. byggt á því, sem segir í till., að leitazt skuli við að gera skattheimtukerfið eins einfalt og tök eru á, eða eins og segir nánar í till. um það efni. Ég sé ekki neina þörf á að slá því föstu, að frv. skuli eiga að byggjast í meginatriðum á þeim sjónarmiðum, sem koma fram í nál. Það verður sem sagt að vera mál ríkisstj., sem lætur undirbúa frv., hvort hún kann að víkja þar frá í einstökum atriðum. Að sjálfsögðu yrði nál. þá alltaf fskj. með frv. og málið yrði þá tekið hér til afgreiðslu á sínum tíma síðar.

Ég vildi sem sagt, að sú n., sem fær málið til athugunar, tæki einnig til athugunar, hvort ekki væri rétt að standa að samþykkt till. á þann hátt, sem ég hef greint, fella þetta stefnumarkandi ákvæði út úr till., en slá hinu föstu, að frv. skuli samið um málið og lagt fyrir Alþ. og að leitazt sé við að gera skattheimtukerfið sem einfaldast og ódýrast.